Í áramótaávarpi nú á nýársdag gaf sitjandi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, til kynna að hann væri fráfarandi – myndi ekki bjóða sig fram að nýju, 2012, eftir að hafa setið í 16 ár, fjögur kjörtímabil, en það er jafn langur tími og tveir aðrir forsetar af fimm, Ásgeir Ásgeirsson, og Vigdís Finnbogadóttir, hafa setið. Hinir tveir, Sveinn Björnsson og Kristján Eldjárn, sátu í 11-12 ár ef talinn er með tími Sveins sem ríkisstjóri – sem var undanfari forsetaembættisins samkvæmt ályktun Alþingis með vísan til neyðarréttar í kjölfar hersetu Danmerkur.
Hámarkstími í stjórnarskrá
Fráfarandi forseti gaf raunar til kynna í framboði sínu 1996 að hann teldi eðlilegt að forseti sæti í embætti í 2-3 kjörtímabil, 8-12 ár. Af þeirri yfirlýsingu hef ég sem kjósandi talið að hann sé siðferðilega bundinn. Ekkert í stjórnarskránni setur þó slík lagaleg mörk. Úr þessu vill stjórnlagaráð bæta með hámarki sem nemur þremur kjörtímabilum, þ.e. 12 árum samkvæmt frumvarpi stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár, m.a. í ljósi breytts hlutverks forsetaembættisins samkvæmt frumvarpinu. Ekki er æskilegt að það sé undirorpið geðþótta sitjandi forseta á hverjum tíma hvort og hve lengi hann situr áfram enda hefur hann augljóst forskot á þá sem kunna að bjóða sig fram gegn honum eins og dæmin sanna.
Samanburður á breyttu hlutverki forseta
Af þessu tilefni er þörf á að árétta hvaða völd, áhrif og hlutverk forsetinn hefur enda
- hafa kjósendur áhuga á að vita hvaða stöðu forseti mun hafa að loknum stjórnarskrárbreytingum og auk þess
- hefur munur eða samanburður á þessu tvennu leitt til rangra ályktana og misskilnings, m.a. hjá þeim sem hlut eiga að máli, eftir að tillögur stjórnlagaráðs litu dagsins ljós sl. sumar.
Í næsta pistli mun ég bera saman á kerfisbundinn hátt
- völd,
- áhrif og
- hlutverk
forseta Íslands samkvæmt gildandi stjórnarskrá og samkvæmt tillögu stjórnlagaráðs.