Um 26. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs hef ég ekki margt að segja en hún hljóðar svo:
Allir skulu ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem eru settar með lögum.
Engum verður meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómstóla. Stöðva má þó brottför manns úr landi með lögmætri handtöku.
Með lögum skal kveða á um rétt flóttamanna og hælisleitenda til réttlátrar og skjótrar málsmeðferðar.
Í gildandi stjórnarskrá eru nær samhljóða ákvæði um það sem fram kemur í fyrstu tveimur málsgreinunum; engin efnisbreyting er því á stjórnarskrá með þeim. Þá eru fyrri málsgreinar sömu stjórnarskrárgreinar um ríkisborgararétt fluttar í I. kafla, 4. gr. – sem ég hef þegar skrifað um.
Ákvæði 3. mgr. felur hins vegar í sér nýmæli í stjórnarskrá – þ.e.a.s. að lögum (de jure). Í raun (de facto) er hins vegar ekki um efnisbreytingu að ræða þar sem réttur flóttamanna og hælisleitenda „til réttlátrar og skjótrar málsmeðferðar“ er þegar tryggður í lögum en viðbót þessi þótti eðlileg ábending í stjórnarskrá um rétt þeirra samkvæmt alþjóðareglum.
* Hér má lesa ítarlegri skýringar skrifstofu stjórnlagaráðs með stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs (sjá um þetta ákvæði á bls. 73-74).