Þriðjudagur 22.03.2016 - 18:05 - FB ummæli ()

Fjármögnun heilbrigðisþjónustu – Frá hæstu útgjöldum á Norðurlöndum í lægstu!

Í samstarfsyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar segir m.a. „Íslenskt heilbrigðiskerfi verður að vera samkeppnisfært við nágrannalönd um tækjakost, aðbúnað sjúklinga og aðstæður starfsmanna. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að landsmenn njóti aðgengis að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.“

Síðan ríkisstjórnin tók við völdum hafa útgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af vergri Landsframleiðslu (VLF) ekki aukist, heldur staðið í stað m.v. síðasta ár ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Það er umhugsunarvert því staða ríkisfjármála eru betri í dag en á síðasta kjörtímabili, þökk sé góðs efnahagsbata undanfarin ár vegna fjölgunar ferðamanna og makrílveiða.

Ef útgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF á Íslandi er borin saman við hin Norðurlöndin kemur í ljós að Ísland og Finnland leggja minna til heilbrigðismála en hinar Norðurlandaþjóðirnar. Árið 2014 lögðu Íslendingar 8,8% af VLF til heilbrigðismála, Finnar 8,7%, Norðmenn 9,2%, Danir 10,4% og Svíar 11%. Ef Íslendingar ætluðu að leggja jafnmikið og Svíar til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF þurfa heilbrigðisútgjöld að aukast um rúmlega 40 milljarða króna á Íslandi eða um 20-25%.

Ef skoðuð eru útgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF á Norðurlöndum frá árinu 2000 til ársins 2014 (sjá mynd) kemur í ljós að á tímabilinu 2000-2005 lögðu Íslendingar mest til heilbrigðismála miðað við hin Norðurlöndin. Athyglisvert er að árið 2003 lagði Ísland 10,1% til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF, langmest af öllum Norðurlöndum. Síðan árið 2005 hefur hlutfall útgjalda til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF lækkað og haldist nánast óbreytt frá árinu 2006 þegar það var 8,9%. Umhugsunarvert er að árið 2014 leggur Ísland (ásamt Finnlandi) minnst til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF af Norðurlöndum en tíu árum áður lagði Ísland mest til heilbrigðismála. Annað sem er ekki síður áhyggjuefni að sé myndin skoðuðvel kemur í ljós að öll Norðurlönd eru að auka verulega útgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF frá árinu 2000 til 2014 nema Ísland.

NL

[1]

Sú staðreynd að ekki hefur verið lagt meira fé til heilbrigðsisþjónustu en raun ber vitni um hefur haft margvíslegar afleiðingar. Nær engin fjárfesting í nýjum spítölum hefur átt sér stað síðustu  árin, innleiðing á nýjum meðferðum og lyfjum hefur dregist úr hófi fram, fjárfesting í nýjum tækjum er leyst með sérstökum átaksverkefnum.  Rauntölur um helbrigðisútgjöld sýna að ekki hefur verið veitt meira til heilbrigðisþjónustu sem hlutfall af VLF á þessu kjörtímabili en á því síðasta, þrátt fyrir orðaflaum ráðherra um annað.  Við eigum langt í land með að ná sambærilegum aðstæðum í heilbrigðismálum eins og ríkir í Danmörku og Svíþjóð. Við viljum vera bjartsýnir og gefa eitt ráð: Í stað þess að tala um að hafa lagt svo og svo mikið í heilbrigðismál, sýnið það í verki og með tölum sem sýna  raunverulega aukningu á fjármagni til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF.

Að endingu viljum við taka fram við styðjum heilshugar áskorun Kára Stefánssonar til stjórnvalda um að þau tryggi að útgjöld til heilbrigðismála verði 11% af VLF.

[1] OECD Health Data

 

Meðhöfundur er Ólafur Ólafsson læknir og greinin birtist í Fréttablaðinu 22. mars 2016

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Alexander Ólafsson
Ég er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Gautaborg og meistaragráðu í heilbrigðisstjórnun frá Norræna heilsuháskólanum í Gautaborg. Ég hef mikinn á áhuga á ríkisrekstri, íslenskri stjórnsýslu, heilbrigðis- og efnahagsmálum, norrænni samvinnu, ESB, öryggis- og varnarmálum. Tölvupóstur: gunnaralexander1212@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur