Föstudagur 01.04.2016 - 20:28 - FB ummæli ()

Greiðsluþátttaka í heilbrigðiskerfinu – Alltof há mörk

Heilbrigðisráðherra hefur boðað breytingu á greiðsluþátttöku sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónstu með það að markmiði að takmarka kostnað við ákveðið hámarksþak á 12 mánaða tímabili. Eitt af fáum atriðum sem er gott við við tillögur ráðherra er að greiðslukerfin í heilbrigðisþjónustu verða færri, þau  einfölduð og fyrirsjáanleiki og gegnsæi eykst. Aftur á móti verða áfram í gildi nokkur greiðsluþátttökukerfi, eitt kerfi fyrir almenna heilbrigðisþjónustu, annað kerfi fyrir lyf, þriðja kerfi fyrir þjálfun, fjórða kerfið fyrir tannlækningar og fleiri kerfi fyrir flóknari þætti heilbrigðiþjónustu (eins og tæknifrjóvganir og lýtalækningar). Það má alveg taka undir með ráðherra að nýja greiðsluþátttökukerfið er sanngjarnara og réttlátara en þau kerfi sem fyrir voru en aftur á móti  verður að gagnrýna hið nýja kerfi fyrir það hversu há mörkin á hámarkskostnaði verða. Í tillögu ráðherra er gert ráð fyrir að hámarkskostnaður einstaklinga á 12 mánaða tímabili verði á bilinu 44.000-95.000 og munu nær allir á aldrinum 18-66 ára greiða allt að 95.000 krónur fyrir umrædda heilbrigðisþjónustu á 12 mánaða tímabili. Ástæðan fyrir því að ég tel að mörkin séu of há er sú að annað greiðslukerfi í heilbrigðiskerfinu, greiðslukerfi lyfja er fyrir utan þetta nýja kerfi og þar er hámarkskostnaður einstaklinga 62 þúsund á ári. Langflestir sem munu greiða hámarkostnað vegna umræddrar heilbrigðisþjónustu greiða einnig hámarkskostnað vegna lyfja og er því hámarksþakið 157 þúsund krónur á 12 mánaða tímabili en ekki 95 þúsund krónur. Það er 65% hærra en ráðherra leggur fram með nýja kerfinu sínu.

Í stefnulýsingu ríkisstjórnarinnar segir m.a. um heilbrigðismál: „Íslenskt heilbrigðiskerfi verður að vera samkeppnisfært við nágrannalönd um tækjakost, aðbúnað sjúklinga og aðstæður starfsmanna. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að landsmenn njóti aðgengis að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.“ Ég staldra við það sem snýr að aðbúnaði sjúklinga. Með þessu kerfi er kostnaðarþátttaka sjúklinga á Íslandi miklu hærri en á hinum Norðurlöndunum.

Í Svíþjóð er heilbrigðisþjónustan nánast gjaldfrjáls öllum sem eru yngri en 20 ára. Kostnaðarþak á kostnaði fyrir 12 mánaða tímabil vegna heilbrigðisþjónustu í Svíþjóð er almennt um 1.100 SEK (um 16.800 ISK) og fólk greiðir að hámarki 2.200 SEK (um 33.600 ISK) á ári fyrir lyf fyrir 12 mánaða tímabil. Alls greiða Svíar almennt að hámarki um 3.300 SEK (um 50.000 ISK) á 12 mánaða tímabili fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf sem gera um 50 þúsund íslenskar krónur á 12 mánaðatímabili eða 1/3 af því sem ráðherra boðar.

Í Noregi er hægt að velja um tvö greiðslukerfi, eiginkostnaðarkerfi 1 (NOK 2.185 eða um 32.700 ISK)  og eiginkostnaðarkerfi 2 (NOK 2.670 eða um 40.000 ISK). Í báðum kerfum er þak á kostnaði (mishátt) en eiginkostnaðarkerfi 2 tekur til fleiri þátta í heilbrigðisþjónustu en kerfi 1. Bæði kerfin taka til komugjalda, lækniskostnaðar, röntgen, rannsókna auk lyfja.

Í Danmörku velur einstaklingur hvort hann kaupir heilsutryggingakort eða ekki. Sá sem hefur heilsutryggingarkort fær allan heilbrigðiskostnað greiddan af sínu fylki (Region). Þeir sem velja ekki að fá sér ekki heilsutryggingakort geta valið til hvaða læknis, sérfræðings, sjúkraþjálfara, tannlæknis þarf að leita til og fær viðkomandi fasta fjárhæð frá Fylkinu fyrir greiðsluna en ef þjónustan er dýrari, greiðir notandinn sjálfur mismuninn. Langflestir Danir tilheyra tryggingahóp. Í Danmörku greiða allir fyrir lyf en aldrei meir en DKK 3.880 (um 73.000 ISK) yfir 12 mánaða tímabil.

Ljóst er að boðaðar breytingar á greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu er skref í rétta átt. Aftur á móti eru boðað hámark fyrir greiðslu á 12 mánaða tímabili alltof hátt og þarf það  að lækka til að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar að sjúklingar búa við svipaðar aðstæður og í nágrannalöndum okkar. Til að ná því markmiði þarf meira fé í heilbrigðismál og hafa tæp 90 þúsund Íslendingar skrifað undir áskorun þess efnis. Þegar hámarskgreiðslur eru orðnar þetta háar er  ósanngjarnt að deila kostnaðnum  á sjúklinga í stað þess að stærri hluti heilbrigðiskostnaðar sé  dreift á alla skattgreiðendur eins og gert er á hinum Norðurlöndunum.

Því vil ég hvetja heilbrigðisráðherra að standa í lappirnar og berjast fyrir lægri hámarksþökum á greiðslur vegna heilbrigðisþjónustu og að hið opinbera greiði stærri hlut gegnum skattkerfið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Alexander Ólafsson
Ég er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Gautaborg og meistaragráðu í heilbrigðisstjórnun frá Norræna heilsuháskólanum í Gautaborg. Ég hef mikinn á áhuga á ríkisrekstri, íslenskri stjórnsýslu, heilbrigðis- og efnahagsmálum, norrænni samvinnu, ESB, öryggis- og varnarmálum. Tölvupóstur: gunnaralexander1212@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur