Í 5. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er að finna nýmæli – sem ekki er að finna í gildandi stjórnarskrá.
Skýra má 1. mgr. í samhengi við 9. gr.
Þar sem ákvæðið kom fremur seint fram og greinargerð með því (eins og frumvarpinu öllu) er í vinnslu verður samhengi þessa ákvæðis við 9. gr. frumvarpsins væntanlega betur skýrt síðar.
Ákvæð 5. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins hljóðar svo:
Stjórnvöldum ber að tryggja að allir fái notið þeirra réttinda og þess frelsis sem í þessari stjórnarskrá felast.
Allir skulu virða stjórnarskrá þessa í hvívetna, sem og þau lög, skyldur og réttindi sem af henni leiða.
Fyrri málsgreininni er væntanlega ætlað að árétta að stjórnarskrá feli ekki aðeins í sér takmarkanir við afskiptum ríkisins af borgurunum heldur einnig að stjórnvöldum beri að tryggja með „jákvæðum“ hætti og beinum aðgerðum eftir atvikum að borgararnir fái notið stjórnarskrárvarinna mannréttinda og frelsis – en það er, sem sagt, öðrum þræði markmiðið með 9. gr. sem ég mun fjalla um 9. ágúst nk.
Virðing allra við stjórnarskrá áréttuð
Síðari málsgreinin er í betri takti við fyrirsögnina – „Skyldur borgaranna“ – en oft er kallað eftir því að stjórnarskrá fjalli ekki aðeins um stjórnskipulag og æðstu stofnanir ríkisins og réttindi borgaranna enda leiði af réttindum skyldur og að samhengi verði að vera milli réttinda og skyldna; sömuleiðis var það leiðarstef í störfum stjórnlagaráðs að samhengi væri milli valda og ábyrgðar. Hér er bætt úr því og tel ég fara vel á því að fjalla um skyldur allra og virðingu við stjórnarskrána svo framarlega, í undirstöðukafla.
Þá tel ég kost að bæði sé rætt um stjórnarskrána og afleiddar reglur í 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins eins og mikilvægt er jafnan í stjórnskipunarrétti og t.a.m. mjög ríkjandi í Evrópurétti.
Loks er þetta mikilvæg markmiðs- eða vísiregla þara sem ekki náðist nægur stuðningur við að setja beint viðurlagaákvæði í stjórnarskrárfrumvarpið eða annað sem tæki beinlínis á því að brotum gegn stjórnarskrá fylgdu einhverjar afleiðingar eins og ég tel mikilvægt að árétta; hér segir þó að allir skuli virða stjórnarskrána og afleidd lög, réttindi og skyldur – og nær það ekki aðeins til borgaranna eins og fyrirsögnin gefur til kynna heldur einnig til handhafa ríkisvalds eins og upphaflega var tilgangurinn með mannréttindaákvæðum og, síðast en ekki síst, til lögaðila, svo sem fyrirtækja og hagsmunaaðila – sem voru raunar aðalmarkhópurinn er ég barðist fyrir því að fá inn ákvæði 9. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins sem ég fjalla nánar um eftir fjóra daga.
„Lárétt þriðjamannsáhrif“?
Eins og þá verður fjallað nánar um má segja að 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins feli einnig í sér vísbendingu um „lárétt“ áhrif stjórnarskrár eða svonefnd „þriðjamannsáhrif,“ þ.e. ekki aðeins milli borgaranna og ríkisins („lóðrétt“ áhrif) heldur einnig milli borgaranna innbyrðis og gagnvart lögaðilum.