Miðvikudagur 07.12.2016 - 21:43 - FB ummæli ()

Trú – þekkingarskortur og óskhyggja

Þegar maður ræðir við ákveðinn og eindreginn guðleysingja um trú er ekki ólíklegt að heyra látið að því liggja að trú felist í litlu öðru en þekkingarskorti og óskhyggju.

Það er hvorki óalgengt né nýtt viðhorf.

Hvað skal segja við því?

Það fyrsta sem ég hugsa yfirleitt og spyr um er einfaldlega þetta:

„Og hvað ef svo er? Hvaða ályktanir dregur þú af því? Að Guð sé ekki til? Að það sé óhugsandi að Guð sé til?“

Ef það er niðurstaða guðleysingjans þá er einfaldlega ekkert röklegt samhengi á milli hennar og forsendanna sem hann gengur út frá (hvað sem um þær annars má segja, sem er jú eitt og annað).

Nú er ég kristinn maður og óska þess vitanlega að Guð sé til. Ég vona svo sannarlega að hann sé til. Guðleysinginn óskar þess líka að hann hafi rétt fyrir sér.

Ég er líka meðvitaður um það að mig skortir þekkingu á mörgum sviðum (nánast öllum, reyndar) og mundi seint teljast til stærstu hugsuða sögunnar. Þekkingarskortur er því sannarlega eitthvað sem ég glími við. Það viðurkenni ég fúslega.

En þegar horft er til allra þeirra sem í gegnum aldirnar og árþúsundin hafa trúað á Guð, og líka til þeirra sem trúa á Guð í dag, þá má finna í þeirra röðum einhverja stærstu og mestu hugsuði sögunnar, heimspekinga, guðfræðinga, vísindamenn og menntafólk af öllum stærðum og gerðum, fólk sem skorti sannarlega ekki þekkingu, vit og skynemi.

En í hópi trúaðra má að sjálfsgðu einnig að finna öllu venjulegra fólk, ef svo má segja, fólk eins og mig, sem ekki gat eða getur stært sig af mikilli og víðfemri þekkingu um alla mögulega hluti, fólk sem bjó og býr yfir heldur takmarkaðri þekkingu.

Og ég spyr aftur:

„Hvað með það? Hvað hefur það að segja?“

„Jú,“ segir guðleysinginn, „að fólk er tilbúið til að trúa nánast öllu til þess að sannfæra sig um og halda í þá sannfæringu að Guð sé til, og gerir það oftar en ekki þvert á það sem vísindi og þekking dagsins í dag leyfir eða gefur tilefni til.“

Látum liggja á milli hluta það sem vísindin segja eða eru talin segja. Það er umræða út af fyrir sig sem kemur því sem hér um ræðir ekki beint við.

Spyrjum heldur hvaða skilningur á Guði liggur á bak við þetta viðhorf, þ.e. að trú sé lítið annað en fáfræði og þekkingarskortur.

Hver sem hann er þá rímar hann að minnsta kosti ekki við kristna guðstrú.

Að líta svo á að Guð sé ekkert annað en uppfyllingarefni í takmarkaða þekkingu mannsins, að við bendum á Guð til þess að útskýra það sem við vitum ekki eða skiljum ekki, passar nefnilega engan veginn við þann skilning sem kristin trú hefur á Guði.

En margir halda þessu fram engu að síður.

Því er haldið fram að við finnum Guði stað þar sem vísindaleg útskýring er ekki fyrir hendi.

Og þá er nokkuð ljóst að eftir því sem vísindi útskýra meira verður minna pláss fyrir Guð.

Ekki kannast ég við þann Guð.

Enda ber slíkur skilningur ekki Guði kristinnar trúar vitni, eins og áður sagði, og á ekkert skylt við hann.

Guð kristinnar trúar er orsakavaldurinn, sá sem er á bak við tjöldin, ef svo má segja.

Hann er ástæða þess að vísindi eru möguleg yfirleitt.

Hann er á bak við það sem við vitum og það sem við vitum ekki. Hann er hinn persónulegi skapari sem skapaði alheiminn, setti honum lögmál sín og viðheldur tilvist hans.

Guð felur ekki í sér vísindalega útskýringu á því hvers vegna pláneturnar sem snúast í kringum sólina haldast á brautum sínum, eða hvers vegna kjarni atómins helst saman og á sínum stað.

En af hverju plánetur eru til sem snúast eftir föstum brautum, atóm, eða eitthvað yfirleitt sem unnt er að útskýra á vísindalegan hátt, það er allt önnur spurning, sem er handan sjálfra vísindanna.

Aðeins meira um óskhyggjuna.

Ýmsir líta svo á að guðstrú byggi ekki á öðru en yfirfærðri föðurímynd og sé ekkert annað en óskyggja til þess gerð að létta okkur lífið og hjálpa okkur að sættast við eigin hverfulleika.

Það var viðhorf Freuds, Feuerbachs, Marx og lærisveina þeirra.

En jafnvel þótt óskhyggja hefði eitthvað með það að gera hvers vegna fólk trúir á Guð (og ég neita alls ekki að óskhyggja hafi eitthvað að segja þegar kemur að trú og vantrú) þá segir það alls ekkert um sannleiksgildi guðstrúar.

Það er að segja hvort Guð sé í raun og veru til eða ekki.

Það segir í besta falli eitthvað um það hvernig fólk er sálfræðilega innstillt.

Fólk finnur trú (og vantrú) eftir margbreytilegum leiðum og þar getur margt spilað inn í og haft áhrif.

En þegar einhver telur sig geta ógilt guðstrú á þeirri forsendu að um óskhyggju sé að ræða þá verður hinn sami uppvís heldur bagalegri en algengri rökleysu.

Nefnilega þeirri að reyna að hrekja eða ógilda viðhorf á grundvelli þess hvernig það er tilkomið eða hvernig maður hefur tileinkað sér það.

Því annað hefur einfaldlega ekkert með hitt að gera í neinum röklegum skilningi.

Auðvitað má segja að ef Guð er ekki til þá útskýra Freud og co. ágætlega hvers vegna fólk trúir engu að síður á Guð.

En röksemdarfærsla sem byggir á óskyggju sem forsendu hefur ekkert að segja um það hvort Guð sé til eða ekki.

Til að svara þeirri spurningu þarf að horfa í aðrar áttir og spyrja annarra spurninga.

Þar að auki gengur röksemdafærslan sjálf í báðar áttir.

Á grundvelli hennar má með sama hætti halda því fram að guðleysi sé óskyggja, sem felst í einbeittum vilja að trúa ekki á Guð og vilja ekkert af honum vita.

Ef til vill er það hið raunverulega ópíum dagsins í dag.

En hvort heldur sem er þá snertir meint óskhyggja með engum hætti spurninguna um tilvist Guðs.

Flokkar: Guðleysi · Guðstrú

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur