Miðvikudagur 10.08.2011 - 12:00 - FB ummæli ()

Mannhelgi (10. gr.)

Í 10. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Öllum skal tryggð mannhelgi og vernd gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, innan heimilis og utan.

Hér er sjálfsögð skylda lögð á ríkið – alla handhafa ríkisvalds

  • löggjafann,
  • handhafa framkvæmdarvalds (t.d. lögreglu) og
  • handhafa dómsvalds –

til þess að vernda borgarana gegn einni af elstu hættunum sem að þeim beinist – einkum áður en ríki tekur á sig mynd eða nær þroska.

Feminisminn skýr

Sem yfirlýstur feministi og 3ja barna faðir er ég stoltur af því að eiga þátt í því að æðstu lög landsins muni tiltaka að mannhelgi innan veggja heimilisins er ekki síður verndarandlag en það sem stundum er nefnt „tilefnislaust“ ofbeldi eða árásir af hálfu óþekktra gerenda, utan heimilis. Staðreyndin er sú að alvarlegasta ofbeldið – sé litið til stöðu geranda, tengsla hans við þolanda og jafnvel eðilslægs trúnaðarsambands, t.d. í kennslu- eða trúarsamskiptum, svo og til afleiðinga á þolanda, líkamlega og andlega – á sér stað í nánum tengslum, jafnvel innan fjölskyldu og jafnvel innan veggja heimilis – sem stjórnarskráin hefur tryggt friðhelgi í 137 ár.

Líta ber til þess að þegar við ferðumst utan okkar nánasta umhverfis og heimilis erum við ekki eðlislægt eins örugg með okkur og heima; heima ættum við að vera öruggust!

Á að nefna eina tegund ofbeldis?

Aðeins var rætt innan ráðsins hvort nefna ætti kynferðisofbeldi sérstaklega; ég var eindregið þeirrar skoðunar enda beinist það gjarnan að einstaklingum sem standa andlega eða líkamlega veikar að vígi en gerandinn – auk þess sem að ofan greinir um trúnaðarsamband og traust, svo sem innan veggja heimilis.

Full ástæða er því til þess að mínu mati – í ljósi réttarframkvæmdar undanfarna áratugi, þjóðfélagsumræðu undanfarin ár og atburða undanfarna mánuði til þess að nefna bæði kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi sérstaklega í stjórnarskrá.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur