Laugardagur 12.08.2017 - 20:50 - FB ummæli ()

Að gera hreint fyrir guðleysisdyrum sínum

Í áhugaverðri færslu á fasbókarsíðu sinni frá 8. ágúst sl. gerir frændi minn Gísli Gunnarsson, fv. prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, “hreint fyrir guðleysisdyrum [sínum]”. Ástæða þess mun vera uppnám einhverra innan Siðmenntar (þar sem Gísli er meðlimur) yfir umræðu sem Gísli efndi til á fasbókarsíðu sinni með því að vísa þar til afar áhugaverðra en gagnrýninna greina um hið sk. ný-guðleysi.

Gísli áréttar að hann sé “mikill mónisti” og afneiti sem slíkur tilvist hins yfirnáttúrulega; ólíkt dúalistum sem skipti tilverunni í náttúrulegt og yfirnáttúrulegt. Gísli segir einnig í færslu sinni að “ekki eigi að blanda saman umræðu um trú og vísindi. Þeir sem eru dúalistar þurfa engin vísindi til að sanna trú sína. Þeir bara trúa.” Þá staðhæfir Gísli að því öflugri sem vísindin verða, þeim mun færri verða trúaðir.

Vafalaust er ýmsir sammála Gísla og hans málflutningi. Burtséð frá því er hér ýmislegt áhugavert sagt sem vert er að hugleiða.

Til eru fleiri tegundir af einhyggju (mónisma = það viðhorf að veruleikinn sé einn og óskiptur) en guðleysi. Algyðistrú (panþeismi) er í eðli sínu viss einhyggja. Í guðlausu samhengi er náttúruhyggja algengasta (og að mínu mati lífvænlegasta) tegundin af einhyggju sem í boði er. Náttúruhyggja er það viðhorf að hinn náttúrulegi veruleiki tíma, rúms, efnis og orku sé tæmandi lýsing á því sem er til.

En hvað er átt við með því að ekki eigi að blanda saman umræðu um trú og vísindi? Hvers vegna má ekki ræða trú og vísindi í sömu andrá? Að hvaða leyti á ekki að gera það?

Þeir sem tala á þessum nótum aðhyllast gjarnan vísindahyggju í einni eða annarri mynd þar sem litið er svo á að engu beri að trúa öðru en því sem unnt er að sannreyna í krafti vísinda. Fáir fræðimenn aðhyllast þó slíkt viðhorf í dag, enda löngu búið að sýna fram á brotalamir þess og mótsögnina sem í því er fólgin. (Sú staðhæfing að ekki beri að trúa öðru en því sem er vísindalega sannreynanlegt er ekki staðhæfing sem hægt að sannreyna í krafti vísinda!) Ekki ætla ég hugvísindamanninum frænda mínum slíkt viðhorf, sem vitanlega mundi gjaldfella með öllu hans eigið fræðasvið. En hvað hann á nákvæmlega við er ekki gott að segja.

Ef ekki má ræða um trú og vísindi í sömu andrá, eða blanda þessu tvennu saman (hvað sem það merkir), þá er eins gott að guðleysinginn leggi af allt tal um guðleysi í vísindalegu samhengi og fari ekki að blanda því saman. Nú efast ég um að allir guðleysingjar mundu fallast á það, hvað þá heldur að guðleysi sé í eðli sínu trú. Það er í góðu lagi. Þeim er það fullkomlega heimilt. En aðrir eru vitaskuld ekki bundnir af viðhorfi þeirra.

En hverju svo sem guðleysinginn annars trúir er víst að hann “trúir” því að Guð (hið yfirnáttúrulega) er ekki til. Guðleysi er lífsskoðun sem hefur þá staðhæfingu að frumforsendu. En sú sannfæring verður hvorki sönnuð né afsönnuð í krafti vísinda vegna þess að um er að ræða frumspekilega staðhæfingu, ekki vísindalega. Eins og margir íhugulir og heiðarlegir vísindamenn hafa bent á hafa vísindi einfaldlega ekkert að segja um tilvist Guðs á hvorn veginn sem er. Vísindi eru takmörkuð af hinum efnislega veruleika. En ef Guð er til þá er hann skapari alls hins efnislega veruleika og allra þeirra lögmála sem hann lýtur og er þar með handan þess sem vísindi geta náð til eða sagt nokkuð um.

Hitt ber þó að sjálfsögðu að ræða hvort styðja megi guðleysi sem slíkt skynsamlegum rökum og jafnvel betri rökum en guðstrú. Það er annar angi af umræðunni og afar mikilvægur.

Þó hér skipti máli hvað átt er við með orðinu sönnun (Gísli segir ekkert um það) er ég sammála því að “dúalistar [þeir sem trúa á Guð] þurfa engin vísindi til að sanna trú sína”. Ég velti því fyrir mér hvort hið sama eigi við um mónistann eða guðleysingjann að mati frænda míns.
En þó ég þurfi ekki að réttlæta trú mína í krafti vísinda til að geta trúað innan skynsamlegra marka þýðir það ekki að ég “bara trúi”. Slíkt viðhorf til guðstrúar er afar einfalt og ristir heldur grunnt. Að mínu mati má færa margvísleg og góð rök fyrir tilvist Guðs. Það sama á ekki við um guðleysi. Sannfæring mín um tilvist Guðs er í engum skilningi blind eða vanhugsuð eða úr tengslum við skynsamlega hugsun eða almenna þekkingu og reynslu af lífinu. Trú í réttum skilningi er fólgin í trausti til þess sem við teljum okkur hafa ástæðu til að ætla að sé satt. Og slík trú er ekki einskorðuð við guðstrú.

En þýðir þetta að engan snertiflöt sé að finna á milli vísinda og guðstrúar? Nei, alls ekki. Finna má ýmsa snertifleti. Einn slíkur er fólginn í því þegar vísindaleg þekking réttlætir eða styður forsendu í heimspekilegri röksemdafærslu sem leiðir til niðurstöðu sem hefur trúarlega þýðingu.

Dæmi um slíka röksemdafærslu væri eftirfarandi:

(1) Allt sem verður til á sér orsök.
(2) Alheimurin varð til.
(3) Þar af leiðandi á alheimurinn sér orsök.

Fyrir fáeinum árum flutti hinn virti eðlisfræðingur og heimsfræðingur Alexander Vilenkin erindi á ráðstefnu í tilefni af 70 ára afmæli Stephen Hawking. Í erindinu, sem ber titilinn “Hvers vegna eðlisfræðingar geta ekki vikið sér undan sköpunaratburði”, fór Vilenkin yfir stöðu mála innan heimsfræðinnar og gerði grein fyrir ólíkum kenningum um uppruna alheimsins. Í lokin kvað hann upp sinn dóm og sagði undanbragðalaust og skýrt að “öll gögn og athuganir segi að alheimurinn eigi sér upphaf”. Með öðrum orðum sé einfaldlega engu til að dreifa sem bendi til annars. Það er því einróma vitnisburður vísinda, að mati Vilenkin, að alheimurinn hafi ekki alltaf verið til heldur eigi sér skýrt upphaf.

Um aldir var það aðeins kristið fólk, og gyðingar á undan því, sem hélt því fram að alheimurinn ætti sér upphaf (sbr. 1Mós 1.1). Í gegnum aldirnar þróuðu ýmsir heimspekingar afar sannfærandi rök fyrir þeirri ályktun. Það var hins vegar fyrst í upphafi 20. aldarinnar með tilkomu afstæðiskenningarinnar að vísindi, sem fram að því höfðu verið undir áhrifum aristótelískrar hugsunar um eilífa alheim, staðfesti þessa frumforsendu biblílegrar trúar.

Vísindaleg þekking er því ekki sérlega hliðholl guðleysingjanum eða mónistanum. Upphaf alheimsins bendir eindregið til þess að einhyggja (náttúruhyggja/guðleysi) sé ósönn og gefi þar af leiðindi ekki rétta mynd af veruleikanum. Þvert á móti er til annarskonar veruleiki, handan tíma, rúms, efnis og orku, yfirnáttúrulegur veruleiki, skapari, sem er orsök þess að alheimurinn varð til. Enda verður ekkert til af engu.

Niðurstöðuna, að alheimurinn eigi sér orsök, leiðir óhjákvæmilega af forsendunum tveimur. Guðleysinginn getur vitaskuld vikið sér undan niðurstöðunni með því að hafna annarri eða báðum forsendunum. Spurningin er með hvaða hætti hann réttlætir það skref. Stephen Hawking hafnar niðurstöðunni á þeirri forsendu að alheimurinn hafi skapað sjálfan sig. Það er merkileg niðurstaða sem minnir á að bull er eftir sem áður bull enda þótt það komi frá einum merkasta vísindamanni sögunnar.

Vísindi eru sannarlega öflug á sinn hátt þrátt fyrir augljósar takmarkanir. Þau hafa leitt okkur fyrir sjónir stórfenglegan alheim. Ekki treysti ég mér til að alhæfa um áhrif aukinnar vísindalegrar þekkingar á trú fólks eða vantrú. Það eru ekki aðeins vísindi sem hreyfa við fólki og hafa áhrif á trúarleg viðhorf þess. Þar koma ýmsir aðrir þættir til sögunnar sem ekki má vanmeta. En hitt veit ég fyrir víst að nútíma vísindaþekking á uppruna og eðli alheimsins hefur sannfært marga, ekki síst vísindamenn, um tilvist skapara. Burtséð frá því er ljóst að það að kunna skil á því hvernig alheimurinn er samansettur og hvernig hann virkar útilokar á engan hátt tilvist orsakavalds sem skapaði alheiminn. Þvert á móti reynist það mörgu auðveldara að dást að snilli og hugvitsemi Guðs með aukinni þekkingu á eðli og innviðum alheimsins sem hann skapaði.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur