Föstudagur 27.05.2016 - 16:24 - FB ummæli ()

Félagsleg einkavæðing – Kletturinn horfinn

Í vikunni bárust fréttir af því að íbúðalánasjóður hafi selt leigufélagið Klett til fjárfesta. Með sölunni lauk áhugaverðu félagslegu leiguskipulagi sem Guðbjartur Hannesson þáverandi velferðarráðherra kom á til að bjóða fólki (óháð tekjum) aðgang að öruggu leiguhúsnæði til langs tíma. Þetta leiguform finnst ekki á almennum leigumarkaði í dag.

Um tilgang Íbúðalánasjóðs segir á heimasíðu sjóðsins: “Að stuðla að því … að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og … að auka möguleika fólks til að eignast og leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.“

Í könnun um hagi leigjenda sem félagsmálaráðherra lét gera og birti í vikunni kom fram að um 60% leigjenda hafa búið í sama húsnæði skemur en tvö ár sem sýnir hve mikið óöryggi og óvissu leigjendur búa við á almennum markaði. Sama könnun sýndi að á tímabilinu 2003-2015 var 50% aukning hjá leigjendum sem leigja af nauðsyn og árið 2015 var miklu erfiðara að fá leiguhúsnæði en árið 2003. Í stuttu máli sýndi könnunin að óöryggi og óvissa meðal leigjenda hefur aukist. Könnunin er í samræmi við þá þróun að leigjendum hefur fjölgað mikið undanfarin ár eða um 50% frá árinu 2004. Í dag er hlutfall leigjenda á húsnæðismarkaði um 22% en var 14% árið 2004.

Með sölu Klettsins mun staða þeirra leigjenda sem leigja af leigufélaginu verða óviss, ótrygg og skapa kvíða meðal fjölskyldna. Að búa ekki við örugg húsnæðisskilyrði getur valdið kvíða þar sem fjölskyldur þurfa að skipta oft um húsnæði og börn að skipta um hverfi, skóla og vini. Við söluna á leigufélaginu Kletti skuldbundu nýjir eigendur sig til að halda óbreyttu leiguverði næstu 12 mánuði. Eftir að því tímabili lýkur má búast við að leiguverð hækki, því kaupendur þurfa fá fjárfestingu sína til baka. Það mun leiða til styttri leigutíma, hærri leigu og óöryggi og óvissa meðað leigjenda eykst.

Í stað þess að auka þjónustu fyrirtækisins og gefa fleiri leigjendum kost á að njóta öryggis á leigumarkaði hafa yfirvöld félagsmála þvert á móti ákveðið að auka óöryggi þessa hóps.

Það undrun að félagamálaráðherra hafi á nánast sama degi og hún kynnti könnun um alvarlega stöðu leigjenda á Íslandi leyft sölu á leigufélaginu Kletti sem bauð uppá einstakt félagslegt úrræði og öryggi fyrir þúsundir á leigumarkaði.

Með sölunni er verið að einkavæða þetta félagslega úrræði  sem gengur þvert gegn þeim markmiðum húsnæðisstefnu opinberra aðila að tryggja fólki öruggt húsnæði. Það er leitt að þessi ákvörðun um sölu á leigufélaginu Kletti gekk eftir, því tilvist fyrirtækisins sýndi að hægt var að mæta óskum fólks um öruggt húsnæði með einföldum og góðum hætti.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Alexander Ólafsson
Ég er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Gautaborg og meistaragráðu í heilbrigðisstjórnun frá Norræna heilsuháskólanum í Gautaborg. Ég hef mikinn á áhuga á ríkisrekstri, íslenskri stjórnsýslu, heilbrigðis- og efnahagsmálum, norrænni samvinnu, ESB, öryggis- og varnarmálum. Tölvupóstur: gunnaralexander1212@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur