Í 76. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:
Forseti Íslands er þjóðhöfðingi lýðveldisins. Hann er þjóðkjörinn.
Engin efnisbreyting
Í gildandi stjórnarskrá segir aðeins um þetta að forseti Íslands skuli vera þjóðkjörinn. Viðbótin hér er að taka berum orðum fram – það sem undirskilið er og sjálfgefið í dag– að forsetinn sé „þjóðhöfðingi lýðveldisins.“ Í þessu felst því engin efnisbreyting.
Þá er ekki hægt að fallast á það með Björgu Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, eins og hér er fjallað um, að í því felist breyting á valdsviði forseta Íslands að stjórnlagaráð hafi meðvitað látið hjá líða að nefna forseta sem handhafa framkvæmdarvalds eins og nú. Ástæðan er sú að sammæli er um það meðal lögfræðinga að stjórnarskrána beri að skýra svo að atbeini forseta við stjórnarathafnir sé einungis formsatriði; hlutaðeigandi ráðherra – en ekki forseti –
- tekur ákvörðun um stjórnarathafnir,
- ber ábyrgð á þeim auk þess sem
- ráðherra undirritar stjórnarathafnir með forseta – sem veitir þeim gildi.
Vissulega er þetta formbreyting – en aðeins formbreyting; ef horft er til sögunnar undanfarin 70 ár, þar sem engin dæmi eru um að forseti (og áður ríkistjóri) hafi synjað um atbeina sinn til stjórnarathafna, má í besta falli gefa þessari breytingu -1 stig á skalanum -5 til +5 ef þess er freistað að setja tölugildi á breytingar á völdum (frekar en hlutverki) forseta Íslands með stjórnarskrárfrumvarpinu miðað við rétta skýringu á gildandi stjórnarskrá.