Í 48. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:
Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína, en ekki við nein fyrirmæli frá öðrum.
Alþingismenn óháðir hagsmunaöflum
Í gildandi stjórnarskrá er sams konar ákvæði að finna nema hvað þar er í niðurlagi rætt um að alþingismenn séu „eigi [bundnir] við neinar reglur frá kjósendum sínum.“ Vildum við í stjórnlagaráði f.o.f. árétta þetta en um leið rýmka regluna þannig að ljóst væri að hvorki kjósendur né „aðrir“ – t.d. hagsmunaaðilar sem hafa stutt við kjör þingmanns eða flokks – hefðu tangarhald á þingmanni eftir að hann hefði verið kjörinn á Alþingi.
Þetta er mikilvægt til þess að hindra spillingu.
Breytt regla myndi auka foringjaræði
Opinber umræða um þessa reglu er að mínu mati oft á villigötum þar sem stundum er rætt um þingmenn (frekar en flokka) sem „svíkja“ kosningaloforð þannig að þeir eigi að segja af sér ef þeir breyta um afstöðu – eða eru taldir gera það – og einkum ef þeir skipta um (þing)flokk. Mér virðist sú gagnrýni byggjast á misskilningi; ég held að umrætt stjórnarskrárákvæði hafi ríkar sögulegar ástæður til þess að hindra atkvæðakaup og endurgjald til handa hagsmunaöflum.
Algengast er að málið komi til umræðu þegar þingmaður yfirgefur flokk – og einkum þingflokk – vegna stefnuágreinings og eftir atvikum sökum ágreinings við forystu (þing)flokks eða meirihluta hans.
Ég held að gagnrýnendur þessa gamla og margreynda ákvæðis, sem var lítið umdeilt í stjórnlagaráði, átti sig ekki á því að ef sú krafa yrði gerð að „flokkaflakkarar“ segðu af sér þá myndu völd meirihluta flokka og einkum flokksforystu og jafnvel flokksformanna aukast til muna; það er hins vegar ekki í samræmi við afstöðu mína og – að ég held – ekki í samræmi við réttarvitund almennings.
Ég held því að breyting í þá veru að þingmaður, sem yfirgæfi (þing)flokk skyldi samkvæmt stjórnarskrá yfirgefa Alþingi, myndi hafa þveröfug áhrif miðað við hvers krafist er og hefur verið. Slík regla myndi auka mjög foringjaræði í íslenskum stjórnmálum; með því mæli ég vitaskuld ekki gegn heilbrigðum flokksaga og stefnufestu og trúnaði við flokksfélaga og kjósendur.
- Hér má lesa ítarlegri skýringar skrifstofu stjórnlagaráðs með stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs (sjá um þetta ákvæði á bls.116).