Miðvikudagur 02.01.2013 - 06:59 - FB ummæli ()

Forseti vanhæfur í stjórnarskrármáli

Um leið og ég fagna sem fyrr rökræðu um nýju stjórnarskrána, þótt síðbúin sé, tel ég að forseti Íslands sé vanhæfur til þess að fjalla um breytingar á stjórnarskrá samkvæmt frumvarpi stjórnlagaráðs – sem varðar mjög hlutverk forseta, valdmörk embættisins gagnvart öðrum æðstu handhöfum ríkisvalds, kjör o.fl. eins og ég hef áður rakið í 115 Eyjupistlum og mun e.t.v. fjalla nánar um síðar.

Frumvarp að nýrri stjórnarskrá lýðveldisins – að mestu byggt á frumvarpi stjórnlagaráðs – liggur fyrir Alþingi til afgreiðslu eftir ítarlega umfjöllun um form og efni á tveimur þingum. Nýja stjórnarskráin breytir stöðu forseta, sem sagt, nokkuð, til og frá, sem og fleiru hjá æðstu handhöfum ríkisvalds. Þess vegna er gagnrýni forseta á tillögur stjórnlagaráðs lítt marktæk – ekki bara vegna þess hve furðulega seint hún kemur fram – í nýársávarpi 2013, 17 mánuðum eftir að stjórnlagaráð skilaði tillögum sínum til Alþingis.

Þjóðin ákveður leikreglurnar – ekki leikmennirnir!

Ég fjalla að sinni ekki efnislega um gagnrýni forsetans.

Gagnrýnin kemur reyndar of seint fram til þess að þjóðin – sjálfur handhafi fullveldsins samkvæmt eigin orðum forsetans í kosningabaráttunni 1996, ef ég man rétt – hafi getað notið þeirrar leiðsagnar sem doktor í stjórnmálafræði og leikmaður á sviðinu í um 40 ár hefði getað látið kjósendum í té – í tæka tíð – áður en kjósendur greiddu atkvæði um nýjar leikreglur 20. október sl.

Ekki ljótt að vera vanhæfur…

Til þess að fyrirbyggja misskilning og komast hjá algengum ásökunum í þessu máli um ómálefnaleg viðbrögð, móðgunargirni eða gífuryrði tek ég fram að ekkert er ljótt við að vera vanhæfur – í lagaskilningi; ég hef t.a.m. oft – bæði í störfum mínum og félagsstarfi – vikið sæti vegna vanhæfis, m.a. vegna tengsla við náin skyldmenni eða aðra vandamenn í því máli sem til umfjöllunar var. Það gerði mig ekki minna hæfan til þess að gegna þeim störfum og athugasemdir mínar hér varða ekki embættisgengi eða svonefnt almennt hæfi dr. Ólafs Ragnars Grímssonar til þess að gegna embætti forseta Íslands.

Málið snýst um svonefnt sérstakt (van)hæfi.

… og ekki það sama og óhæfur

Ekki er svo að skilja að forsetinn sé „vanhæfur“ í þeim skilningi sem hrópað var á götum borgarinnar í búsáhaldabyltingunni í kjölfar hrunsins haustið 2008. Ég hygg að merking orðanna „vanhæf ríkisstjórn“ í munni búsáhaldabyltingarfólks hafi verið að stjórnvöld – og ekki síst þingbundin ríkisstjórnin í forsvari fyrir þau – hafi verið óhæf í þeirri merkingu að ríkisstjórnin hafi ekki staðið sig vel. Hrunið, óhæf stjórnvöld og vanhæfi og óhæfi Alþingis í stjórnarskrármálinu varð reyndar til þess að ég lagði fyrst til 28. nóvember 2008 að boðað yrði til stjórnlagaþings.

 

Forsetinn er vanhæfur í málinu í lagaskilningi. Í því felst að ef maður eða stofnun tengist máli

 

  • sérstaklega – þ.e. umfram aðra (þannig að t.d. er talið í lagi að mál varði slíkan aðila með sama hætti og þúsundir annarra) og
  • mikið – sem sagt ekki í einhverjum smáatriðum (en sem dæmi um slík smáatriði er stundum tekið að lögreglustjóri mætti gefa út ökuskírteini fyrir barn sitt enda ekki háð miklu mati hvort próftöku sé fullnægt og tilteknum aldri náð)
þá má sá aðili hvorki taka þátt í
  • að fjalla formlega um málið, t.d. með umræðum í nefnd eða undirbúningi í stofnun, né
  • að ráða því til lykta, t.d. með atkvæðagreiðslu eða ákvörðun.

Stjórnskipulegt vanhæfi

Um stjórnskipulegt vanhæfi eru engar almennar skráðar reglur eins og ég hef áður fjallað um.

Með svipuðum lagarökum mætti e.t.v. halda því fram að Hæstiréttur hafi verið vanhæfur til þess að taka ákvörðun um ógildingu kosningar til stjórnlagaþings en ekki skal fjallað nánar um það hér.

Ég bendi á að Alþingi samþykkti í verki að þingið væri í raun vanhæft til þess að semja heildstæða nýja stjórnarskrá – enda er þar fjallað um kosningar til Alþingis, fjölda alþingismanna, völd þingsins og valdmörk gagnvart öðrum handhöfum ríkisvalds, hæfisreglur um þingmenn o.fl. Þetta viðurkenndi Alþingi með því að framselja stjórnlagaþingi og svo stjórnlagaráði frumkvæðisrétt til stjórnarskrárbreytinga að þessu sinni enda fer ekki vel á því að þing – eða forseti – véli um eigið erindisbréf eins og ég hef áður bent á. Svo tel ég reyndar að Alþingi hafi með framsali sínu einnig viðurkennt að þingið sé óhæft til verksins eins og bráðum 70 ára saga lýðveldisins sýnir en á meðan höfum við búið við bráðabirgðastjórnarskrá.

Bæði embættið og persónan vanhæf

Að mínu mati á vanhæfi forseta í þessu máli bæði við um

 

  1.  forsetaembættið sem slíkt og væntanlega einnig um
  2. þá persónu, dr. Ólaf Ragnar Grímsson, sem gegnir því embætti nú á 17. ár.

 

Augljóst er að mínu mati – einkum hvað varðar hið fyrrnefnda, embættið sjálft – að forseti Íslands er vanhæfur til stjórnarathafna sem varða nýju stjórnarskrána og kemur þá helst til álita málskotsheimild forseta hvað varðar stjórnarskrárfrumvarpið þegar Alþingi hefur samþykkt það tvívegis með alþingiskosningum í millitíðinni. Af sömu ástæðu hafa orð sitjandi forseta um efni og ástæður breytinga á stjórnskipulegu hlutverki forsetaembættisins minna vægi en t.d. óháðra prófessora í stjórnlagafræði eða stjórnmálafræði sem ekki taka þátt í stjórnmálastarfi – einkum ef þeir rökstyðja mál sitt og bjóða upp á rökræður. Með sama hætti er ég auðvitað ekki frekar en aðrir fulltrúar í stjórnlagaráði óháður dómari um gæði tillagna stjórnlagaráðs sem ég átti þátt í að semja og hef sóst eftir því að kynna – og verja fyrir (ó)málefnalegri gagnrýni.

Til er lausn

Við þessu vanhæfi forseta og annarra æðstu handhafa ríkisvalds, Alþingis og Hæstaréttar, má bregðast – því eins og ég hef iðulega tekið fram, þegar færi gefst í tilefni af gagnrýni á verk okkar í stjórnlagaráði, er stjórnarskrárfrumvarpið vitaskuld ekki fullkomið frekar en önnur mannanna verk (eins og sumir hafa gefið í skyn eða beinlínis sagt að við teljum). M.ö.o. mætti hugsa sér – eins og ég hef reifað áður – að bæta við frumvarp stjórnlagaráðs bráðabirgðaákvæði þess efnis

að þegar stjórnarskráin hafi tekið gildi (t.d. á sjötugsafmæli þeirrar sem nú gildir, 17. júní 2014) skuli kosið að nýju á grundvelli (lítið) breyttrar stjórnskipunar og breyttra reglna um persónukjör

  1. til Alþingis,
  2. til embættis forseta Íslands (sem í frægri ræðu sinni í fyrra gaf einmitt til kynna að hann gæti hugsað sér að sitja skemur en fjögur ár – t.d. þar til ný stjórnarskrá væri í höfn) og
  3. jafnvel skipað að nýju í Hæstarétt.
Um leið yrði væntanlega í kjölfar þingkosninga skipað að nýju í ríkisstjórn eftir nýrri stjórnarskrá í samræmi við vilja Alþingis en ríkisstjórn – og nú ráðherrar – er í framkvæmd æðsti handhafi framkvæmdarvalds samkvæmt stjórnarskránni, bæði nýju og gömlu.

Hvað ef forseti telur sig ekki vanhæfan?

Féllist forseti, sem sjálfur metur væntanlega (van)hæfi sitt í málinu samkvæmt almennum reglum, ekki á lagasjónarmið mín um að hann sé vanhæfur í stjórnarskrármálinu gæti reynt á það með því að forseti synjaði frumvarpi til stjórnarskipunarlaga staðfestingar samkvæmt gildandi stjórnarskrá, þegar Alþingi hefði samþykkt frumvarpið öðru sinni, óbreytt, eftir þingkosningar sem fara eiga fram í síðasta lagi í lok komandi aprílmánaðar. Kæmi það þá væntanlega í hlut innanríkisráðherra í (nýrri) ríkisstjórn að taka afstöðu til þess hvort synjun forseta væri gild – eða ógild vegna vanhæfis.
Rök gegn vanhæfi gætu verið þau að handhafar forsetavalds væru ekki síður vanhæfir en forseti en slík lagatúlkun myndi leiða til þess að enginn málskotsréttur væri virkur gagnvart stjórnarskrárbreytingum. Gegn þeim mótrökum mætti segja að kjósendur hefðu (í apríl 2013) þegar óbeint haft tækifæri til þess að beita sér í málinu og kjósa flokka til Alþingis eftir afstöðu sinni og þeirra til væntanlegra stjórnarskrárbreytinga – auk þess sem kjósendur hafa þegar fengið tækifæri til þess að segja álit sitt á tillögu stjórnlagaráðs í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október sl. Þá mætti halda því fram að handhöfn forsetavalds væri tiltölulega lítill þáttur í embættum handhafanna 3ja – forsætisráðherra, forseta Alþingis og forseta Hæstaréttar – þannig að ég tel að mótrökin vegi ekki þyngra en ofangreind vanhæfissjónarmið mín.
Hins vegar má segja að ef innanríkisráðherra tæki hugsanlega lagasynjun (nú eða staðfestingu því auðvitað ætti forseti að víkja sæti í málinu óháð því hvort hann vildi synja eða staðfesta stjórnarskipunarlögin) forseta gilda þá væri hið besta mál að kjósendur fengju aftur – nú með bindandi hætti – að greiða atkvæði um framtíðargildi nýju stjórnarskrárinnar sem myndi þó engu að síður öðlast gildi til bráðabirgða samkvæmt almennri reglu stjórnarskrárinnar um lagasynjanir forseta.

Um efni málsins

Um efnisatriði í gagnrýni forseta á tillögur stjórnlagaráðs fjalla ég hér ekki um að sinni en fjórir aðrir stjórnlagaráðsmenn hafa þegar í gær m.a.
Þar sem það varðar ekki efni málsins má hins vegar geta þess að af 24 fulltrúum í stjórnlagaráði, sem skiptust jafnt á þrjár málefnanefndir (formaður ráðsins, Salvör Nordal, sat ekki í neinni málefnanefnd og gat því helgað sig stjórnsýslu o.fl.) sátu átta, þ.m.t. í nefnd B sem fjallaði einkum um forseta, ríkisstjórn, sveitarstjórnir og Alþingi – m.ö.o. meginþætti í stjórnskipun ríkisins. Þessir átta – sem völdust þangað eins og fulltrúar í aðrar nefndir eftir áhugasviði – voru, með meiru, ýmist
  • fyrrverandi alþingiskonur (2),
  • lögfræðingar (2),
  • stjórnmálafræðingar (2) eða
  • þátttakendur í stjórnmálastarfi um áratugaskeið (2).

Eins og lofað var í síðasta Eyupistli mínum, á nýársdag í fyrra, fjalla ég væntanlega síðar* um

  • völd,
  • áhrif og
  • hlutverk

forseta Íslands – bæði samkvæmt

  1. gildandi stjórnarskrá og
  2. samkvæmt tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.

 

* Eftir að hafa skrifað 115 Eyjupistla um jafnmargar greinar í frumvarpi stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár var ég eftir þann nýárspistil svo bloggmóður að ár leið þar til þessi pistill lítur dagsins ljós enda fjallaði sá síðasti um nýjan forseta sem mér skildist á þeim fráfarandi (að því er ég taldi) að við fengjum; það er önnur saga.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur