Sunnudagur 06.11.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Skipan dómstóla (98. gr.)

Í 98. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Skipan dómstóla, þar á meðal dómstig og fjöldi dómara, skal ákveðin með lögum.

Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta að skipan dómsvaldsins verði eigi ákveðin nema með lögum.

Hér er orðalaginu breytt úr neikvæðri nálgun sem tryggja á að skipan dómsvalds og dómstólaskipan sé ekki ákveðin með stjórnvaldsfyrirmælum heldur aðeins almennum fyrirmælum í lagaformi frá löggjafarþinginu; jákvæð nálgun sem fyrirskipar að þessum málum sé skipað með lögum segir það sama, heldur skýrar.

Innskotið – „þar á meðal dómstig og fjöldi dómara“ – felur heldur ekki í sér efnisbreytingu.

Millidómstig þarfnast ekki stjórnarskrárbreytingar…

Eins og ég hef áður bent á er heimilt að setja á fót millidómstig með lögum – þ.e. án þess að breyta stjórnarskránni – eins og áform eru um óháð hugmyndum um stjórnarskrárbreytingar. Í færslu minni sagði:

Almennu dómstólarnir – héraðsdómstólar og Hæstiréttur – eru aðeins lögbundnir. Löggjafinn (Alþingi ásamt forseta) getur því gjörbreytt dómstólaskipan án þess að stjórnarskrá sé breytt – t.a.m. komið á millidómstigi eins og nú virðist, eftir áralangar umræður, hafa myndast nokkur sátt um eftir því sem ráðherra dómsmála sagði í fjölmiðlum um daginn. (Sjálfur hef ég lengi hallast að því að nauðsynlegt sé að koma á millidómstól – en hef aðeins efast í seinni tíð.)

… og fjölgun dómara ekki heldur!

Sama er að segja um fjölda dómara; þeim má fjölga (eða fækka) með almennri lagabreytingu – eins og gert var í fyrra, tímabundið. Með þeirri skipan – að einfaldur meiriihluti Alþingis geti fjölgað (eða fækkað) dómurum – þ.m.t. hæstaréttardómurum – er möguleiki á misnotkun í pólitiskum tilgangi; þetta var rætt í stjórnlagaráði – en ekki talin ástæða til þess að gera frekari varúðarráðstafanir en þær sem felast i reglum um sjálfstæði dómstóla (99. gr.) og um skipun dómara (96. og 102. gr.)


Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur