Fimmtudagur 01.12.2016 - 17:42 - FB ummæli ()

Listamaðurinn

Það er ekki óvanalegt að heyra guðleysingja eða efasemdarmann kvarta undan meintum skorti á sönnunum fyrir tilvist Guðs.

Ef Guð skapaði alheiminn þá færi tilvist hans varla á milli mála, segir hann. Við ættum að geta greint hann á jafn áþreifanlegan hátt og hvað annað.

En þegar við hugsum um þann Guð sem kristið fólk trúir á, og hvers eðlis hann er, verða slíkar væntingar óraunhæfar og raunar fráleitar.

Segjum að þú sért á listasafni og virðir fyrir þér fallegt málverk. Á meðan þú horfir á málverkið lætur þú ómeðvitað í ljós skoðanir þínar á listamanninum og hvað þú teljir hann hafa ætlast fyrir með málverkinu.

Maður nokkur sem stendur við hliðina á þér, og virðir fyrir sér sama málverk – segjum að hann sé efasemdarmaður – heyrir til þín og verður eitthvað pirraður:

Listamaður, segir hann önugur. Þvílíkt bull!

Það eru engar sannanir fyrir neinum listamanni. Ég er listfræðingur og ætti nú að vita það.

Ég er hérna tvisvar í viku og hef margoft skoðað þetta málverk í gegnum árin. Ég hef grandskoðað allt sem er á myndinni, hvern fermillimetra. Ég hef rannasakað náttúruna og umhverfið í smáatriðum, uppbyggingu alls myndefnisins, hlutföll þess og fjarlægðir, litavalið, í raun allt sem er á myndinni.

Ég hef komið auga á ýmislegt merkilegt og óvænt í málverkinu, en þennan listamann sem þú ert alltaf að tala um hef ég aldrei séð eða fundið, hversu vel og nákvæmlega ég skoða verkið.

Þú segir vafalaust að ég verði að leita betur. En í alvöru talað, hversu lengi þarf maður að leita þangað til þú viðurkennir að þessi listamaður er einfaldlega ekki til.

Hefur efasemdarmaðurinn ekki misskilið málið?

Jú, hann virðist ekki aðeins misskilja hvað það felur í sér þegar sagt er að til sé listamaður heldur einnig hvers vegna maður mundi halda slíku fram.

Misskilningur efasemdarmannsins er ekki síst fólgin í því að hann lítur svo á að listamaðurinn sé hluti af málverkinu. Hann virðist halda að spurningin um tilvist hans hafi eitthvað að gera með það sem er að finna á myndinni, hvernig hún er, lítur út, er byggð upp, o.s.frv.

Svo er að sjálfsögðu ekki.

Óháð því hversu einfalt eða flókið málverkið er, skiljanlegt eða óskiljanlegt, þá bendir það óhjákvæmilega á listamanninn og gerir ráð fyrir honum.

Og að sjálfsögðu er listamaðurinn ekki hluti af sjálfu málverkinu.

Við getum sagt að listamaðurinn tjái sig í gegnum málverkið, að það endurspegli og beri honum vitni, bendi á uppruna sinn, orsakavaldinn á bak við það.

En engu að síður er listamaðurinn ekki hluti af málverkinu í eiginlegum skilningi.

Og þess vegna hefur það lítið upp á sig að skoða málverkið í öllum sínum smæstu atriðum til að finna og koma auga á listamanninn, í þeim skilningi sem efasemdarmaðurinn hugsar sér.

Hvers vegna getum við ekki afsannað tilvist Guðs á grundvelli vísindalegra athugana og rannsókna?

Enda þótt vísindi bendi til tilvistar einhvers ótrúlega máttugs veruleika sem skapaði alheiminn þá getur maður ekki, þegar allt kemur til alls, komist undan frumspekilegum vangaveltum.

Spurningin er nefnilega ekki í eðli sínu vísindaleg.

Vegna þeirra aðferða sem skilgreina (og takmarka) vísindi geta þau leitt í ljós og útskýrt það sem er að finna innan alheimsins.

En þau geta ekki leitt okkur út fyrir hann.

Af þeim sökum er spurningin frumspekileg.

Og frumspeki er ekki takmörkuð af hinu náttúrulega.

Þess vegna er rétt að minna okkar ágæta efasemdarmann á að efasemdir hans eru grundvallaðar á frumspekilegum vangaveltum.

Þær byggja í öllu falli ekki á meintum vísindalegum staðreyndum eða skorti þar á.

En að lokum stendur hver og einn frammi fyrir persónulegu vali.

Fyrir flestum er málverkið eitt og sér nægjanlega góð vísbending um tilvist listamannsins.

Hvað sem öllu líður lætur enginn sannfærast gegn vilja sínum.

Flokkar: Efahyggja · Tilvist Guðs

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur