Fimmtudagur 19.01.2017 - 17:17 - FB ummæli ()

Þú ert guðleysingi

Eða svo sagði maður nokkur sem ég spjallaði við á dögunum.

Samtalið snérist reyndar að litlu leyti um trúmál, meira um dægurmál.

En viðmælandi minn, sem er guðleysingi, sá ástæðu til að benda mér á að ég væri í raun guðleysingi. Ég bara gerði mér ekki grein fyrir því.

„Eini munurinn á okkur“, „sagði hann brosandi, er að guðleysi mitt útilokar einum fleiri guð en þitt guðleysi“.

Þetta minnti mig á ummæli Richard Dawkins:

„Við erum öll guðleysingjar þegar kemur flestum þeim guðum sem mannkynið hefur trúað á, t.d. Seif, Þór, Appolló og co. Ég geng bara einu skrefi lengra en þú í guðleysinu.“

Slík röfræði kann að hljóma gáfulega – og hún er merkilega algeng. En í raun og veru er hún lítið annað en innantómur frasi sem lítið vit er í.

Hvað er guðleysi? Hvað er guðstrú?

Hvað greinir þann sem aðhyllist guðleysi frá þeim sem aðhyllist guðstrú?

Guðleysingi er jú sá sem fellst á staðhæfinguna: Guð er ekki til.

Með öðrum orðum er guðleysingi sá sem hafnar tilvist Guðs eða yfirnáttúrulegum veruleika af nokkru tagi. Alheimurinn er tæmandi lýsing á því sem er til. Það er ekki til annar veruleiki.

En því hafna ég því.

Ég er á meðal þeirra sem telja að staðhæfingin: Guð er til, sé sönn og lýsi veruleikanum eins og hann er.

Með öðrum orðum tel ég ekki að alheimurinn sé tæmandi lýsing á því sem er til, heldur að til sé veruleiki handan hans – vera sem í senn er eilíf, óefnisleg, rýmislaus, ótrúlega máttug og persónulegur skapari  alheimsins sem viðheldur tilvist hans og er verki innan hans.

Ég er því ekki guðleysingi.

Í raun get ég ekki talist guðleysingi í neinum hefðbundnum og eðlilegum skilningi orðsins. Það er himinn og haf á milli minnar heimsmyndar og heimsmyndar guðleysingjans.

Heimsmynd mín er í raun andstæða guðlausrar heimsmyndar.

Í lokin sagði viðmælandi minn:

„Og þegar þú skilur hvers vegna þú hafnar öllum öðrum guðum en þínum eigin Guði þá skilurðu hvers vegna ég hafna þínum Guði.“

Lengra varð samtalið ekki.

Hvers vegna trúi ég ekki á Seif, Óðinn og alla hina?

Það eru ólíkar ástæður fyrir því.

Ekki síst sú að það eru einfaldlega ekki góðar ástæður til að ætla að þessir svokölluðu guðir séu til – hvorki á toppi Ólympusfjalls eða annars staðar.

Þar fyrir utan væru þessir guðir skapaður veruleiki, takmarkaðir og ófullkomnir – eins og sagt er frá í goðsögunum – og ekki ekki verðugir þess að vera tilbeðnir.

Slíkur guðsskilningur jafnast á engan hátt við þann guðsskilning sem klassísk guðstrú (þeismi) felur í sér, sem hefur verið útskýrður og varinn af mörgum stærstu hugsuðum sögunnar, allt frá Plató til Plantinga.

Sá sem heldur því fram að Guð, eins og Guð er skilinn innan klassískrar guðstrúar, sé bara eitt af mörgum máttugum fyrirbærum sem maðurinn hefur tilbeðið í gegnum söguna – og hafnar tilvist Guðs á þeim forsendum – hefur ekki sagt margt sem mark er á takandi, og raunar farið á mis við það hver Guð er og hvernig hann er skilinn, meðal annars af kristnu fólki.

Nefnilega að Guð er ekki ein vera við hlið annarra.

Nei, Guð er sjálfur grundvöllur tilverunnar, orsök alls annars sem til er.

Tilvist Guðs er nauðsynleg.

Hann er fullkominn og ótakmarkaður og á ekki tilvist sína undir neinu öðru komið.

Allt annað sem er til er til hans vegna, vegna þess að hann skapaði það og viðheldur tilvist þess.

Að slíkur Guð sé til má færa sannfærandi rök fyrir, að mínu mati.

Að líkja Guði við Óðinn, Þór, Seif eða aðra slíka felur í ekki sér röksemdafærslu sem hafa þarf áhyggjur af – í öllu falli ekki fyrir þann sem hefur viðeigandi og ígrundaðan skilning á Guði.

Slíkur skilningur ber vitni um lítinn áhuga á raunverulegu samtali, þar sem byggt er á þekkingu og einlægum vilja til að skilja ólíkar skoðanir og komast að hinu sanna.

Flokkar: Guðleysi · Guðstrú

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur