Mánudagur 22.04.2013 - 23:57 - FB ummæli ()

Kjarasamningur þjóðar og útgerðar

Á ferðum mínum um Norðausturkjördæmi fyrir Dögun (xT) ásamt öðrum frambjóðendum Dögunar í aðdraganda þingkosninga undanfarið hef ég rætt við alla aðila íslensks sjávarútvegs. Ég hef spurt spurninga og svarað spurningum og lært heilmikið.

Óvissa er slæm – fyrir alla

Í lok funda og samtala spyr ég gjarnan eitthvað á þessa leið:

Hvernig stendur á því að menn vilja búa við þessa óvissu?

Þá hef ég áður rætt óréttlætið, byggðaröskunina, brottkastið, umhverfisvandann – spillinguna o.s.frv. Þeir sem verja lítt breytt eða óbreytt kvótakerfi hafa þá einnig komið á framfæri sjónarmiðum sínum um framþróun íslensks sjávarútvegs, afhendingaröryggi, aukna nýtingu, bætta meðferð afla, sögulegan rétt útgerðarmanna, stríð stjórnmálamanna við greinina og skilvirkni og hagkvæmni kerfisins. En burt séð frá þessum mót- og meðrökum með kvótakerfinu er mér mest spurn:

Hvernig stendur á því að eigendur sjávarútvegsfyrirtækja, stjórnendur þeirra, endurskoðendur og starfsfólk sættir sig enn við þá óvissu sem verið hefur við lýði í 30 ár – síðan kvótakerfi var komið á – burt séð frá allri gagnrýni Dögunar o.fl. á kerfið?

Kvótakerfið var fest í sessi með lögum af þáverandi þingmeirihluta vinstristjórnarinnar 1990 með frjálsu framsali aflaheimilda. Um leið var sleginn sá varnagli, sem veldur því að útgerðarmenn eru aldrei í góðri trú með meint eignarhald sitt í krafti þess að þeir eru tímabundnir handhafar nýtingarréttarins. Augljóst er – nú síðast af 83% jáyrði kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október sl. við stjórnarskrárbreytingu um að auðlindir skuli vera í þjóðareigu en ekki þjóðlindir í auðareigu – að „þeir“ komast aldrei upp með þetta.

Friður er í boði…

Ég hvet útgerðarmenn til þess að láta af andspyrnu sinni; ég segi:

Viðurkennið nú þjóðareign á auðlindum. Leyfið pólitískum umboðsmönnum ykkar að hætta að reyna að veðsetja vilja þjóðarinnar eins og þið hafið veðsett auðlindir hennar. Segið umboðsmönnum útgerðarinnar á Alþingi að fallast á stjórnarskrárbreytingu. Í staðinn fáið þið frið; fyrr ekki.

„Kjarasamningur“ útgerðarmanna og fulltrúa þjóðarinnar yrði svo borinn undir þjóðina til samþykktar eða synjunar; líkur eru á að enginn fulltrúi þjóðarinnar skrifi undir samning nema telja megi líklegt að hann fáist samþykktur.

… og fyrirmynd er fyrir hendi

Fyrirmyndin er vinnumarkaðurinn – þar sem gerður er, nú orðið gjarnan á um 3ja ára fresti, kjarasamningur þar sem atvinnurekendur semja yfirleitt um kjara- og réttarbætur til handa launafólki. Í staðinn semja stéttarfélög um friðarskyldu þannig að verkföll eru óheimil – og ágreiningur er borinn undir sérstakan vinnumarkaðsdómstól, Félagsdóm.

Við lok 19. aldar komst á hin stóra sátt á vinnumarkaði í Danmörku – sem fólst í því að atvinnurekendur viðurkenndu samningsumboð stéttarfélaga fyrir hönd starfsmanna, sem fram að því var ekki lögvarið; atvinnurekendur komust fram að því upp með að deila og drottna – eins og pólitískur armur þeirra nær enn meðan umbótaöflin eru sundruð. Í staðinn féllst launafólk á að bera réttarágreining undir sérstakan vinnumarkaðsdómstól – í stað þess að nota verkföll til þess að knýja á um lögvarðar kröfur.

Stefna Dögunar (xT) er að koma á umbótum á íslenskri fiskveiðistjórn og auknu frelsi til handfæraveiða eins og lesa má frekar um hér.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur