Miðvikudagur 23.11.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Ákvæði til bráðabirgða

Að síðustu vil ég í pistli þessum nr. 115 á jafnmörgum dögum (eða öllu heldur kvöldum) greina ákvæði til bráðabirgða í stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs en þar segir:

Þrátt fyrir ákvæði 10. mgr. 39. gr. nægir samþykki einfalds meirihluta atkvæða á Alþingi til að breyta lögum um kosningar til Alþingis til samræmis við stjórnarskipunarlög þessi eftir að þau taka gildi.
Þegar sú breyting hefur verið gerð fellur ákvæði þetta úr gildi.

Í gildandi stjórnarskrá er einnig ákvæði til bráðabirgða:

Er stjórnarskrá þessi hefur öðlast gildi, kýs sameinað Alþingi forseta Íslands fyrsta sinni eftir reglum um kjör forseta sameinaðs Alþingis, og nær kjörtímabil hans til 31. júlí 1945.

Þeir erlendir ríkisborgarar, sem öðlast hafa kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis eða embættisgengi, áður en stjórnskipunarlög þessi koma til framkvæmda, skulu halda þeim réttindum. Danskir ríkisborgarar, sem téð réttindi hefðu öðlast samkvæmt 75. gr. stjórnarskrár18. maí 1920, að óbreyttum lögum, frá gildistökudegi stjórnarskipunarlaga þessara og þar til 6 mánuðum eftir að samningar um rétt danskra ríkisborgara á Íslandi geta hafist, skulu og fá þessi réttindi og halda þeim.

Þrátt fyrir ákvæði 6. mgr. 31. gr. nægir samþykki einfalds meiri hluta atkvæða á Alþingi til að breyta lögum um kosningar til Alþingis til samræmis við stjórnarskipunarlög þessi eftir að þau taka gildi. Þegar sú breyting hefur verið gerð fellur ákvæði þetta úr gildi.

Bráðabirgðaákvæði um kosningalög áður en aukinn meirihluti er áskilinn

Eins og sjá má er bráðabirgðaákvæðið hér að ofan, sem stjórnlagaráð leggur til, (fyrir utan tilvísun í greinarnúmer) samhljóða 3. mgr. bráðabirgðaákvæðis gildandi stjórnarskrár, sem bætt var við hana 1999 – sjálfsagt án þess að margir tækju eftir þeirri stjórnarskrárbreytingu; er það gert í því skyni að nýkjörið Alþingi geti, samkvæmt gildandi reglum eftir síðari samþykkt stjórnarskrárfrumvarps þessa sem nýrrar stjórnarskrár, breytt kosningalögum í samræmi við þá nýju stjórnarskrá. Þó að ekkert sé sjálfsagðara en að stefna að auknum meirihluta (2/3) í samræmi við almennu regluna ef hann næst og þó að annað virðist við fyrstu sýn ólýðræðislegt er,

  • sem sagt, fordæmi fyrir þessu frá 1999 og
  • auk þess rökbundin nauðsyn á að nýkjörið Alþingi breyti reglunum í samræmi við einfaldan þingmeirihluta nýrrar ríkisstjórnar ef aukinn meirihluti næst ekki enda er ljóst að kjósa þarf til Alþingis í síðasta lagi fjórum árum síðar og ekki hægt að láta þingkosningar stranda á nýrri stjórnarskrá ef aukinn meirihluti næst ekki fyrir útfærslu breyttra reglna í nýrri stjórnarskrá.

Í skýringum segir um bráðabirgðaákvæði stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs:

Gerð er tillaga um ákvæði til bráðabirgða um samþykki fyrstu kosningalaga á grundvelli nýrra ákvæða í frumvarpinu, eins og gert var í 2. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 77/1999. Nægir sam­ þykki einfalds meirihluta atkvæða á Alþingi til að breyta lögum um kosningar til Alþingis til samræmis við stjórnarskipunarlög þessi eftir að þau taka gildi. Sama þing getur því staðið að því að staðfesta stjórnarskipunarlögin og breytt ákvæðum um kosningar til Alþingis í sam­ ræmi við þau.

Eldri bráðabirgðaákvæði hafa runnið sitt skeið

Ákvæði 1. og 2. mgr. gildandi bráðabirgðaákvæðis hafa bæði runnið sitt skeið; eins og eðli og nafn bráðabirgðaákvæða laga og stjórnlaga segir til um þarf ekki að fella þau sérstaklega úr gildi að formi til þar sem þau missa þýðingu sína efnislega þegar tíma- eða efnisskilyrði segir til um.

  1. Fyrri málsgreinin rann sitt skeið um leið og forseti Íslands hafði verið kjörinn fyrsta sinni til rúmlega eins árs – af Alþingi – enda var hann eftir það, frá 1945, þjóðkjörinn æ síðan eins og framvegis.
  2. Síðari málsgreinin um tiltekið jafnrétti íslenskra og erlendra, einkum danskra, ríkisborgara hefur sennilega misst þýðingu sína á síðari hluta 20. aldar þegar þeir síðustu hinna síðarnefndu létust; sambærilegt ákvæði er í dönsku stjórnarskránni – en athyglisvert er að það er ekki ákvæði til bráðabirgða!

Lyktir umfjöllunar um einstök ákvæði – en frekar fjallað um ýmis efnisatriði

Hér með lýkur daglegum Eyjupistlum mínum um stjórnarskrárfrumvarpið, sem ég hóf 1. ágúst sl., þremur dögum eftir að við í stjórnlagaráði afhentum forseta Alþingis frumvarpið, sem við höfðum samþykkt einróma, 25:0. Með þessu leitast ég við að leggja mitt af mörkum við að skýra þessi 115 ákvæði – bæði sem einn höfunda og sem löglærður skýrandi (að því marki sem unnt er að fjalla þannig um eigið verk) enda hef ég fjallað um stjórnlagafræði og aðra lögfræði fyrir almenning í 20 ár. Ég árétta þó að skýringar fylgdu ákvæðunum sem ég hef vísað til í öllum pistlunum og vitnað til í flestum þeirra.

Í kjölfarið mun ég væntanlega skrifa heldur sjaldnar um einstök efnisatriði, þvert á ákvæði frumvarpsins, svo sem um

  • breytingar á hlutverki forseta Íslands, sem mikið hefur verið rætt síðan bæði forseti Íslands og forsætisráðherra settu það og frumvarpið á dagskrá í tengslum við þingsetningu í byrjun október og aðrir, m.a. félagar mínir í ráðinu hafa svarað; svo og um
  • atriði sem felld eru brott úr stjórnarskrá með frumvarpi þessu – svo sem heimild til útgáfu bráðabirgðalaga – og ekki hefur því verið tilefni til þess að fjalla um við skýringu einstakra frumvarpsgreina.

Þá mun ég hugsanlega fjalla eitthvað um formsatriði, svo sem ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið sem minnst var á í gær.

***

Af þessu tilefni má benda á stjórnlagaráðstíðindi 1 og 2 a) og b sem ekki voru komin út er ég hóf þessi pistlaskrif:

Stjórnlagaráðstíðindi 1
Fundargerðir, aðdragandi og starfið.

Stjórnlagaráðstíðindi 2a
Umræður á ráðsfundum,
1.– 13. ráðsfundur.

Stjórnlagaráðstíðindi 2b
Umræður á ráðsfundum,
14.– 19. ráðsfundur

***

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur