Um daginn hitti ég alþingismann á förnum vegi á hátíðarstundu. Eftir kurteislegar kveðjur á báða bóga spurði þingmaðurinn hvernig okkur í stjórnlagaráði gengi – og svo hvort fyrir lægju hugmyndir um málsmeðferð tillagna okkar og hverjar þær væru.
Ég svaraði því til, eins og ég hef jafnan gert, að ég teldi víst – eins og meginþorri stjórnlagaráðsfulltrúa hefði lagt áherslu á – að stjórnlagaráð myndi einhuga leggja til að þjóðin fengi tillögur okkar fyrst til umfjöllunar, áður en Alþingi fengi tillögur að nýrri stjórnarskrá til afgreiðslu; þetta var forsenda þátttöku minnar frá upphafi.
… þingið ræður…
Áður en athygli þingmannsins beindist að öðrum hátíðargesti náði hann að segja við mig – löglærðan manninn:
Já, en þingið ræður…
Enginn lögfræðingur á að velkjast í vafa um að formlega er stjórnskipulega staðan sú að tvær samþykktir Alþingis – með alþingiskosningum á milli – þurfi til þess að samþykkja stjórnarskrárbreytingar. Það vekur alltaf athygli þegar hið sjálfsagða er sagt. Árétting þingmannsins er því að mínu mati vitni um annars vegar óöryggi og tilraun til að halda í völd. Hins vegar eru ummæli þingmannsins dæmi um að valdhafar skynji ekki vitjunatíma sinn og kröfur um óháða endurskoðun á starfsumhverfi Alþingis og annarra æðstu handhafa ríkisvalds.
Ekki hægt að neita þjóðaratkvæðagreiðslu
Verði stjórnlagaráð sammála um megindrætti í nýrri stjórnskipan og þá málsmeðferðartillögu, sem ég vænti, að spyrja skuli þjóðina álits á undan Alþingi, væri það afar varhugaverð meðferð valds að neita stjórnlagaráði og þjóðinni um þá málsmeðferð.
Allt vald þarf að tempra – einnig vald þjóðþingsins.
Alþingi samsinnti – hví ætti að hætta við?
Þessu var allsherjarnefnd sammála á fyrri stigum málsins; undarlegt væri að bakka nú. Þegar Alþingi bauð mér sæti í stjórnlagaráði skrifaði ég – er ég þáði boðið:
Allsherjarnefnd Alþingis hefur auk þess fallist afdráttarlaust á það sem valkost að niðurstöður stjórnlagaráðs megi bera undir þjóðina sjálfa áður en Alþingi tekur þær til efnislegrar afgreiðslu (sjá þskj. 1028 á 139. löggj.þ.) eins og einnig var ráðgert um stjórnlagaþing (sjá þskj. 1354 á 138. löggj.þ.). Stjórnlagaráði er falið að gera tillögu í þessu efni – og tek ég undir með allsherjarnefnd Alþingis að rétt sé að bera mismunandi kosti undir þjóðina. Um þá forsendu af minni hálfu sagði í formlegri kynningu við framboð til stjórnlagaþings, dags. 17. október 2010, að fyrst þyrfti “að bera niðurstöðu stjórnlagaþings undir þjóðina” – áður en Alþingi fengi hana til afgreiðslu. Sjálfstæði stjórnlagaráðs út á við er því fyrir hendi enda verður þessi afstaða ekki dregin til baka er tillögur stjórnlagaráðs hafa litið dagsins ljós. Lít ég einnig til þess að þjóðin er í réttarvitund almennings, í stjórnlagafræði og í huga forseta Íslands talin æðsti handhafi ríkisvalds – ekki síst er öðrum handhöfum eru settar reglur og mörk til þess að starfa eftir í umboði þjóðarinnar.
Auðvitað ræður þjóðin!