Fimmtudagur 02.03.2017 - 09:58 - FB ummæli ()

Sannleikur, sannfæring og þröngsýni

Fyrir ekki löngu síðan fékk ég ákúrur fyrir að vera ákaflega þröngsýnn og dómharður maður.

Ástæðan, að mati viðmælanda míns (sem var guðleysingi), var sú að ég lít svo á að kristin trú er sönn.

Með því felldi ég ómaklegan og óréttlátan dóm yfir öllum og öllu sem ekki er kristið.

Ekki tel ég mig þó vera sérstaklega þekktan fyrir dómhörku eða þröngsýni, þótt ég segi sjálfur frá.

Hitt viðurkenni ég að ég hef, eins og allir aðrir, átt slæma daga þar sem ég hef gerst sekur um sleggjudóma.

En ég uni öllum því að hafa sína skoðanir og vera frjálst að sannfæringu sinni – enda þótt ég áskilji mér þann rétt að vera öðrum ósammála, þegar svo ber undir, og láta það jafnvel í ljós, með málefnalegum hætti þó og með virðingu að leiðarljósi.

En fólk getur vissulega verið þröngsýnt og dómhart í orði og verki.

Það getur komið illa fram, litið niður á aðra og meitt annað fólk vegna skoðana sinna.

Og sú hætta er alltaf fyrir hendi að trú og sannfæring leiði til óbilgirni og óþols í garð þeirra sem eru annarrar skoðunar, og verði jafnvel að hatri sem snýst upp í ofsóknir og ofbeldi.

Við eigum því miður alltof mörg og sorgleg dæmi þess í sögunni.

En það eitt að búa yfir sannfæringu, sem gengur gegn sannfæringu annarra, og tala jafnvel fyrir eigin sannfæringu, eða gegn sannfæringu annarra, verður sem slíkt ekki lagt að jöfnu við þröngsýni – hversu mjög sem tíðarandinn reynir að sannfæra okkur um annað.

Þótt sannleikshugtakið sé víða hornreka í dag og njóti lítils sannmælis breytir það ekki því að eðli sínu samkvæmt er sannleikurinn útilokandi.

Því ef eitthvað er raunverulega satt, ef það lýsir og fellur að veruleikanum eins og hann er, þá er allt það sem gengur gegn því, eða er ekki í samræmi við það, einfaldlega ósatt.

Ef tveir plús tveir eru fjórir, þá eru öll svör önnur en fjórir einfaldlega röng svör og ósönn. Vissulega eru til svör sem nálgast það að vera hið rétta. En engu að síður er bara til eitt svar sem er hið rétta.

Það er eðli sannleikans.

Og í þeim skilningi er sannleikurinn vissulega þröngur.

En það gerir ekki sannleikann þröngsýnan í hefðbundnum skilningi þess orðs.

Sannleikurinn er einfaldlega bara sannleikur.

Og það eitt og sér að halda fram sannleikanum, eða því sem maður telur vera satt, gerir mann ekki sjálfkrafa þröngsýnan.

En ef það er raunverulega þröngsýni og dómharka fólgin í því að telja kristna trú sanna, eins og vimælandi minn staðfastlega hélt fram, þá hlýtur það einnig að eiga við þegar hinu gagnstæða er haldið fram, þ.e.a.s. að kristin trú sé ekki sönn.

Það felur því ekki í sér meiri þröngsýni, ef maður vill leggja málið fram með þeim hætti, að staðhæfa að ein trúarbrögð séu sönn, heldur en að staðhæfa að þín skoðun og skilningur (t.d. viðmælanda míns) á öllum trúarbrögðum sé réttur og sannur.

Burtséð frá því er raunin sú að trúarbrögð eru ekki öll hin sömu.

Öll trúarbrögð benda ekki til Guðs. Öll trúarbrögð segja ekki að öll trúarbrögð séu hin sömu eða jafngild. Og þau geta ekki öll verið sönn því þau innihalda mótsagnakenndar staðhæfingar og fela í sér mótsagnakenndan skilning á lífinu og tilverunni.

Í kjarna allra trúarbragða eða lífsskoðana (þar á meðal guðleysis) er fólgin skuldbinding sem ekki verður hvikað frá, skuldbinding gagnvart tiltekinni skilgreiningu á því hver Guð er, og með hliðsjón af því, hvert eðli og tilgangur lífsins er.

En þegar um er að ræða hverju kristið fólk trúir eða trúir ekki, eins og ég nefndi við viðmælanda minn, þá komst C.S. Lewis ágætlega að orði að mínu mati.

„Kristið fólk,“ sagði Lewis, „þarf ekki að líta svo á að öll önnur trúarbrögð séu einfaldlega röng frá upphafi til enda. En ef þú ert guðleysingi verður þú að líta svo á að öll trúarbrögð heimsins séu í grundvallaratriðum ein stór mistök. Ef þú ert kristinn þá ertu frjáls að því að líta svo á að öll þessi trúarbrögð, jafnvel hin skrýtnustu, geymi að minnsta kosti einhvern vott af sannleika. Þegar ég var guðleysingi varð ég að reyna að sannfæra sjálfan mig um að stærsti hluti mannkynsins hefði alltaf haft á röngu að standa varðandi þá spurningu sem skipti hann mestu máli. Þegar ég gerðist kristinn gat ég leyft mér öllu frjálslyndari skoðun. En það að vera kristinnar trúar felur samt vitanlega í sér að líta svo á, að þar sem skilur á milli kristinnar trúar og annarra trúarbragða, þá hafi kristin trú á réttu að standa. Rétt eins og í samlagningu, þar sem aðeins eitt svar er í boði og öll önnur svör eru röng, enda þótt sum hinna röngu svara eru nærri því að vera rétt en önnur.“

Ekki þótti viðmælanda mínum þó mikið vit í þessu.

Flokkar: C.S. Lewis · Sannleikur · Trúarbrögð

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur