Laugardagur 06.08.2011 - 23:30 - FB ummæli ()

Jafnræði (6. gr.)

Vel fer á að skrifa stuttlega um jafnræðisregluna í 6. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs nú í dag, 6. ágúst, þegar Hinsegin dagar standa sem hæst – en eitt helsta nýmælið í væntanlegri stjórnarskrá, ef að líkum lætur, er – eins og ég lofaði í kosningabaráttu minni í haust svo sem fjölmargir aðrir – að kynhneigð er nú í fyrsta skipti nefnd sem eitt af þeim atriðum sem er ólögmætur grundvöllur til þess að mismuna fólki.

Málefnalegur mismunur er heimill (og jafnvel skylda) en ómálefnaleg mismunun bönnuð

Ég orða þetta meðvitað svona þar sem fjöldi atriða er lögmætur grundvöllur „mismununar.“ T.a.m. má „mismuna“ eftir hæfileikum, t.d. við ráðningar í opinber störf – og er raunar skylda samkvæmt gildandi lögum og sama stjórnarskrárfrumvarpi (sjá 2. mgr. 96. gr.); til er doktorsritgerð á dönsku um að stjórnsýslan gangi út á að „mismuna.“

  • Þeir sem eiga börn fá barnabætur,
  • þær sem eru aldraðar fá lífeyri,
  • þau sem eru í námi fá námslán o.s.frv.

Álitamálið er hvaða atriði eru lögmæt ástæða mismunandi meðhöndlunar (og einkum hver eru ólögmætur grundvöllur mismunandi niðurstöðu) en slíkur mismunur felur einmitt ekki í sér óheimila mismunun. Sem dæmi má nefna að ekki er heimilt að afgreiða umsóknir eftir háralit (sem er ekki algeng ástæða mismununar – og því ekki nefnd í jafnræðisreglum) eða húðlit (sem hefur sögulega verið notað sem rök fyrir mismunun – og því gjarnan nefnd í jafnræðisákvæðum stjórnarskráa og mannréttindasáttmála).

Lengri upptaling

Ákvæðið hljóðar svo:

Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Um síðari málsgreinina fjölyrði ég ekki – en svara gjarnan í athugasemdadálki – enda er hún óbreytt frá gildandi stjórnarskrá þar sem kynjajafnrétti er áréttað í síðari málsgrein 65. gr. í gildandi stjórnarskrá (þó að sumir teljast það felast í almennu jafnræðisreglunni í fyrri málsgrein).

Sjálfsagt er að nefna fötlun – eins og fram er komið.

Óheimilt að mismuna vegna aldurs og búsetu

Nýmælin – auk kynhneigðar, eins og að framan getur – felast einkum í aldri og búsetu – sem ég barðist sérstaklega fyrir að tilgreind yrðu vegna bakgrunns míns sem fyrrvarandi framkvæmdarstjóri og lögmaður heildarsamtaka launafólks og sem landsbyggðarmaður; var ég hissa hvað þau atriði mættu lítilli andstöðu innan ráðins og fengu fyrir vikið minni umræðu en ella – en ég er tilbúinn til þess að rökstyðja þessar viðbætur ef óskað er.

Önnur atriði!

Undir lok vinnu stjórnlagaráðs var stungið upp á „kynvitund“ til viðbótar við þau atriði sem ekki má mismuna út af; sjálfur var ég í vafa en studdi ekki þar sem

  • tillagan kom mjög seint fram,
  • ég taldi nóg að gert með þá upptalningu sem komin var,
  • flest atriðin í upptalningunni er hlutlægari en þetta fremur nýja hugtak,
  • hugtakið er nýtt og lítt þekkt meðal almennings og fræðimanna utan þröngs sviðs,
  • ekki voru tilgreindir atburðir sem bentu til mismununar á grundvelli kynvitundar,
  • staða að öðru leyti nær til kynvitundar eftir atvikum eins og til annars

Hvort – ekki hvað!

Aðalágreiningurinn innan stjórnlagaráðs laut ekki að því hvaða tilvik ætti að tilgreina sem óheimilan grundvöll mismununar – heldur hvort telja ætti upp „endalaust“ þau atriði sem ekki mætti mismuna útaf eða hvort setja ætti punkt á eftir „án mismununar“ eins 0g nokkrir innan ráðsins vildu; við héldum okkur við umdeilanlega lagahefð okkar að telja upp helstu atriðin sem hafa sögulega verið grundvöllur mismununar. Ég studdi það heilshugar enda veit ég að Reykvíkingum og Raufarhafnarbúum er sjaldan mismunað vegna  uppruna en öðru máli gegnir um þá sem hafa aðra trú, annan húðlit eða aðra kynhneigð en sá meirihluti sem fyrir er.

„Öll erum við jöfn…“

Annað nýmæli felst í því að þetta eina ákvæði – en sem betur fer að mínu mati ekki önnur – er sett fram í 1. persónu (við) í stað 3. persónu auk þess sem hvorugkyn er notað en þetta var spyrt saman til þess að árétta að þjóðin væri að setja sér samfélagssáttmála og í því skyni að árétta að karlar eru ekki einu viðföngin og heldur ekki lengur aðal“mennirnir“ á svæðinu. Ég studdi þessa nýbreytni en dró mörkin við aðalmannréttindaregluna – jafnræðið  – og lagðist gegn því að fleiri mannréttindaákvæði yrðu orðuð svona; þar er því talað um „alla“ frekar en allar eða okkur öll!

Stjórnmálatengsl óheimil ástæða mismununar

Merkasta nýmælið – og það sem mér þykir vænst um, þar sem ég stakk upphaflega upp á því – er að óheimilt verður samkvæmt nýrri stjórnarskrá, taki hún gildi, að mismuna á grundvelli stjórnmálatengsla; þetta var umdeilt innan ráðsins eins og sjá má á upptökum af ráðsfundum – en varð samt ofan á enda vita allir sem hafa kynnt sér þjóðmálasögu Íslendinga á síðustu öld að full ástæða er til þess að hindra að fólki sé refsað eða umbunað vegna tengsla svið stjórnmálaöfl; af þeim ástæðum var hafnað málefnalegum mótrökum að hugtakið skoðanir næðu yfir það sama – eins og líklega er talið í siðuðum ríkjum.

Þess má að lokum geta að jafnræðisreglunni var slegið fastri í stjórnskipun Íslands þegar árið 1992 – þremur árum áður en reglan var sett á blað 1995 við endurskoðun mannréttindakafla gildandi stjórnarskrár – er Hæstiréttur dæmdi ólögmæta mismunuun þegar ríkisstjórn og Alþingi höfðu tekið af háskólafólki umsamdar kjarabætur í nafni heildarhagsmuna. Reglan var því til, óskráð, áður en hún var fest í stjórnarskrána.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur