Í 93. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:
Ráðherra er skylt að veita Alþingi eða þingnefnd allar upplýsingar, skjöl og skýrslur um málefni sem undir hann heyra, nema leynt skuli fara samkvæmt lögum.
Þingmenn eiga rétt á upplýsingum frá ráðherra með því að bera fram fyrirspurn um mál eða óska eftir skýrslu, samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum.
Upplýsingar sem ráðherra veitir Alþingi, nefndum þess og þingmönnum skulu vera réttar, viðeigandi og fullnægjandi.
Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta að heimilt sé alþingismönnum,
með leyfi Alþingis, að óska upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni með því að bera fram fyrirspurn um málið eða beiðast um það skýrslu.
Alþingi og þingnefndir hafa rýmri rétt en einstakir þingmenn
Ég vek athygli á muninum á 1. mgr. 93. gr. frumvarpsins þar sem rætt er um „Alþingi eða þingnefnd“ – er hafa rúman upplýsingarétt – og 2. mgr. sem fjallar um heldur þrengri rétt einstakra þingmanna. Hvort tveggja er rakið ítarlega í skýringum með ákvæðinu – bæði ástæður breytinga, rök fyrir áðurnefndum mismun málsgreina 1 og 2, skýringar einstakra atriða, samhengi við önnur ákvæði og tilvísanir í frekara efni.
Í skýringum er m.a. að vikið að fyrirvaranum í lok 1. mgr. um upplýsingaskyldu ráðherra – „nema leynt skuli fara samkvæmt lögum.“
Vakin er athygli á því að fyrirvarinn í niðurlagi 1. mgr. er einskorðaður við leynd eða þagnar skyldu skv. lögum, enda eðlilegt að löggjafarþingið stjórni því hve langt eða skammt upp lýsingaskylda ráðherra gagnvart þinginu skuli ná. Með því er ljóst að leynd eða þögn ráðherra verður ekki byggð á öðrum réttarheimildum eða ákvörðunum eins og stundum er gert í lög um, sbr. t.d. 18. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt því ákvæði getur þagnarskylda auk lagaboðs byggst á fyrirmælum yfirmanna og eðli máls. Þagnarskylda getur flust yfir til þingmanns skv. lögum, sbr. 51. gr. laga nr. 55/1991 sbr. lög nr. 84/2011, og getur brot á þagnarskyldu í þessu tilviki varðað við almenn hegningarlög, sbr. 136. gr. hegningarlaga.
Ánægjulegt – og mikilvægt – nýmæli um sannleiksskyldu ráðherra
Hvað varðar 3. mgr. um sannleiksskyldu er um mikilvægt – og að mínu mati afar ánægjulegt – nýmæli að ræða; um það hef ég þegar skrifað hér, þegar valdþáttanefnd (B) stjórnlagaráðs var að fjalla um álitamálið:
Sannleiksskyldu skortir í stjórnarskrá
Varðandi eftirlitsvaldið höfum við rætt margar álitlegar tillögur í þessu skyni og sumar þeirra koma, sem sagt, til kynningar á morgun; hvet ég alla áhugasama til þess að fylgjast með.
Eitt atriði, sem ég hef lagt til á fundum okkar í valdþáttanefndinni, hefur þó ekki enn verið rætt ítarlega eða til þess tekin afstaða; tillaga mín er að stjórnarskráin kveði á um sannleiksskyldu ráðherra gagnvart Alþingi. Þarna er ekki um að ræða – eins og í mörgum öðrum atriðum í störfum okkar stjórnlagaráðsmanna og -kvenna – tillögu um að skýrar verði kveðið á um eitthvert óljóst atriði eða að eitthvað verði tekið fram formlega sem undirskilið hafi verið sem óskráð regla. Þótt ótrúlegt megi virðast er ekkert í íslensku stjórnarskránni sem kveður á um að ráðherrar skuli segja Alþingi – sem veitir þeim nú í raun umboð þeirra – satt og rétt frá.
Sögulegt og pólitískt tilefni
Þetta er ekki bara fræðilegt álitamál eða vandamál; eins og við vitum, sem fylgst höfum með stjórnmálum undanfarna tvo áratugi og lesið stjórnmálasögu undangenginna áratuga, hefur verið pottur brotinn í þessu efni. Einn lærifeðra minna, dr. Gunnar G. Schram heitinn, prófessor í stjórnskipunarrétti, benti á það í útvarpsviðtali snemma á 10. áratug síðustu aldar, er ég var við laganám, að slíka reglu skorti í íslensk lög og stjórnarskrá.