Meintir jafnaðarmenn í öllum flokkum hafa nú loks orðið að fallast á það með Dögun (xT) o.fl. að mögulegt er að fjármagna réttlætiskröfur (þ.e. greiða bætur til) lántakenda í kjölfar forsendubrests – jafnvel tvöfalds – sem bankar og aðrir kröfuhafar tóku þátt í að hrinda af stað.
Jafnaðarmenn allra flokka…
Á lokametrum kosningabaráttunnar hafa jafnaðarmenn – sem kenna sig ýmist við vinstri, samfylkingu, lýðræði eða framtíð – hins vegar snúið frá þeirri röksemd að engir peningar séu til. Nú er loks viðurkennt að til er fé hjá skemmdarvörgunum – peningar, sem Dögun vill nota til þess að bæta fyrir það tjón sem vargarnir ollu. Jafnaðarmenn vilja hins vegar nota peningana í annað; jafnaðarmenn vilja frekar nota bætur fyrir jarðskjálftatjón í eitthvað annað en að bæta jarðskjálftatjónið – eitthvað sem samrýmist frekar hugsjónum þeirra sem jafnaðarmanna, hvað sem þeir kenna sig við.
… sameinast gegn réttlæti
Aðstoðarmaður formanns stærsta jafnaðarmannaflokksins ræðst nú á prófessor, sem löngum hefur stutt flokkinn dyggilega með umdeildum málflutningi í skattamálum, fyrir að taka undir með hinum flokknum, sem – auk Dögunar – vill leiðrétta ranglætið og færa niður skuldir heimilanna. Hinir jafnaðarmennirnir – bæði þeir sem einnig þykjast umhverfissinnaðir og þeir sem stofnað hafa nýja flokka um góða starfshætti og meira lýðræði – taka undir með „Jafnaðarmannaflokki Íslands“ um að Dögun og aðrir standi fyrir „loforðaflaumi“ og óábyrgum áformum.
Þeir segjast ekki vilja lofa of miklu – heldur hafa þeir markmið.
Markmið Dögunar: réttlæti og sanngirni
Dögun hefur markmið – og leiðir. Eitt markmiðið er réttlæti til handa húsnæðiskaupendum; því markmiði verður ekki náð nema forsendubrestur húsnæðislána – líka þeirra sem tóku ríkisreiknuð, verðtryggð lán – sé leiðréttur og óraunhæft og óréttmætt nafnverð skulda verði fært niður.
Annað markmið Dögunar er sanngirni lántakendum til handa. Leiðin að sanngirni er umbætur í lánamálum og afnám verðtryggingar; þá skapast jafnvægi milli hagsmuna lántakenda og lánveitenda.
Verðtryggingin er krabbamein
Verðtryggingin er auk þess mein í hagkerfinu – eins og krabbamein sem gegnsýrir lánakerfi til neytenda og einnig þjónustusamninga, verksamninga og leigusamninga. Meðan meinið er ekki skorið burt getur Seðlabanki Íslands ekki beitt helsta stjórntæki sínu – stýrivöxtum – til þess sem það á að gera: kæla hagkerfið. Þess í stað veldur lækningin (stýrivextir) frekari verðbólgu – eins og verðtryggingin sjálf gerir.
Verðtryggingin er bóla – sem springur ef lofti er ekki hleypt úr henni
Verðtryggingin er hin eina sanna bóla – loforðaflaumur um eilífan hagvöxt og ávöxt kröfuhafa á kostnað neytenda og þeirra fyrirtækja sem framleiða raunveruleg verðmæti. Pennastrikin, sem jafnaðarmenn í þessum fjórum flokkum saka Dögun og aðra andstæðinga verðtryggingar um að vilja beita, eru einmitt hinum megin. Óraunhæf og ósjálfbær lífeyrisloforð verðtryggingarsinna eru rituð með sannkölluðum pennastrikum – þótt nútímapenninn Excel sé notaður til þess að skrifa þau og ríkisstofnun (Hagstofa Íslands) til þess að reikna þau.
Dögun vill hleypa lofti úr verðtryggingarbólunni – áður en hún springur í andlit lífeyrisþega og annarra sem treysta á hana.
Látið atkvæði ykkar í T.