Föstudagur 22.07.2016 - 13:22 - FB ummæli ()

Batnandi tannheilsa barna….

 

Um daginn birtust fréttir frá Sjúkratryggingum Íslands um batnandi tannheilsu barna á Íslandi. Til að meta tannheilsu barna þarf að reikna út meðalfjölda tannviðgerða á barn. Árið 2001 var meðalfjöldinn 1.57 og hefur farið lækkandi síðan og var árið 2015 0,65 viðgerð á meðaltali á barn. Til viðbótar þessu var árlegt hlutfall barna sem bjuggu við góða tannheilsu (ekki þarf að gera við tönn) 56.2% árið 2001 og hafði hækkað í 72,4% árið 2015.

Þessi árangur er tilkominn af því að þáverandi velferðarráðherra, Guðbjartur heitinn Hannesson, hafði forgöngu um að semja við sjálfstætt starfandi tannlækna um tannlæknaþjónustu við börn árið 2013. Í skemmstu máli snýst samningurinn um að börn eru skráð hjá tannlækni og fara til hans í árlega skoðun og viðgerðir ef við á og greiða eingögnu 2.500 krónur í komugjald. Í samningnum var kveðið á um að börn féllu undir samninginn við ákveðinn aldur og árið 2018 munu öll börn á aldrinum 0-18 ára falla undir samninginn. Að ná samningi við tannlækna var afrek á sínum tíma því lengi hafði verið reynt að ná samningum um tannlæknaþjónustu fyrir börn en án árangurs. Fyrir því voru margar ástæður sem snérust m.a. um óraunhæfar kröfur af hálfu ríkisins, um gæðamál og um fjármögnun þjónustunnar.
Íslendingar gátu státað af því í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar að tannheilsa barna var mjög góð borið saman við t.d. Norðurlönd. Um aldamótin síðustu runnu út samingar sem gerðir  höfðu verið við tannlækna um þjónustu við börn og skólatannlækningar lögðust af. Í kjölfarið bauð ríkisvaldið niðurgreiðslur á tannlækningum barna sem voru rausnarlegar í upphafi og dekkuðu stóran hluta tannlæknakostnaðar. Tímabilið frá aldamótum þangað til að samningar náðust við tannlækninga einkenndust af þremur atriðum hvað varðar tannheilsu barna. Í fyrsta lagi sóttu færri og færri börn þjónustu tannlækna. í öðru lagi héldu niðurgreiðslur ríkisvaldsins á tannlæknaþjónustu barna hvorki í við raunverð né vísitölu. Í þriðja lagi jókst kostnaður heimila vegna tannlæknaþjónustu barna gríðarlega á þessu tímabili.

Guðbjartur Hannesson setti tannheilsu barna í forgang í ráðherratíð sinni og tókst að ná samningi við tannlækna um heildstæða tannlæknaþjónustu fyrir börn. Í nálgun að betri tannheilsu barna var ákveðið að forgangsraða fé til þessa málaflokks. Það lá alltaf fyrir að til að ná betri árangri í tannheilsu barna þyrfti að leggja til meira fé til málaflokksins og í ljósi þess er það afrek útaf fyrir sig að hafa náð að tryggja meira fé í þessa þjónustu m.v. þá gríðalega erfiðu stöðu sem ríkissjóður var í á þeim tíma.
Það er því fagnaðarefni að samningurinn hefur náð sínum markmiðum hvað varðar betri tannheilsu barna. Þó að okkur finnist það sjálfsögð þjónusta við börn að þau fái heildstæða tannlæknaþjónustu var það ekki sjálfgefið að ná saman með tannlæknum um þessa þjónustu án þess að leggja meira fé til þjónustunnar. Þessar fréttir frá Sjúkratryggingum Íslands benda sterklega til þess að við erum á réttri leið hvað varðar tannheilsu barna og fá aðilar sem sjá um framkvæmd samningsins, tannlæknar og Sjúkratryggingar Íslands hrós fyrir vel unnin störf.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Alexander Ólafsson
Ég er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Gautaborg og meistaragráðu í heilbrigðisstjórnun frá Norræna heilsuháskólanum í Gautaborg. Ég hef mikinn á áhuga á ríkisrekstri, íslenskri stjórnsýslu, heilbrigðis- og efnahagsmálum, norrænni samvinnu, ESB, öryggis- og varnarmálum. Tölvupóstur: gunnaralexander1212@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur