Dögun (xT) hefur ein stjórnmálaflokka á samþykktri stefnuskrá sinni að lögfesta skuli framfærsluviðmið fyrir þá hópa sem ekki hafa launatekjur. Strax á stofnfundi Dögunar í mars í fyrra var eftirfarandi samþykkt í kjarnastefnu – sem enn stendur og hefur verið útfærð nánar síðan:
Þá viljum við að lágmarks framfærsluviðmið verði lögfest og að vextir í landinu verði hóflegir.
Alþingi brýtur stjórnarskrá…
Atvinnuleitendur, eldri borgarar, námsmenn og öryrkjar eru háðir bótum eða lánum til þess að framfæra sig. Stjórnarskráin hefur lengi skyldað löggjafann til þess að setja reglur í lög – ekki í reglugerð, skýrslu eða skýrsludrög – um þessa þörf. Nánar má lesa um þessa skyldu hér í ræðu minni frá 26. október 2010 um málið.
Alþingi hefur heykst á þessu alla tíð.
Við í Dögun setjum þetta mál á oddinn auk umbótamálanna 3ja
- umbóta í lánamálum og afnáms verðtryggingar;
- umbóta á fiskveiðistjórn og frelsis til handfæraveiða; og
- umbóta á stjórnarskrá sem m.a. eykur sjálfsstjórn landshluta í stað þess að senda þingmenn suður með betlistaf í hendi.
…. á þeim sem síst skyldi
Þeir sem þiggja lán eða laun úr almannasjóðum eiga sömuleiðis rétt á því – samkvæmt stjórnarskránni, bæði nýju og gömlu – að framfærsla þeirra sé metin og lágmarksframfærsluviðmið lögfest. Af því munu svo reglur í eftirfarandi kerfum taka mið
- atvinnuleysisbætur,
- ellilífeyrir,
- lán úr Lánasjóði íslenskra námsmanna og
- örorkubætur.
Sama gildir um þá sem þiggja félagsaðstoð sveitarfélaga. Ef stéttarfélög standa sig ekki betur í að semja um viðunandi lágmarkskjör tel ég koma til greina að lögfesta lágmarkslaun.
Hér má lesa ítarlegri stefnu Dögunar varðandi framfærsluviðmið þar sem bent er á að fara megi tvær leiðir að þessu marki, sem Alþingi ber að tryggja:
- raunútgjaldaleið (mæld) og
- viðmiðunarleið (sérfræðinga).
Dögun (xT) mun vinna að því að tryggja þennan stjórnarskrárvarða rétt bótaþega og lánþega.