Í 66. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:
Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi.
Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi.
Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því málið hefur verið afhent Alþingi.
Öfugt við hið „neikvæða“ úrræði, sem ég skrifaði um í gær, er þetta frumkvæði kjósenda eða „þjóðarfrumkvæði“ jákvætt í þeim skilningi að það er ekki takmarkað við nýsamþykkt lög heldur geta kjósendur samkvæmt þessu sjálfir sett hvaða löggjafarmál sem er á dagskrá – að undanskildum sömu málum og í tilviki málskots til kjósenda skv. 67. gr. frv. , sem nánar verður fjallað um á morgun.
Nýmæli
Í gildandi stjórnarskrá er ekkert um slíkt þjóðarfrumkvæði. Um er að ræða enn meira nýmæli en málskot til þjóðarinnar enda er hið síðarnefnda eðlislíkt þeim þremur bindandi þjóðaratkvæðagreiðslum sem stjórnarskráin fyrirskipar eins og rætt var í síðasta pistli.
4.500 kjósendur hafa tillögurétt…
Samkvæmt 1. mgr. 66. gr. frumvarpsins geta 2% kjósenda, sem sagt, þ.e. nú rúmlega 4.500 kjósendur,
lagt fram þingmál á Alþingi.
Þingmál eru tvenns konar:
- þingsályktunartillögur og
- lagafrumvörp.
Annars segir frumvarpið fátt um hvað verði um slík þingmál sem 2% kjósenda setja á dagskrá. Þó segir í 57. gr., sem áður hefur verið fjallað um, að þingmál að tillögu kjósenda séu
tekin til athugunar og meðferðar í þingnefndum áður en þau eru rædd á Alþingi.
… en enga tryggingu fyrir niðurstöðu
Þar er engin trygging – frekar en raunar í tilviki frumvarpa eða þingsályktunartillagna frá þingmönnum eða ríkisstjórn (lagalega) – fyrir því að þingmálið verði rætt á Alþingi en ekki aðeins „saltað“ í nefnd; ólíklegt er þó að Alþingi hunsi alveg slík þingmál sem svo margir kjósendur styðja. Líklegra er að slíkt mál sé tekið til efnislegrar umræðu og svo annað hvort
- fellt,
- samþykkt breytt eða
- samþykkt óbreytt.
23.000 kjósendur eiga rétt á þjóðaratkvæðagreiðslu
Slík lagaleg trygging fyrir efnislegri umræðu hjá þingi og þjóð er hins vegar fyrir hendi samkvæmt 2. mgr. 66. gr. frumvarpsins ef fimm sinnum fleiri kjósendur krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvarp sem þeir bera fram. Eins og fram kom í gær eru 10% kjósenda nú um 23.000 talsins; ef þeir leggja slíkt lagafrumvarp fyrir Alþingi getur þingið, sem sagt, lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps – þ.e. þingið á mótspil sem vel getur verið að fulltrúar kjósendanna fallist á.
Í þessum rétti kjósenda felst dagskrárvald eins og í fyrra tilvikinu – en nú ekki aðeins gagnvart þingnefndum og eftir atvikum þingheimi og væntanlega fjölmiðlum heldur einnig gagnvart öllum kjósendum.
Skylt að spyrja kjósendur – en ekki skylt að hlíta
Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka er skylt að bera það undir þjóðaratkvæði svo og gagn-frumvarp Alþingis, komi það fram. Valkvætt er hins vegar hvort Alþingi ákveður – fyrirfram – að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi. Þetta var mjög umdeilt á lokastigum í frumvarpssmíð stjórnlagaráðs; þessi málamiðlun var m.a. gerð þar sem fylgjendum fulltrúalýðræðis og þeim, sem vildu styrkja stöðu Alþingis, þótti vegið að þinginu og löggjafarvaldi þess ef skylt væri að hafa slíka þjóðaratkvæðagreiðslu ávallt bindandi – enda væri þá erfiðara að krefjast ábyrgðar af þingmönnum og stjórnmálaflokkum ef þeir væru ekki sjálfir með stjórn á því hvað yrði að lögum.
Dagskrárvald mikilvægt
Hvað sem því líður felst í þessu mikilvægt áhrifavald – sem oft er kallað dagskrárvald. Fræðimenn og aðrir sem þekkja til svissneskra og annarra erlendra fyrirmynda af „beinu lýðræði“ benda m.a. að í þessu dagskrárvaldi og þeim víðtæku efnisumræðum sem af því leiðir felist einn aðal kostur slíkra ákvæða. Talið er að framfaramál geti átt uppruna sinn í slíkum málum og dropinn holi steininn þó að málin breytist gjarnan oft frá því sem fyrst er lagt til og til þess sem að lokum verður að lögum.
M.a. af þeirri ástæðu er rúmur frestur – allt að 2 ár – til þess að halda þjóðaratkvæðagreiðslu eins og nánar er rakið skýringum skrifstofu stjórnlagaráðs með ákvæðinu.
Eins og áður er getið er kveðið á um það (í 67. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins) að Alþingi setji með lögum nánari reglur um útfærslu málskots til þjóðarinnar og þjóðarfrumkvæðis; af þeirri ástæðu valdi stjórnlagaráð að hafa þröskuldinn í tilviki þjóðarfrumkvæðis hinn sama og varðandi málskotsrétt til þjóðarinnar.