Í 25. gr. frumvarps stjórnlagaráðs segir:
Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum ef almannahagsmunir krefjast.
Í lögum skal kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, svo sem hvíldar, orlofs og frítíma. Öllum skal tryggður réttur til sanngjarnra launa og til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu.
Óbreytt atvinnufrelsisákvæði
Í gildandi stjórnarskrá er sams konar ákvæði og í 1. mgr. 25. gr. frumvarpsins, þ.e. fyrri málsliður hennar hennar er samhljóða og síðari málsliðurinn efnislega alveg eins. Fjölyrði ég því ekki um þá málsgrein – sem m.a. bannar takmörkun atvinnufrelsis með reglugerð samkvæmt frægu fordæmi Hæstaréttar frá 1988; lög eru áskilin sem formskilyrði auk efnisskilyrðis um almannahagsmuni sem dómstólar hafa að vísu talið að Alþingi meti að meginstefnu sjálft. Í orðalaginu um að almannahafsmunir þurfi að „krefjast“ takmörkunar felst væntanlega áskilnaður um meðalhóf, þ.e. ríka nauðsyn, eins og víðar í stjórnarskránni.
Í 2. mgr. 25. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins felst hins vegar breyting frá gildandi stjórnarskrá
Sanngjörn laun skulu tryggð
Þar er annars vegar bætt við síðari málsliðinn vísireglu um að öllum skuli tryggja rétt til sanngjarnra launa; verður það væntanlega eftir sem áður að meginstefnu til gert með gerð kjarasamninga milli samningsaðila á vinnumarkaði, stéttarfélaga og samtaka atvinnurekenda.
Þá er tekið út skilyrði um að trygging fyrir samningsrétti skuli felast í lögum og sýnist mér það ágætt enda geta aðilar á vinnumarkaði samið um samningsrétt og samskiptareglur án atbeina löggjafans eins og gert er í ríkari mæli í Danmörku t.a.m.
Löggjafinn tryggi mannsæmandi vinnuskilyrði
Hins vegar er sú skylda lögð á Alþingi að kveða með lögum „á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, svo sem hvíldar, orlofs og frítíma.“ Þetta þykir sumum e.t.v. örlítið stílbrot frá þeirri stefnu, sem Íslendingar hafa fylgt í nærri jafn miklum mæli og skandinavísku þjóðirnar – um að samningsaðilar á vinnumarkaði sjái um þessi mál. Lög kveða þó þegar að nokkru leyti á um mannsæmandi vinnuskilyrði eins og nefnd eru dæmi um – svo að stílbrotið er frekar fræðilegt eða formlegt en í raun.
* Hér má lesa ítarlegri skýringar skrifstofu stjórnlagaráðs með stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs (sjá um þetta ákvæði á bls. 72-3).