Í 34. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er að finna eitt mikilvægasta ákvæðið frá stjórnlagaráði – en þar er leitast við að takast á við eitt mesta óréttlæti undanfarinna áratuga á Íslandi án þess að hrófla við þeirri skilvirkni sem kvótakerfið, t.d., gefur færi á:
Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.
Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námaréttinda. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.
Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.
Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.
Í gildandi stjórnarskrá er ekkert fjallað um þetta – að öðru leyti en að eignarréttarákvæðið og ákvæði um atvinnufrelsi hafa verið nefnd til sögunnar af hálfu hagsmunaðila. Til mótvægis þarf að árétta mikilvægan rétt þjóðarinnar til auðlindarentu og forræðis – þó að vitaskuld þurfi að gæta réttar atvinnurekenda af fjárfestingu í greininni og eðlilegri áhættu.
Lykilatriði er að
- stjórnvöld veiti
- „á grundvelli laga“ leyfi til
- að hagnýta auðlindir eða takmörkuð gæði,
- „gegn fullu gjaldi“
- og aðeins til tiltekins tíma í senn og
- að sá tími sé hóflegur.
Þá er kveðið á um eftirfarandi:
Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.
* Hér má lesa ítarlegri skýringar skrifstofu stjórnlagaráðs með stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs(sjá um þetta ákvæði á bls. 84-87).