Tveir mánuðir eru til alþingiskosninga. Ég býð mig fram í 1. sæti í Norðausturkjördæmi fyrir Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, lýðræði og sanngirni. Dögun (xT.is) vil umbætur í lánamálum, umbætur á fiskveiðistjórn og umbætur á stjórnskipan – m.a. aukinn hlut landsbyggðarinnar. Fyrstu pólitísku afskipti mín voru í landsbyggðarfélaginu Stólpa í Menntaskólanum á Akureyri þar sem ég er alinn upp. Enn eru landsbyggðarmálin mér hugleikin en Dögun hefur mótað Íslandsbyggðastefnu sem tekur mið af heildarhagsmunum landsmanna.
Íslandsbyggð er umbótamál
Ekki má láta markaðsöflum eftir að móta mannlífið og byggðaþróun eða leyfa miðstjórnarvaldinu að auka á aðstöðumun milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis sem þegar hefur tekið of mikið til sín af tækifærum. Þetta hefur gerst með æ miðstýrðara Ríkisútvarpi og niðurlagningu svæðisútvarpa, með áformum um æ stærra hátæknisjúkrahús í miðborginni og sífelldum niðurskurði á svæðissjúkrahúsum og með höfuðborgarmiðuðum samgöngum.
Ríkisvaldið á að styðja við landið allt
Með ríkisvaldi – sem stýrt er að mestu frá Reykjavík samkvæmt stjórnarskrá – má stuðla að grósku og góðu mannlífi um land allt. Þetta má gera á tvennan hátt – með tækifærum og með opinberri þjónustu.
Tækifæri til atvinnusköpunar
Stjórnarskráin kveður á um atvinnufrelsi. Atvinnufrelsi má aðeins skerða með lögum í þágu almannahagsmuna. Atvinnufrelsi er ekki raunverulegt ef fiskveiðiréttindi eru flutt að geðþótta handhafa þeirra. Almannahagsmunir réttlæta ekki óheft framsal óveidds fiskjar án tilltis til hagsmuna sjávarbyggða og þeirra sem við greinina starfa. Þvert á móti á að tengja fiskveiðiréttindi sjávarbyggðum og sjá til þess að arður af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar renni til héraðanna. Dögun styður því nýja stjórnarskrá sem kveður á um að þjóðin öll njóti arðs af auðlindinni og að tekjur fylgi lögbundnum verkefnum sem sinna á í auknum mæli í héraði.
Aðeins ef atvinnutækifæri gefast í héraði þrífst þjónusta í nærsamfélaginu – hvort sem er banki, pósthús eða opinber þjónusta.
Opinber þjónusta í héraði
Opinberri þjónustu hefur verið hagrætt um of yfir á suðvesturhorn landsins með tilheyrandi þjónustuskerðingu og meiri fólksflutningum en landið þolir. Ég vil flytja fleiri opinber verkefni til sýslumanna um land allt – en betur má ef duga skal.
Erfitt er að flytja rótgrónar stofnanir frá höfuðborginni með tilheyrandi raski fyrir starfsfólk og þjónustu. Þess í stað er rétt að nýjum stofnunum sé fundinn staður utan höfuðborgarsvæðisins þar sem aðstæður leyfa eða krefjast. Sem dæmi um það má nefna nýtt millidómstig sem lögfræðingasamfélagið er einhuga um að tímabært sé. Nýr áfrýjunardómstóll á að hafa höfuðstöðvar á Akureyri og ég vil vinna að því á Alþingi.
Gísli Tryggvason,
frambjóðandi til Alþingis í 1. sæti
NA-kjördæmis fyrir Dögun
Fyrst birt í Vikudegi 28. febrúar 2013.