Miðvikudagur 24.02.2016 - 19:41 - FB ummæli ()

Áfengi í búðir – Góð hugmynd?

Fyrir alþingi liggur frumvarp Viljhjálms Árnasonar alþingismanns um að leyfa sölu áfengis, þ.e. bjór, létt og sterkt vín, í öllum matvöruverslunum. Áfengi er ekki eins og hver önnur vara. Að neyta áfengis er ekki það sama og neyta gosdrykkjar eða mjólkur, því áfengi er vímugjafi. Til að sporna við slæmum félagslegum áhrifum áfengis hefur verið við lýði á Íslandi íhaldssöm og áhrifarík áfengisstefna sem leggur áherslu á öflugar forvarnir, háan áfengiskaupaaldur, háa áfengisskatta og takmarkað aðgengi að áfengi.  Á Íslandi náði áfengisneysla hámarki árið 2007 en það ár var neyslan 7,53 l á hvern einstakling 15 ára og eldri. Árið 2014 var áfengisneyslan um 7,18 l á hvern Íslending 15 ára og eldri.

Í röklítilli greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ef sala áfengis verður leyfð í venjulegum matvöruverslunum mun neyslan á áfengi aðeins aukast en svo jafnast út. Bak við þessa fullyrðingu eru engar tilvitnanir í rannsóknir sem styðja hana. Hins vegar er sagt í greinargerðinni að ekki hafi verið sýnt fram á að varanlegt orsakasamhengi sé á milli aukins aðgengis og aukinnar neyslu. Þessi undarlega fullyrðing er í andstöðu við fjölda alþjóðlegra rannsókna[1] og slæma reynslu nágrannaþjóða okkar af auknu aðgengi að áfengi sem hefur leitt af sér meiri heilbrigðis- og félagsleg vandamál.

Í dag rekur Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins 48 vínbúðir um allt land, þar af 12 verslanir á höfuðborgarsvæðinu, sem tryggir nægilegt aðgengi að áfengi. Ef frumvarpið nær í gegn mun útsölustöðum áfengis fjölga að lágmarki um 550% á höfuðborgarsvæðinu m.v. óbreyttan fjölda matvöruverslana stærstu keðjanna. Varðandi aðgengi að áfengi má benda á að á vegum  ÁTVR eru fleiri áfengisverslanir en ríkisreknar heilsugæslustöðvar.

Í greinargerðinni er sagt frá upplifun manns sem fór í matvöruverslun í bænum Maribo í Danmörku sem er jafnstór og Akranes, þar sem íbúar geta valið úr úrvali að lágmarki 300 tegunda af áfengi í venjulegri matvöruverslun. Ég tel mjög óheppilegt að nefna Danmörku sem fyrirmynd í áfengismálum því þar er almenn áfengisneysla 50% meiri en á Íslandi. Að auki er vert að nefna að í nýlegri rannsókn sem Sveinsína Ósk Emilsdóttir gerði kom í ljós að í Danmörku hafa yfir 80% unglinga 15-16 ára í Danmörku neytt áfengis seinustu 30 daga en um 30% íslenskra unglinga á sama aldri.[2] Ein af skýringum af hverju áfengisneysla er miklu meiri í Danmörku en á Íslandi er að mati Sveinsínu Ósk annars vegar sú staðreynd að í Danmörku er máttlítil opinber áfengisvarnarstefna og hins vegar að hægt er að versla allar tegundir áfengis í venjulegri matvöruverslun eins og stefnt er að í frumvarpi Vilhjálms Árnasonar.

Í ljósi reynslu af sölu áfengis í matvöruverslunum í Danmörku tek ég undir með umboðsmanni barna sem segir í umsögn sinni um frumvarp Vilhjálms m.a.: „að fjölmargar rannsóknir sýna að aukið aðgengi að áfengi auki neyslu í samfélaginu, en slíkt hefur verulegar neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir börn, fjölskyldur þeirra og samfélagið allt.“

Ef sala áfengis verður leyfð í almennum verslunum landsins bendir allt til þess að þróun verði svipuð hér og hjá öðrum þjóðum, þ.e. neyslan mun aukast sem leiðir til fleiri félagslegra vandamála, aukins ölvunaraksturs, fleiri heimilisofbeldismála, fleiri annarra ofbeldismála (eins og nauðgana), fleiri skilnaða, meiri vanlíðan hjá börnum, fleiri áfengistengdra dauðsfalla, fleiri tapaðra vinnustunda vegna áfengisneyslu og stofnanir samfélagsins (félagsþjónusta, heilbrigðiskerfið, lögregla o.s.frv.) munu þurfa að eyða meiri tilkostnaði (tíma, mannskap og fé) í að takast á við afleiðingarnar. Ef frumvarpið verður samþykkt verður meintur „ávinningur“ af því að leyfa sölu áfengis í verslunum hjóm eitt miðað við afleiðingar þess.

Mín skoðun er sú að við eigum að viðhalda okkar íhaldssömu stefnu í áfengisvörnum sem við höfum haft undanfarna áratugi og ekki leyfa sölu á áfengi í matvöruverslunum.

Við getum lært margt gott af nágrönnum okkar í Danaveldi, en áfengismenning þeirra er ekki eitt af því. Ég er  sannfærður um að ef Shakespeare hefði verið uppi nú á dögum hefði hann skrifað: There is something rotten in the state of Denmark and it is the alcohol consumption.

[1] Sjá umsögn Embættis Landlæknis.

[2] http://skemman.is/stream/get/1946/22531/48097/1/BA_verkefni-Sveins%C3%ADna-Lokaskil.pdf

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Alexander Ólafsson
Ég er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Gautaborg og meistaragráðu í heilbrigðisstjórnun frá Norræna heilsuháskólanum í Gautaborg. Ég hef mikinn á áhuga á ríkisrekstri, íslenskri stjórnsýslu, heilbrigðis- og efnahagsmálum, norrænni samvinnu, ESB, öryggis- og varnarmálum. Tölvupóstur: gunnaralexander1212@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur