Í 77. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:
Kjörgengur til forseta er sérhver ríkisborgari sem fullnægir skilyrðum um kjörgengi til Alþingis og er orðinn 35 ára.
Kjörgengi þýðir að mega bjóða sig fram í tiltekna trúnaðarstöðu.
Í 1. og 2. mgr. 42. gr. frumvarpsins segir:
Kjörgengur við kosningar til Alþingis er hver sá ríkisborgari sem kosningarétt á til þeirra og hefur óflekkað mannorð.
Hæstaréttardómarar eru þó ekki kjörgengir.
Samkvæmt því og 41. gr. frumvarpsins yrðu kjörgengisskilyrði til forseta þessi:
- Íslenskur ríkisborgararéttur.
- Óflekkað mannorð.
- 35 ára aldur.
- Lögheimili á Íslandi á kjördag ef undantekning er ekki gerð frá þeirri reglu í lögum varðandi kjörgengi til Alþingis.
- Hæstaréttardómarar eru þó ekki kjörgengir.
Hvað breytist?
Í gildandi stjórnarskrá segir um um þetta að kjörgengur til forseta sé hver 35 ára gamall maður sem fullnægir skilyrðum kosningaréttar til Alþingis, að frátöldu búsetuskilyrðinu.
Um þetta er þrennt að segja varðandi
- óbreytt aldursskilyrði,
- Samræming á kjörgengi til þings og til forseta og
- afnám sérreglu um búsetu.
Hvað sem því líður er ljóst að vald forseta (eða hlutverk) hvorki eykst né minnkar frá því sem er; á skalanum -5 til +5, sem kynntur var í gær, er útkoman hér því 0.
35 ára aldur áfram skilyrði
Nokkuð var rætt um að breyta aldursskilyrði stjórnarskrárinnar – og þá einkum um að lækka það; allmargir vildu hafa það 18 ár eins og til Alþingis enda ekkert því til fyrirstöðu lagalega að 18 ára maður verði alþingismaður og jafnvel ráðherra. Meirihluti var fyrir óbreyttu aldursskilyrði. Mín rök fyrir því voru ekki að ég teldi verulega „hættu“ á að 18 ára maður yrði kjörinn forseti. Rök mín voru þau helst að þar sem meðmælendaskilyrði stjórnarskrárinnar eru aðeins 1.500 manns og samkvæmt stjórnarskrárfrumvarpinu nú um 2.200 kjósendur væri ekki erfitt fyrir „ungling“ að safna nægum undirskriftum til „grínframboðs“ og væri þá hætta á að forsetakosningar „spilltust“. Þó að vissulega sé unnt að safna undirskriftum til slíks framboðs manns sem er orðinn 35 ára tel ég minni hættu á því.
Samræming á kjörgengi til þings og til forseta
Stundum er talið mistök hafi verið gerð í gildandi stjórnarskrá er kjörgengi til forseta Íslands er tengt kosningarétti til Alþingis en ekki kjörgengi – sem er nærtækara. Þetta leggur stjórnlagaráð til að verði lagað þannig að þau kjörgengisskilyrði sem gilda til Alþingis gildi einnig við framboð til forseta – fyrir utan áðurnefndan 35 ára aldur.
Afnám sérreglu um búsetu
Framangreint á enn frekar við þar sem niðurlag stjórnarskrárákvæðisins um búsetuskilyrði er fellt brott samkvæmt stjórnarskrárfrumvarpinu. Í búsetuskilyrði stjórnarskrárinnar segir að lögheimili á Íslandi sé skilyrði kosningaréttar nema undantekning sé gerð frá þeirri reglu í lögum.
Í brottfallinu felst að ef löggjafinn undanþiggur kjósendur til alþingiskosninga ekki frá lögheimilisskilyrðinu þá gildir það um kjörgengi til Alþingis skv. 1. mgr. 42. gr. frumvarpsins og þar með kjörgengi til forseta skv. 77. gr. frumvarpsins.