Þriðjudagur 25.10.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Ráðherrar (86. gr.)

Í 86. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Ráðherrar eru æðstu handhafar framkvæmdarvalds hver á sínu sviði. Þeir bera hver fyrir sig ábyrgð á málefnum ráðuneyta og stjórnsýslu sem undir þá heyrir.

Geti ráðherra ekki fjallað um mál vegna vanhæfis, fjarveru eða annarra ástæðna felur forsætisráðherra það öðrum ráðherra.

Enginn getur gegnt sama ráðherraembætti lengur en átta ár.

Í gildandi stjórnarskrárákvæðum um sama efni segir það eitt að sá ráðherra, sem mál hafi undirritað, beri það að jafnaði upp fyrir forseta og að undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veiti þeim gildi, er ráðherra riti undir þau með honum. Þar sem forseti er – eins og áður er vikið að – að mestu skrifaður út úr slíkum „lepphlutverkum“ er undirskrift hans undir samþykkt lög frá Alþingi það eina sem almennt stendur eftir af þessum ákvæðum.

Hvað 86. gr. frumvarpsins varðar er rétt að taka fram að þó að fyrstu tvær málsgreinarnar feli í sér nýmæli sem skráður texti í stjórnarskrá felst ekkert efnislegt nýmæli í þeim þar sem þær eru gagnorð og raunsönn lýsing á því sem lengi hefur gilt í framkvæmd, þ.e.a.s.

  1. Ráðherra er eftir sem áður æðsti handhafi framkvæmdarvalds á sínu sviði og ber ábyrgð í samræmi við það – bæði lagalega og pólitískt – eins og fjallað er um fyrr og síðar; um frávik frá þeirri meginreglu – sem verður því ekki eins fortakslaus og áður – er fjalað í næstu grein, 87. gr., sem ég skrifa um á morgun.
  2. Ef ráðherra er vanhæfur (t.d. náskyldur umsækjanda um embætti sem hann á að veita) eða fjarverandi eða geti af öðrum ástæðum ekki fjallað um mál þá felur forsætisráðherra það öðrum ráðherra.

Ítarlega er fjallað um þessi ákvæði – og tengd ákvæði raunar – í skýringum með stjórnarskrárfrumvarpinu.

Nýmælið er takmörkun á setu ráðherra í embætti

Nýmælið felst í 3. mgr. þar sem lagt er bann við því að ráðherra gegni

sama ráðherraembætti lengur en átta ár.

Þetta ræddum við í stjórnlagaráði – og einkum þau okkar, átta talsins, sem sátu í valdþáttanefndinni (B) – fram og aftur; ýmsir möguleikar geta komið til álita, svo sem takmörkun á:

  • setu í ráðherraembætti yfirleitt,
  • setu í fagráðuneytum (öðrum en forsætisráðuneyti) og svo sjálfstæð takmörkun sem telja bæri frá „núlli“ í embætti forsætisráðherra,
  • samfelldri setu í ráðherraembætti,
  • samtals setu í ráðherramebætti,
  • samfelldri setu í sama ráðherraembætti,
  • samtals setu í sama ráðherramebætti – eins og raunin varð.

Fáir voru þeirrar skoðunar að takmarka ekkert setu ráðherra í embætti.

Í skýringum með ákvæðinu segir m.a. um þetta:

Í umræðum í Stjórnlagaráði komu fram ýmis sjónarmið um setutíma alþingismanna, ráðherra og forseta. Var þar annars vegar talið æskilegt að ráðamenn byggju að reynslu en hins vegar að ákveðin valdþreyta geri óhjákvæmilega vart við sig með tímanum. Menn staðni í embættum og hvatar til nýjunga og endurnýjunar slævist. Þá verði endurnýjun til þess að dreifa valdi, ábyrgð, kunnáttu og reynslu.

Niðurstaðan varð sú að takmarka setutíma manna í sama ráðherraembætti við átta ár. Mark­ mið Stjórnlagaráðs með þessari breytingu er að gæta þess að hæfileg endurnýjun verði í yfir­ mannasveit ráðuneyta þannig að unnið verði gegn stöðnun og valdþreytu. Hér er átt við að sami aðili geti ekki verið yfirmaður tiltekins ráðuneytis lengur en átta ár. Greinin bannar ekki að sami einstaklingur sé yfirmaður tiltekins ráðuneytis í átta ár en taki þá við öðru ráðuneyti í stað hins fyrra. Nánar þarf að útfæra í lögum, t.d. um Stjórnarráð Íslands, hvernig með skuli fara ef verulegar breytingar verða á skipan ráðuneyta, þ.e. verkefnum innan þeirra.

Ekki var talin ástæða til að takmarka setutíma alþingismanna enda væru möguleikar kjósenda til beinna áhrifa þar verulega auknir með persónukjöri.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur