Hér er svarað í stuttu máli nokkrum athugasemdum við pistlinum „Er Guð til“
Nokkrar athugasemdir ganga út á það að við vitum ekkert með vissu um tilurð alheimins, að það sé í raun óútkljáð hvort alheimurinn sé eilífur eða ekki. Til séu rök með og á móti eilífum alheimi, jafnt heimspekileg og vísindaleg.
Við vitum núorðið býsna mikið um eðli alheimsins. Heimsfræðin, sú grein eðlisfræðinnar sem rannsakar uppruna alheimsins, hefur gjörbylt eldri hugmyndum um eðli og tilurð hans. Sú kenning sem gengið er út frá í dag – Miklahvellskenningin – er einfaldlega sú kenning að alheimurinn (allur hinn efnislegi veruleiki tíma, rúms og orku) er ekki eilífur heldur hafi orðið til fyrir um það bil 14 billjónum ára og eigi sér því upphaf. Sú kenning er viðurkennd af flestum og allar athuganir fram til þessa hafa staðfest hana. Vissulega hafa verið lagðar fram kenningar sem ekki gera ráð fyrir því að alheimurinn eigi sér upphaf, en þær hafa ekki notið hylli og verið hraktar á vísindalegum grunni.
Í þessu samhengi má benda á bókina Blackwell Companion to Natural Theology (Blackwell, 2009) þar sem þau heimsfræðilíkön sem gera ráð fyrir eilífum alheimi eru vegin og metin og útskýrt hvers vegna þau geta ekki teygt fortíð alheimsins óendanlega langt tilbaka.
Þá er vert að hafa í huga ummæli hins virta eðlisfræðiprófessors Alexanders Vilenkin. Hann flutti erindi fyrir nokkrum árum á ráðstefnu sem haldin var í tilefni af 70 ára afmælis Stephen Hawkings (sjá „Why Physicists Can’t Avoid a Creation Event,“ New Scientist [January 11, 2012]). Hans mat er að allt bendi til þess að alheimurinn eigi sér upphaf! („All the evidence we have says that the universe had a beginning.“) Þetta er umhugsunarvert. Vilenkin segir ekki að rökin fyrir upphafi alheimsins vegi þyngra en rökin með eilífum alheimi. Nei, öll rök, að hans mati, bendi til þess að alheimurinn eigi sér upphaf.
Hvað varðar heimspekileg rök fyrir upphafi alheimsins þá lagði ég fram ein slík í pistli mínum (og fleiri eru til). Þau eru að mínu mati góð og gild og nægilega sterk til að réttlæta það viðhorf að óendanleg röð orsaka/atburða er óhugsandi – sem felur í sér að alheimurinn er ekki eilífur heldur eigi sér upphaf. Sú niðurstaða er að minnsta kosti hugsanlegri/skynsamlegri en mótsögnin, að mínu mati.
(Það má nálgast þessa niðurstöðu úr ýmsum áttum. Víð getum spurt okkur: Hvers vegna er „núna“? Ef alheimurinn er sannarlega eilífur, ef fortíð hans teygir sig óendanlega langt tilbaka, hvers vegna er 22. nóvember í dag, af öllum öðrum augnablikum í tíma? Hvers vegna er ekki fyrri eða síðara augnablik „núna“?)
Nú er öllum frjálst að reyna að hrekja slík rök og leggja fram rök sem sýna fram á annað. Athugasemdin hafði ekkert slíkt að geyma og því þarf ekki að hafa lengri orð um þetta hér.
Hafa ber í huga að heimfræðirökin eru heimspekileg rök, ekki vísindaleg. Sú forsenda þeirra að alheimurinn hafi orðið til og eigi sér því upphaf er studd heimspekilegum rökum á borð við þau sem ég lagði fram. Kenningin um Miklahvell er öflug vísindaleg staðfesting á þeirri niðurstöðu.
En vissulega taka vísindalegar kenningar breytingum. Það sem er viðtekið í dag getur breyst á morgun. En óháð því er alltaf hægt að horfa framhjá því sem við höfum góðar og gildar ástæður til gangast við með því að segja að ekkert verði vitað með vissu, að ekkert sé eða verði útkljáð. Ef hér er átt við „fullvissu“ eða „hundrað prósent vissu“ þá er það rétt að við vitum næsta ekkert. En slíkur mælikvarði er með öllu óraunhæfur, að ekki sé sagt andvísindalegur. Við erum þá ofurseld efahyggju, sem er fráleitt viðhorf þegar allt kemur til alls.
Önnur athugsamend er á þá leið að samkvæmt skammtafræði geti víst eitthvað orðið til úr engu, eða án orskar. Hið vísindalega svar sé því að ekki þurfi alltaf að vera frumorsök fyrir hendi.
Þetta er algeng mótbára. Það er þó ekki rétt að skammtafræði sýni að eitthvað geti orðið til úr bókstaflega engu. Þær efnisagnir sem myndast í skammtarrúminu spretta alls ekki fram úr engu. Um er að ræða sveiflur eða flökt í orkunni sem skammtarúmið samanstendur af. Sjálft skammtarúmið er alls ekki „ekkert“. Það er efnislegur veruleiki, ólgusjór af orku, þar sem efniseindir verða til og hverfa jafnharðan. Þótt ekki sé hægt að spá fyrirfram um atburði þar er það alls ekki svo að þar verði sífellt til eitthvað úr bókstaflega engu.
Að ætla að eitthvað geti orðið til úr bókstaflega engu (Hvað er það eiginlega?) án nokkurrar orsakar er verra en að trúa á töfra. Hið frumspekilega innsæi að af engu komi ekkert er einn af hornsteinum vísinda. Öll okkar reynsla okkar og þekking, vísindaleg og hversdagsleg, staðfestir að allt sem verður til á sér orsök, og að ekkert komi af engu. Og raunar má spyrja sig, ef það væri í reynd svo að eitthvað geti orðið til úr engu, hvers vegna hvað sem er verði ekki sífellt til úr engu. Af hverju er það bara alheimurinn sem verður til úr engu? Hvað gerir „ekkert“ svo dyndótt að „það“ orsaki bara alheim?
Í þessu samhengi er jafnframt bent á að ef Guð geti skapað eitthvað úr engu opnist möguleikinn á að alheimurinn sé sjálfsprottinn. Geti Guð annað eins er þá ekki einfaldara að ímynda sér að slíkt gerist bara af sjálfsdáðum?
Því var ekki haldið fram að Guð skapaði eitthvað úr engu. Hin kristna skoðun er ekki sú að alheimurinn hafi orðið til úr engu eða án orsakar. Alheimurinn á sér orsök. Hann var skapaður af Guði. En með því er ekki átt við að Guð hafi tekið handfylli af „engu“ og skapað úr því alheiminn. Þegar sagt er að Guð hafi skapað alheiminn úr engu er átt við að hann notaði ekki fyrirliggjandi „efni“ sem hann mótaði alheiminn af. Guð er líkt og myndhöggvarinn nema hvað að hann þurfti ekki efnivið til að skapa listaverkið. Ef slíkt er álitið ómögulegt verður að færa rök fyrir þeirri niðurstöðu.
Það má ímynda sér eitt og annað. En að alheimurinn sé í einhverjum skilningi sjálfsprottin eða hafi með einhverjum hætti orðið til af sjálfsdáðum er einfaldlega rökleg mótsögn og þar af leiðandi óhugsandi. Heimspekingingurinn og guðleysinginn Daniel Dennet hefur haldið slíku fram. En sé alheimurinn er sjálfsprottin, orðin til af sjálfum sér, verður hann að hafa verið til áður en hann varð til eða spratt fram. Slíkt er einfaldlega fráleitt. Orsökin getur ekki komið á undan afleiðingu sinni í þeim skilningi.
Þá er sagt að það sé út í hött að líta svo á að vangaveltur um það hvort alheimurinn sé eilífur eða ekki hafi eitthvað með Guð að gera.
Nei, það er alls ekki út í hött. Alheimur sem varð til, á sér upphaf, kallar á orsök eða útskýringu. Heimsfræðirök eru af ýmsum toga. Hin eiginlega niðurstaða heimsfræðirakanna sem ég reifa í pistli mínum er sú að alheimurinn eigi sér orsök, ekki að Guð sé til. En þegar greint er hvers eðlis sú orsök hlýtur að vera og hvaða eiginleikum hún hljóti að búa yfir verður ljóst að niðurrstaðan hefur mikið með Guð að gera.
Bent á að ef tilurð alheimsins kalli á útskýringu þá verði með sama hætti að útskýra hver orsök Guðs sé og af hverju hann er til.
Hér er líka um algenga mótbáru að ræða. Hún byggir hins vegar á misskilningi. Röksemdafærslan gengur ekki út frá því að allt sem sé til eigi sér orsök og kalli þar af leiðandi á útskýringu. Eingöngu það sem verður til á sér orsök. Guð varð hins vegar aldrei til. Hann er ekki orsakaður af einhverju öðru og á sér því ekki upphaf. Hann er eilífur. Spurningin hver skapaði eða orsakaði Guð á því ekki við og er í raun merkingarlaus. Í ljósi þess að alheimurinn er ekki eilífur er hins vegar fyllilega eðlilegt og viðeigandi að spyrja hver orsakaði eða skapaði alheiminn. Sú spurning á hins vegar ekki við þegar Guð er annars vegar.
Við þetta má bæta að til þess að fallast á tiltekna útskýringu er alls ekki nauðsynlegt að geta útskýrt útskýringuna. Augnabliks íhugun leiðir það í ljós. Það er fyllilega eðlilegt og skynsamlegt að útskýra ævaforna leirmuni sem finnast í jörðu með því að vísa til einhvers hóps af fólki sem bjó þá til og notaði, enda þótt við vitum að öðru leyti ekkert um það fólk og getum með engu móti útskýrt veru þeirra og tilvist.
Sú fullkomnunarárátta að hafna útskýringu nema hægt sé að útskýra sjálfa útskýringuna mundi gera það að verkum að ekkert yrði nokkurn tíma útskýrt. Það mundi gera út um vísindi.
Ein athugsaemdin er svohljóðandi: Ef Guð hefur skapað alheiminn og Guð hefur alltaf verið til, þá hefði hann aldrei skapað alheminn skv. röksemdum pistlahöfundar um eilífan alheim.
Hér er sennilega átt við að óendanlegur og takmarkalaus Guð gæti aldrei komið sér að því að skapa alheiminn, í sama skilningi og óendanleg röð af dómínókubbum gæti aldrei náð að fella hvaða einstaka kubb í röðinni sem er.
Þessi mótbára er byggð á misskilningi. Í stærfræðilegum skilnigi er hugmyndin um raunverulegan óendanleika hugtak sem hefur með fjölda og magn að gera. Það hefur að gera með tiltekna og tilgreinda hluti í heild eða safni. En þegar talað er um Guð sem óendanlegan er sama hugtak notað í annarri merkingu og vísar þá til eiginleika, ekki til magns. Óendanleiki Guðs hefur því ekki neitt að gera með safn af óendanlega mörgum hlutum. Að Guð sé óendalegur þýðir einfaldlega að Guð er eilífur, almáttugur, alvitur, nauðsynlegur o.s.frv. Óendanleiki í tilfelli Guðs er nokkurs konar regnhlífarhugtak sem nær yfir eiginleika hans og vísar til þess að hann býr yfir eiginleikum sínum í takmarkalausum mæli. Ef allir þessir eiginleikar væru settir til hliðar þá stendur ekki eftir einhver einn stakur eiginleiki sem kallast „óendanleiki“.
Guð er því ekki dæmi um að raunverulegur óendanleiki sé í raun og veru til. Það er því ekki hægt að vísa til Guðs til að sýna fram á að óendanleg röð orsaka/atburða sé möguleg. Að segja að Guð sé ekki óendanlegur í megindlegum skilningi felur því alls ekki í sér að Guð sé takmarkaður. Megindlegur óendanleiki á einfaldlega ekki við um Guð.
Að síðustu er spurt hvað þessi Guð sem skapaði alheiminn (ef við gefum okkur það) eigi skylt með Guði kristinnar trúar. Hvað með guði annarra trúarbragða?
Heimsfræðirökin eru ekki rök fyrir tilvist Guðs kristinnar trúar heldur fyrir tilvist Guðs í almennari skilningi.
Samkvæmt heimsfræðirökunum á alheimurinn sér orsök. Sú osök getur ekki sjálf átt sér orsök og hlýtur því að vera eilíf. Hún stendur utan og ofan við tíma og rúm því hún skapaði tíma og rúm. Þar af leiðandi hlýtur hún að vera óefnisleg og óbreytanleg. Ennfremur hlýtur hún að vera ótrúlega máttug þar sem hún skapaði allt efni og orku. Og í ljósi þess að þessi eilífa orsök getur orsakað atburð sem á sér upphaf hlýtur orsökin að vera persónuleg og búa yfir vilja.
Þessi röksemdarfærsla gefur okkur því góða ástæðu til að ætla að til sé vera sem er án upphafs, eilíf, handan tíma og rúms, óbreytanleg, óefnisleg og ótrúlega máttug og persónulegur skapari alheimsins.
Þessi lýsing á sannarlega við Guð kristinnar trúar. En hún samræmist einnig guðskilningi múslima og gyðinga. Hvernig fylla má betur í þessa mynd er hins vegar önnur spurning. Þó má færa rök fyrir því að heimsfræðirökin mæli gegn guðsskilningi fjölgyðistrúarbragða, og einnig austrænna trúarbragða sem líta á Guð sem ópersónulegan mátt sem fátt sé hægt að segja um og ekki verður greindur frá alheiminum sjálfum (t.d. búddisma og hindúsima).