Miðvikudagur 14.06.2017 - 16:07 - FB ummæli ()

Ekkert um ekkert frá engu til einskis

Ég trúi á Guð föður almáttugan, skapara himins og jarðar!

Þannig hefst hin kristna trúarjátning.

Guð talar og allt verður til!

Að alheimurinn og allt sem í honum er fólgið sé skapað af Guði er grundvallandi hluti kristinnar trúar og játningar.

Kristin trú er í eðli sínu þakkargjörð frammi fyrir Skaparanum og sköpun hans.

Þakklæti, virðing og auðmýkt frammi fyrir lífinu og helgi þess, umhyggja fyrir öllu sem lifir, andar, vex og dafnar, er eðlileg afleiðing af þeirri sannfæringu og trú að til er góður Guð sem allt hefur skapað og viðheldur öllu á hverri stundu.

Spámaðurinn Nehemía dregur sköpunartrú Biblíunnar saman í eftirfarandi orðum:

Þú ert Drottinn, þú einn.
Þú hefur gert himininn,
Þú ert Drottinn, þú einn.
Þú hefur gert himininn,
himin himinsins og allan hans her,
jörðina og allt sem á henni er,
höfin og allt sem í þeim er. Þú fyllir þau öll lífi
og himinsins her sýnir þér lotningu. (Neh 6.9)

Að Guð orsakaði, eða skapaði, alheiminn – tíma, rúm, efni og orku – úr engu, er strangt til tekið ofar skilningi okkar. En það þýðir ekki að við getum ekki komið orðum að því með skynsamlegum hætti.

Allt í tíma og rúmi á sér upphaf!

Ég á mér upphaf. Þú átt þér upphaf. Eitt sinn vorum við ekki til.

Húsið sem ég bý í á sér upphaf. Það sama á við um trén í garðinum mínum. Eitt sinn voru þau ekki til.

Jörðin sem við búum á hefur ekki alltaf verið til.

Hvað gæti verið augljósara en það?

Við erum umkringd af hlutum og fólki sem á sér upphaf og hefur ekki alltaf verið til.

En þýðir það ekki að allt sem er til hljóti að eiga sér upphaf?

Það hljómar óneitanlega skynsamlega.

En sú niðurstaða væri í hæsta lagi óskynsamleg. Hún mundi gera út um trúna, vísindin líka og sjálfa skynsemina.

Hvers vegna?

Vegna þess að það er röklega og vísindalega óhugsandi að allt sem er til eigi sér upphaf.

Ha?!

Jú, því ef allt sem er til átti sér upphaf, þá hlýtur svo að vera að eitt sinn hafi ekkert verið til.

Veltu því fyrir þér.

Reyndu að ímynda þér að ekkert sé til. Bókstaflega ekki neitt.

Það er eiginlega vonlaust.

En ef það var raunverulega einhvern tíma svo að ekkert var til, hvað ætti þá að vera til í dag?

Já, að sjálfsögðu. Ekkert!

Enginn skapaður hlutur! Bókstaflega ekki neitt!

Ef það var einhvern tíma svo að ekkert var til þá væri það einfaldlega alltaf svo. Sú ályktun er röklega óhjákvæmileg. Það væri ekki einu sinni til alltaf þegar hið svokallaða ekkert var til.

Hvernig getum við verið svona viss um að það?

Að ef ekkert var einhvern tíma til þá væri ekkert til núna?

Þótt ýmsu afar vel gefnu fólki geti sést yfir það er svarið einstaklega einfalt.

Af engu kemur ekkert!

Það sem ekkert er getur ekki leitt til nokkurs. Það getur ekkert gert því það einfaldlega er ekki neitt. Það hefur enga eiginleika og enga getu til nokkurs.

Það er ekki til!

Að segja að eitthvað geti orðið til af engu er það sama og að segja að það geti skapað sig sjálft. En það er jú fráleitt því þá þyrfti það að hafa verið til áður en það varð til. Það þarf samtímis að hafa verið til og ekki verið til.

Og það er röklega óhugsandi.

Þú gætir rétt eins reynt að búa til ferhyrndan hring.

Ef við vitum eitthvað þá vitum við að ef eitthvað er til núna þá er til eitthvað sem alltaf hefur verið til.

Eitthvað sem á sér ekki upphaf.

En hvað?!

Já, það er nú það!

Sú spurning skilur á milli ólíkra lífsskoðanna.

Burtséð frá því hlýtur það að vera eitthvað sem aldrei varð til, eitthvað sem á sér ekki upphaf.

Eitthvað sem er til utan og ofan við alheiminn, eitthvað sem á ekki tilvist sína öðru að þakka, og er jafnframt ástæða þess að allt annað er til.

Eitthvað sem er ekki skapað en hefur skapað allt annað.

Mörgum þykir G-orðið ekki hjálplegt í þessu samhengi. En því verður vart neitað að það er hugtak sem á einstaklega vel við þegar um þetta er að ræða.

Fyrsta staðhæfing Biblíunnar: Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð, er grundvallandi fyrir alla kristna hugsun og skilning á lífinu og tilverunni.

Þar er ekki einungis um trúarlega staðhæfingu að ræða heldur mjög svo skynsamlega ályktun sem fellur að þekkingu okkar á og upplifun okkar af lífinu.

Flokkar: Guð · Heimsfræðirök · Heimspeki · Sköpun · Skynsemi · Tilvist Guðs

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur