Fimmtudagur 11.2.2010 - 23:35 - FB ummæli ()

Skuldborgin

Í dag, 11. febrúar 2010, er rétt ár síðan fimm aðilar úr ólíkum áttum sameinuðust í Ákalli til stjórnvalda um almennar aðgerðir til lausnar efnahagsvanda heimilanna. Í upphafi ákallsins fögnuðum við, sem að ákallinu stóðum, áformum nýmyndaðrar minnihlutastjórnar – sem var hvött til dáða. Um leið lögðum við til skjótar lausnir á skuldavanda heimilanna. Síðar breyttist samsetning hópsins til og frá en í upphafi voru þessir aðilar Félag Fasteignasala, Hagsmunasamtök heimilanna, Húseigendafélagið, Húsnæðissamvinnufélagið Búseti á Norðurlandi og talsmaður neytenda.

 

Enn beðið eftir öðru skrefinu

Í ákalli okkar var gert ráð fyrir þremur þrepum:

  1. Bráðaaðgerðir til frestunar (sem þáverandi ríkisstjórn hafði þegar áform um og komu fljótlega til framkvæmda sem það helsta sem stjórnin hefur enn aðhafst í málinu).
  2. Einskiptisaðgerð til niðurfærslu skulda vegna verulegs forsendubrests.
  3. Varanleg sátt um framtíðarjafnræði í samskiptum lántakenda og lánveitenda.

Lesa má um upphafstillögur okkar hér en auk þess höfðum við hver um sig mismunandi tillögur fram að færa til þess að ná markmiðunum – sem sífellt fleiri fallast á að þurfi að nást.

 

Vinstriflokkarnir réðu ekki við vandann

Því miður reis ríkisstjórn vinstriflokkanna hvorki undir væntingum okkar Framsóknarfólks – sem gerði myndun hennar (og brotthvarf dáðlausrar ríkisstjórnar S-flokkanna) mögulega – né annarra; ríkisstjórnin er enn föst í fyrsta þrepi frestunar og biðleikja. Eins og fleiri af þessum fimm aðilum hef ég sem talsmaður neytenda allt frá hruninu lagt til fjölbreyttar og ítarlega rökstuddar tillögur til lausnar á skuldavandanum. Eru margir – ekki síst Hagsmunasamtök heimilanna – farnir að huga að þriðja skrefinu, þ.e.a.s. varanlegu jafnræði milli lántakenda og lánveitenda.

 

Sú skjaldborg, sem vinstriflokkarnir lofuðu í kosningum sl. vor, hefur breyst í skuldborg sem ríkisstjórn þeirra heldur heimilum og fyrirtækjum enn í. Orka þeirra fór í að gera lítið úr tillögum annarra um lausnir – svo sem einfaldri lausn Framsóknarflokksins sem kom fram skömmu eftir framangreint ákall, þ.e. í lok febrúar 2009. Á meðan blæðir fólki og fyrirtækjum.

 

Gagnvart okkur Framsóknarfólki dugar ekki hið staðlaða svar vinstriflokkanna – að þetta sé nú bara íhaldinu að kenna (eins og Samfylkingin hafi ekki verið í ríkisstjórn í hruninu) og hvort menn vilji íhaldið aftur til valda!

 

Kópavogur má ekki við annarri vinstristjórn

Enn rennur mér blóðið til skyldunnar enda er Kópavogur – þar sem ég sækist nú eftir fyrsta sæti á bæjarstjórnarlista Framsóknarflokksins – að líkindum það sveitarfélag þar sem hvað flest heimili að fjölda og væntanlega flest heimili að tiltölu eiga í vanda vegna þess forsendubrests sem varð með gengisfalli vorið 2008, gengishruni haustið 2008 og verðbólgufjalli í kjölfarið. Sama má vafalítið segja um marga smærri og stærri atvinnurekendur í þessu næststærsta sveitarfélagi landsins. Við þetta bætist ein afleiðing efnahagskreppunnar sem felst í miklum lóðaskilum hér í Kópavogi eins og víðar. Það eru ekki aðeins hagsmunir þessara Kópavogsbúa – heldur einnig bæjarfélagsins sjálfs – að fólk og fyrirtæki í bænum losni úr skuldaklafanum og dafni.

 

Að fenginni reynslu ættu kjósendur – bæði í prófkjöri okkar Framsóknarfólks 27. febrúar nk. og í bæjarstjórnarkosningum hinn 29. maí nk. – að vara sig á að veita vinstriflokkunum hreinan meirihluta eins og hætta er á ef ekki verður róttæk breyting á forystu Framsóknarflokksins hér í Kópavogi.

 

Framsókn á meira skilið

Framsóknarflokkurinn þarf að ná sínum fyrri styrk hér í Kópavogi svo að vinstrimenn fái ekki einir ráðið bæjarmálum af álíka dáðleysi og spuna og einkennt hefur landsmálin undanfarið ár.

 ***

Nánar má lesa um ítrekaðar og ítarlega rökstuddar tillögur mínar sem talsmanns neytenda á skuldavandanum á www.talsmadur.is.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.2.2010 - 09:45 - FB ummæli ()

Persónukjörið í Kópavogi er núna – í febrúar

Ein helsta krafa almennings um lýðræðisumbætur undanfarið ár var persónukjör í stað flokksræðis.  Framsóknarflokkurinn studdi kröfu um persónukjör – rétt eins og hann átti beinlínis frumkvæði að stjórnlagaþingi – sem íhaldið þæfði tillögur um sl. vor. Ríkisstjórn vinstriflokkanna heyktist svo á því að hrinda í framkvæmd eigin tillögum um persónukjör. Réði þar miklu andstaða þeirra sveitarstjórnarfulltrúa sem fyrir liggja á fleti.

 

Áskorun um breytingar í Kópavogi

Í þessum mánuði gefst íbúum Kópavogs engu að síður tækifæri til þess að hafa áhrif innan þeirra flokka sem nú eiga fulltrúa í bæjarstjórn. Þrír þeirra halda prófkjör eða forval nú í febrúar og sá fjórði hefur nýlokið forvali á lista sinn til bæjarstjórnar.

Ég tel að ein leið til þess að breyta vinnubrögðum í bæjarmálum sé að efla forystu Framsóknarflokksins í Kópavogi. Af þeim sökum býð ég fram krafta mína til þess að svo megi verða og sækist eftir 1. sæti á lista flokksins í prófkjöri 27. febrúar nk. fyrir bæjarstjórnarkosningar í vor. Slíkar breytingar verða ekki sjálfkrafa – með því að tala um málin í heita pottinum eða á kaffistofunni. Enn síður breytist röðun á lista fyrir bæjarstjórnarkosningar í vor með því að treysta á val annarra.

  

Þarftu að endurnýja?

Ef þú vilt taka þátt í að breyta Kópavogi getur þú haft áhrif og skráð þig í Framsóknarflokkinn fyrir 19. febrúar nk., sbr. auglýsingu á bls. 5 í Kópavogspóstinum – og komið skráningunni til mín í kosningamiðstöð að Smiðjuvegi 6 (rauð gata) eða hringt í síma 517 07 04 eða GSM 897 33 14.

 Ef þú vilt aukið traust í stjórn bæjarmála, frekari samvinnu við önnur sveitarfélög og meiri heilindi gagnvart íbúum skora ég á þig að leggja framsókn minni lið í prófkjöri 27. febrúar nk.

Meðal þess sem ég legg áherslu á er að

  • samþætta heimili og tómstundir,
  • gæta hags eldri borgara, t.d. með sérstökum umboðsmanni aldraðra, og
  • skipuleggja byggð, atvinnu og umferð með hliðsjón af almannahagsmunum.

Ég mun fjalla nánar um þessi og önnur áherslumál mín hér á Eyjunni á næstunni. Verið velkomin í kosningamiðstöðina að Smiðjuvegi 6 (rauðri götu) til þess að ræða hvernig við viljum hafa Kópavog framtíðarinnar.

 

Þú getur skráð þig í flokkinn hér: 

http://www.framsokn.is/Forsida/Taka_thatt 

Vinsamlegast sendið þá afrit af svarpóstinum á gislit@ru.is

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , ,

Mánudagur 8.2.2010 - 14:59 - FB ummæli ()

Halló heimur!

Velkomin á blog.eyjan.is. Þetta er fyrsta færslan.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur