Í 74. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:
Alþingi kýs ríkisendurskoðanda til fimm ára. Hann skal vera sjálfstæður í störfum sínum. Hann endurskoðar fjárreiður ríkisins, stofnana þess og ríkisfyrirtækja í umboði Alþingis eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum.
Endurskoðaðan ríkisreikning næstliðins árs ásamt athugasemdum ríkisendurskoðanda skal leggja fyrir Alþingi til samþykktar samhliða frumvarpi til fjárlaga.
Lítil breyting
Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta að endurskoðun á fjárreiðum ríkisisns, stofnana þess og ríkisfyrirtækja skuli fara fram á vegum Alþingis og í umboði þess eftir nánari fyrirmælum í lögum.
Í þessu ákvæði felst engin breyting í raun frá því sem gilt hefur undanfarinn aldarfjórðung er ríkisendurskoðun var flutt undir Alþingi með lögum; áður var ríkisendurskoðun stjórnardeild í fjármálaráðuneytinu – sem augljóslega tryggði ekki sjálfstæði hennar gagnvart Stjórnarráðinu og ráðherrum. Sú breyting var svo stjórnarskrárbundin 1995.
Ákvæðið nú festir í stjórnarskrá lagaumgjörð um ríkisendurskoðanda, svo sem sjálfstæði hans, hlutverk og starfsemi. Þótti mikilvægt að stjórnarskrárbinda frekari ákvæði um ríksendurskoðun og ríkisendurskoðanda, svipað og gert er með umboðsmann Alþingis eins og fjallað er um í næstu grein. Í því felst nokkur breyting að lögum, þ.e. að færa embætti ríkisendurskoðanda á stjórnskipunarstig.