Mánudagur 13.06.2016 - 16:51 - FB ummæli ()

Nýr búvörusamningur – Óbreytt ástand  

 

Fyrir alþingi liggur frumvarp um nýjan búvörusamning milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands. Markmið samningsins er að auka verðmætasköpun og nýta betur tækifærin sem felast í sveitum landsins í þágu bænda, neytenda og samfélagsins alls og treysta stoðir landbúnaðarins og ýta undir framþróun, nýsköpun og byggðafestu.

Eftir lestur á samningnum eru nokkur atriði sem eru gagnrýnisverð. Markmið samningsins eru þau sömu og fyrri samninga, en reynslan af þeim er óhagkvæm búvöruframleiðsla, dýrar landbúnaðarvörur, mikill opinber stuðningur, fækkun bænda, minni tekjur til bænda og mikil  tollavernd á erlendum landbúnaðarvörum.

Við lestur á nýja búvörusamningnum kemur í ljós að samningurinn er um óbreytt skipulag búvöruframleiðslu í landinu. Tækifæri sem gerð samnings bauð uppá um að endurskoða landbúnaðarstefnuna frá grunni með það að markmiði að auka samkeppni og svigrúm bænda til hagræðingar og lægri framleiðslukostnaðar var að engu haft.
Það skýtur skökku við að árið 2016 skuli gerðir svo íþyngjandi samningar sem eru í andstöðu við hagsmuni neytenda og skattgreiðenda um leið og þess er gætt að samkeppnislög gildi ekki um mjólkurframleiðslu. Í samningnum eru ákvæði sem eru framleiðsluhvetjandi sem þjónar ekki hagsmunum bænda, neytenda né skattgreiðenda í stað þess að láta framleiðslu mæta innanlandsþörf.

Opinber fjárstuðningur vegna búvöruframleiðslu eykst á samningstímanum og eru greiðslur til bænda verðtryggðar. Greiðslur á ári vegna búvörusamnings verða um 13 milljarðar eða 130 milljarðar á samningstímanum. Að auki er innlendri búvöruframleiðslu tryggð tollvernd sem er metin á 8-10 milljarða króna á ári. Því má segja að bændum sé tryggð með samningnum árlegar tekjur uppá 21-23 milljarða króna eða um 210-230 milljarða á samningstímanum. Þessi kostnaður lendir á neytendum og skattgreiðendum (sem eru sami aðili).

Í samningnum er kveðið á um nýsköpun í landbúnaði sem snýr að lífrænni framleiðslu en stuðningur til þess er alltof lítill.

Gullið tækifæri hafi klúðraðist við gerð á nýjum búvörusamningi til að treysta samskipti bænda og neytenda, að styrkja samkeppni í landbúnaði, að styrkja fleiri búgreinar, að leyfa innflutning á erlendum landbúnaðarvörum og að endingu að draga úr beingreiðslum til bænda.

Það er von mín að atvinnumálanefnd alþingis geri breytingar á samningnum þannig að frelsi framleiðenda í mjólkur og sauðfjárrækt verði aukið og samkeppni í landbúnaði eykst um leið. Greiðslur opinberra aðila vegna búvöruframleiðslu verði í lok samningstíma 2/3 þeirra fjárhæðar sem fer til framleiðenda í ár, að samningstími verði styttur í sjö ár, að opnað verði á meiri innflutning landbúnaðarvara erlendis frá, nýsköpun meðal bænda verði meiri og að samningurinn innifeli í sér hagsmuni fleiri aðila en bænda, t.d. neytenda.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Alexander Ólafsson
Ég er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Gautaborg og meistaragráðu í heilbrigðisstjórnun frá Norræna heilsuháskólanum í Gautaborg. Ég hef mikinn á áhuga á ríkisrekstri, íslenskri stjórnsýslu, heilbrigðis- og efnahagsmálum, norrænni samvinnu, ESB, öryggis- og varnarmálum. Tölvupóstur: gunnaralexander1212@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur