Þriðjudagur 03.05.2016 - 22:02 - FB ummæli ()

Eyðum óvissu og óöryggi meðal leigjenda

Í nýjasta tölublaði Fréttatímans (tbl. 29.04.2016) er að finna áhugaverða og átakalega lýsingu á stöðu leigjenda á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Rætt var við nokkra viðmælendur sem voru sammála um að staða leigjenda á höfuðborgarsvæðinu væri erfið í ljósi óöryggis og óvissu sem ríkti á markaðinum. Í raun ríkir ekkert öryggi hjá leigutaka nema 3ja mánaðar uppsögn. Þetta hefði slæm áhrif á líf fjölskyldna og barna þar sem óöryggið skapaði tíða flutninga, jafnvel milli hverfa og bæjarfélaga. Það hafi slæm áhrif á börn og valdi óþarfa kvíða meðal þeirra sem og meðal leigjandanna sjálfra. Athyglisvert var að lesa að einn leigjandi kallaði sig annarrar kynslóða leigjanda, þ.e. hún væri í sömu stöðu og móðir sín sem hafði lifað við sama óöryggi og óvissu einni kynslóð áður.

Þessi óvissa og óöryggi fer vaxandi í ljósi þess að leigjendum hefur fjölgað mikið undanfarin ár eða um 50% frá árinu 2004. Í dag er hlutfall leigjenda á húsnæðismarkaði um 22% en var 14% árið 2004. Það eru nokkrar ástæður fyrir því að hlutfall leigjenda hefur aukist. Ein er sú að það er mjög dýrt að kaupa húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, m.a. vegna verðhækkana og aukinnar kröfu um eigið fé. Þetta hefur bitnað á fólki með góðar tekjur sem hefur ekki náð að safna fyrir útborgun. Í öðru lagi eru margir sem vilja ekki kaupa og binda mikið eigið fé í fasteign í ljósi afleiðinga hrunsins á fasteignamarkaðinn. Í þriðja lagi hrýs fólki hugur við þeim lánakjörum sem því stendur til boða við húsnæðiskaup þar sem vextir eru alltof, alltof háir m.v. vexti á húsnæðislánum t.d. í Noregi.

Stjórnvöld hafa brugðist og valdið vonbrigðum í málefnum leigjenda. Það er einna helst Reykjavíkurborg sem hefur reynt að sporna við ástandinu með því að fjölga lóðum til leigufélaga sem eru rekin án hagnaðarsjónamiða (Félagsstofnun Stúdenta) auk þess að fjölga íbúðum á vegum Félagsbústaða. Aftur á móti hefur ríkisvaldið algerlega brugðist, þó að fyrir liggi á alþingi frumvarp til að styrkja starfsemi leigufélaga. Það frumvarp er sérstaklega miðað fyrir fólk með lágar tekjur en mætir ekki kröfum fólks með meðaltekjur. Það er vel að setja fram frumvarp sem mætir þörfum ákveðins hluta fólks um leigu en frumvarpið verður að vera víðtækara og almennara.

Að mínu mati set ég stórt spurningamerki um vilja stjórnvalda til að bæta kjör leigjenda á almennum markaði í ljósi þess hve illa hefur gengið að gera húsnæðisfrumvarp félagsmálaráðherra að lögum og er þá ekki við stjórnarandstöðuna að sakast í því máli. Til viðbótar skýtur það skökku við að á sama tíma þegar verið er að búa til frumvarp til að styrkja leigjendur á leigumarkaði þá seldi ríkisvaldið eina opinbera leigufélagið sem leigði út íbúðir til langs tíma til fjárfesta!

Verkalýðshreyfingin með ASÍ í broddi fylkingar hefur gert málið að stefnumáli sínu og ætlar að berjast fyrir því að húsnæðisþörfum fólks verði mætt með heilstæðari hætti. Ber að fagna afstöðu Verkalýðshreyfingarinnar og ASÍ.

Að mínu mati þarf að gera betur og hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög eiga að stofna opinber leigufélög sem leigja út íbúðir til langs tíma óháð tekjum til að bjóða uppá raunverulegan leigu húsnæðis sem möguleika fólks til að mæta húsæðisþörf, til að auka öryggi leigjenda og eyða óvissu sem þeir búa við á leigumarkaði. Þetta form þekkist vel á hinum Norðurlöndunum þar sem sveitarfélög eru annað hvort beinir leigusalar eða eigendur að leigufélögum sem leigja út íbúðir óháð tekjum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Alexander Ólafsson
Ég er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Gautaborg og meistaragráðu í heilbrigðisstjórnun frá Norræna heilsuháskólanum í Gautaborg. Ég hef mikinn á áhuga á ríkisrekstri, íslenskri stjórnsýslu, heilbrigðis- og efnahagsmálum, norrænni samvinnu, ESB, öryggis- og varnarmálum. Tölvupóstur: gunnaralexander1212@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur