Trú og tilvist Guðs er umræðuefni sem hreyfir við mörgum, ekki síður þeim sem trúa að Guð sé ekki til. Í nýlegri grein sem birtist á Stundinni, Topp fimm ástæður fyrir því að trúa á tilvist Guðs, fór ég nokkrum orðum um grein Snæbjörns Ragnarssonar, Topp 5 ástæður fyrir því að við verðum að kljúfa Þjóðkirkjuna frá ríkinu. Í grein minni ræddi ég einkum síðustu ástæðuna sem Snæbjörn tilgreindi – þá að Guð sé ekki til. Lagði ég fram nokkrar röksemdarfærslur af heimspekilegum toga sem byggja á forsendum sem sóttar eru í þekkingu okkar á lífinu sem og reynslu okkar og upplifun af því og leiða til niðurstöðu sem bendir til þess að Guð sé til. Þó ekki sé um sannanir að ræða í vísindalegum skilningi þá er um að ræða gildar og áleitnar röksemdarfærslur sem margir af stærstu hugsuðum sögunnar hafa aðhyllst og staðið vörð um, allt frá dögum hinna forngrísku heimspekinga til margra þekktustu heimspekinga og vísindamanna dagsins í dag.
Ýmsar áhugaverðar athugasemdir voru lagðar fram við greininni sem vert er að skoða enda gefa þær tilefni til þess að bæta ýmsu við sem ekki var pláss fyrir í greininni sjálfri. Ég þakka fyrir þær og leyfi mér að svara nokkrum af þeim hér.
„Guð er vissulega til, en það er talsvert mikil fullyrðing að segja að hann eigi sér tilvist utan hugar hins trúaða. Tilvist Guðs „í raunheimum“ er með öllu ósannanleg og í hugum margra svo verulega ólíkleg að þarf talsvert meira en margtuggin rök guðfræðingsins. En ég giska á að hann hljómi sannfærandi í huga þeirra sem trúa, því fátt vantar trúuðum meira en réttlætingu trúar sinnar. Og auðvitað breytir skoðun trúaðra á tilvist Guðs engu um aðskilnað ríkis og kirkju, enda eru trúaðir í miklum minnihluta eins og fjölmargar kannanir sýna, og Þjóðkirkjan er á góðri leið með að gera sjálfa sig að jaðarfyrirbæri.“
Hér veltur mikið á því hvað átt er við með orðinu ósannanleg. Vissulega er tilvist Guðs ósannanleg ef sönnun er lögð að jöfnu við hundrað prósent vissu. En það er ekki áhyggjuefni, því slíkur þekkingarfræðilegur mælikvarði er ónothæfur. Nánast ekkert sem við teljum okkur vita er unnt að vita upp að því marki. Það er eingöngu á sviði stærfræði og rökfræði sem tala má um sannanir í slíkri merkingu. En til að röksemdarfærsla sé góð og sannfærandi þarf niðurstaðan alls ekki að vera hundrað prósent örugg heldur líklegri en andstæða hennar. Ef ósannanleg þýðir að ekki séu til gild rök sem benda til þess að Guð sé til þá er einfaldlega gengið út frá því fyrirfram og það án réttlætingar eða tilraunar til að rökstyðja þá fullyrðingu. Í raun virðist ofangreind athugasemd ekki fólgin í öðru en persónulegri sannfæringu guðleysingjans. Engin tilraun er gerð til að hrekja rök fyrir tilvist Guðs eða leggja fram rök gegn tilvist hans.
Hvað varðar þá staðhæfingu að trúað fólk sé mikill minnihlutahópur má velta vöngum yfir samanburðinum. Nýleg alþjóðleg könnun (sjá Oxford Handbook of Atheism) áætlar að fjöldi guðleysingja sé um 7% af fólksfjölda heimsins (og eru börn þá undanskilin). Samkvæmt nýlegri könnun Siðmenntar játa rétt tæplega 70% Íslendinga kristna trú. Samkvæmt sömu könnun trúa 61% aðspurðra á Guð. Þetta eru út af fyrir sig áhugaverðar tölur, og til eru ýmsar trúarlífskannanir sem áhugavert er að skoða. En niðurstöður kannana hafa ekkert með tilvist Guðs að gera. Jafnvel þótt hvert mannsbarn tryði á Guð þá þýddi það ekki að Guð væri til. Hið sama á við ef heimsbyggðin væri full af guðleysingjum. Það mundi ekki þýða að Guð væri ekki til.
„Hvaða guð? Það gleymdist að taka það fram.“ og „ … ef yfirnáttúrulegur veruleiki er eina svarið sem þú kemur auga á, af hverju þá Guð, af hverju ekki Fljúgandi Spagettískrímslið?“
Já, af hverju Guð? Guð er yfirnáttúrulegur veruleiki samkvæmt öllum hefðbundnum og eðlilegum skilningi á því hugtaki. Hugtakið Guð gæti ekki í nokkrum skilningi náð yfir náttúrulegan eða efnislegan veruleika af nokkru tagi.
Hvaða Guð? Þær röksemdafærslur sem ég lagði fram leiða í sameiningu líkum að því að til er yfirnáttúrulegur veruleiki handan tíma, rúms, efnis og orku sem ekki er orsakaður af neinu öðru heldur er til af hreinni nauðsyn, og er eilífur, rýmislaus, óefnislegur, óbreytanlegur og ótrúlega máttugur og persónulegur skapari alls annars, höfundur og hönnuður lífsins og grundvöllur og uppspretta algildra siðferðisboða og gilda.
Með þetta í huga gildir vitanlega einu hvaða heiti við gefum þessum veruleika. Ef einhver vill kalla hann fljúgandi spagettískrímsli fremur en Guð er það mér að meinalausu. En vandasamt er að sjá í hvaða skilningi slíkt viðhorf gæti flokkast undir guðleysi. Það væri afar undarlegt guðleysi í öllu falli.
Röksemdafærslurnar draga með öðrum orðum upp nokkuð almenna guðsmynd sem eingyðistrúarbrögð heimsins eiga sameiginlega. Til er Guð sem er orsök og grundvöllur alls veruleika utan sjálfs síns. Þó ekki sé hér um hinn þríeina Guð kristinnar trúar að ræða fellur ofangreind guðsmynd vissulega undir skilning Biblíunnar á Guði, þótt ýmislegt fleira sé sagt þar um Guð og eðli hans.
„Þörfin er að hafa einhvern annann til að kenna um það sem miður fer.“
Hér er látið að því liggja að trúin á Guð sé fólgin í einhverskonar sálfræðilegri þörf af einum eða öðrum toga. Margir hafa útskýrt þörf mannsins til að trúa á Guð eftir þeim leiðum og fara þar að dæmi Freuds og fleiri. Trú sé ekkert annað en óskhyggja til þess að létta okkur lífið og hjálpa okkur að sættast við eigin hverfulleika og erfiðleika í lífinu, eða eitthvað slíkt.
Og hvað ef svo er? Hvaða ályktanir drögum við af því? Að Guð sé ekki til? Að það sé óhugsandi að Guð sé til? Ef það er niðurstaðan þá er einfaldlega ekkert röklegt samhengi á milli hennar og forsendanna sem gengið er út frá. Og jafnvel þótt óskhyggja hefði eitthvað með það að gera hvers vegna fólk trúir á Guð (og ég neita því alls ekki að óskhyggja hafi eitthvað að segja þegar kemur að trú og vantrú) þá segir það alls ekkert um tilvist Guðs á hvorn veginn sem er. Það segir í besta falli eitthvað um það hvernig fólk er sálfræðilega innréttað.
Fólk finnur trú (og vantrú) eftir margbreytilegum leiðum og þar spilar margt inn í og hefur áhrif. En ef einhver telur sig geta ógilt guðstrú á þeirri forsendu að um óskhyggju sé að ræða eða einhverskonar sálfræðilega þörf af einum eða öðrum toga þá verður hinn sami uppvís að heldur bagalegri en algengri rökleysu. Nefnilega þeirri að reyna að hrekja eða ógilda viðhorf eða trú á grundvelli þess hvernig hún er tilkomin eða hvernig maður hefur tileinkað sér hana. Vandinn er að annað hefur einfaldlega ekkert með hitt að gera í neinum röklegum skilningi.
„… ef tilvist alheimsins útheimtir skapara, handan tíma og rúms, þarfnast tilvist slíkrar veru ekki útskýringar?“
Nei, svo er ekki! Á bak við þessa athugasemd er hin gamalgróna spurning Hver skapaði Guð. Hún byggir hins vegar á misskilningi. Heimsfræðirökin ganga ekki út frá því að allt sem til er eigi sér orsök og kalli þar af leiðandi á útskýringu. Eingöngu það sem verður til, þ.e. á sér upphaf, á sér orsök. Guð varð hins vegar aldrei til. Hann er ekki orsakaður af einhverju öðru og á sér því ekki upphaf. Hann er til af nauðsyn, sem þýðir að hann getur ekki átt sér orsök. Spurningin hver skapaði eða orsakaði Guð á því ekki við og er í raun merkingarlaus. Við gætum allt eins spurt hversu þung a moll nóta er. Spurningin um orsök á bara við um það sem á sér upphaf og er því orsakanlegt. Í ljósi þess að alheimurinn er ekki eilífur er fyllilega eðlilegt og viðeigandi að spyrja hver orsakaði eða skapaði alheiminn. En sú spurning á ekki við þegar Guð er annars vegar.
Við þetta má bæta að til þess að fallast á tiltekna útskýringu er alls ekki nauðsynlegt að geta útskýrt útskýringuna. Augnabliks íhugun sýnir það. Það er fyllilega eðlilegt og skynsamlegt að útskýra ævaforna leirmuni sem finnast í jörðu með því að vísa til einhvers hóps af fólki sem bjó þá til og notaði, enda þótt við vitum að öðru leyti ekkert um það fólk og getum með engu móti útskýrt veru þeirra og tilvist. Sú fullkomnunarárátta að hafna útskýringu nema hægt sé að útskýra sjálfa útskýringuna mundi gera það að verkum að ekkert yrði nokkurn tíma útskýrt. Það mundi líka gera út um vísindi.
„Ég held að þú og mjög margir misskiljið trúleysi, ég trúi ekki á guð, vegna þess að það er ekkert sem gefur tilefni til þess að trúa á guð … “
Já, þannig taka margir til orða í dag og fara þar að dæmi guðleysingja á borð við Richard Dawkins og fleiri. Með öðrum orðum er ég ekki guðleysingi af því að ég hafna því að Guð sé til heldur vegna þess að ekkert bendir að mínu mati til þess að Guð sé til. (Ég geng út frá því að með trúleysi sé átt við guðleysi.)
En með því er hin hefðbundnu merkingu hugtaksins guðleysi augljóslega skilgreind á nýjan hátt.
Það er vissulega röklegur munur á því segja „Ég trúi að Guð sé ekki til“ annars vegar og „Ég trúi ekki á Guð“ (af því að ekkert bendir til að hann sé til o.s.frv.) hins vegar. En misskilningurinn liggur að mínu mati hjá þeim sem kallar síðarnefnda viðhorfið guðleysi. Í réttri og hefðbundinni merkingu er guðleysi fólgið í því viðhorfi að Guð sé ekki til. Það felur ekki í sér vöntun á öðru viðhorfi, nefnilega því að trúa á Guð. Guðleysingi er sá sem fellst á þá staðhæfingu að Guð sé ekki til. Guðleysingi er í réttum skilningi sá sem hafnar því að Guð sé til. Með það í huga er síðarnefnda viðhorfið – Ég trúi ekki á Guð – ekki eiginlegt viðhorf sem er annað hvort rétt eða rangt, heldur miklu fremur lýsing á sálfræðilegu eða persónulegu hugarástandi viðkomandi, eins gott og gilt sem það annars er.
Eins og athugasemdin ber með sér halda margir guðleysingjar því fram að á meðan engar „sannanir“ liggi fyrir sem sýni fram á tilvist Guðs (og hvað telst til sannana er oftar en ekki þeirra að ákveða) þá sé eðlilegt að ganga út frá því að Guð sé ekki til. Í þeim skilningi er guðleysi nokkurskonar sjálfvirk eða sjálfgefin afstaða, og það er eingöngu hinn trúaði sem ber „sönnunarbyrðina“. Það er hans að sanna eða sýna fram á að Guð sé til. Þangað til er guðleysinginn sjálfur stikkfrír. En það er augljós misskilningur, því sá sem staðhæfir „Guð er ekki til“ gerir jafnmikið tilkall til þess að vita eitthvað og sá sem staðhæfir „Guð er til“. Guðleysinginn ber því sína eigin byrði þegar kemur að því að réttlæta þá staðhæfingu að Guð sé ekki til. Sá eini sem ekki þarf að réttlæta neitt er efahyggjumaðurinn sem segir „Ég veit ekki. Ég trúi ekki á Guð. Guð gæti verið til eða hann gæti ekki verið til. Ég hreinlega veit það ekki. Og þess vegna trúi ég ekki á Guð.“ Nú er ekkert athugavert við heiðarlega efahyggju, en betra er að kalla hlutina réttum nöfnum.
En í þessu ljósi verður kannski skiljanlegt hvers vegna mörgum guðleysingjum er í mun að þynna út viðhorf sitt og endurskilgreina það með þessum hætti. Ef litið er á guðleysi sem eiginlegt viðhorf, nefnilega það viðhorf að Guð sé ekki til, þá hljóta þeir að þurfa leggja fram rök sem réttlæta það. Vissulega gera sumir tilraun til þess, en margir gangast við því að ekki sé unnt að sanna að Guð sé ekki til. Af þeim sökum endurskilgreina þeir guðleysi og segja það einungis fólgið í því að „trú[a] ekki á guð, vegna þess að það er ekkert sem gefur tilefni til þess að trúa á guð … “ En slíkt viðhorf er ekki guðleysi í hefðbundnum skilningi. Í því er misskilningurinn fólginn.
„Áhugaverð grein þar sem forsendur fyrir röksemdarfærslum eru þó valdar eftir hentugleika höfundar. Þegar tilvist guðs er rökstudd með heimspekilegum vangaveltum má benda á að þetta fyrirbæri einkennist einnig af illsku, vanmætti og skeytingaleysi. Ýmist getur það ekki komið í veg fyrir þjáningar sköpunarverka sinna, stendur á sama um þær eða vill viðhalda þeim.“
Ekki veit ég hvað átt er við þegar sagt er að forsendur röksemdafærslanna séu valdar eftir hentugleika, eða hvaða þýðingu það á að hafa þegar kemur að gildi þeirra og niðurstöðu. Þær röksemdafærslur sem ég lagði fram eru svokallaðar aðleiðslur. Aðleiðsla er röksemdarfærsla sem leiðir óhjákvæmilega til sannrar niðurstöðu að því gefnu að forsendurnar eru sannar og reglum rökfræðinnar er fylgt. Með öðrum orðum getur niðurstaða aðleiðslu ekki verið ósönn ef forsendur hennar eru sannar. Hverjar eða hvaðan forsendurnar koma hefur ekkert að segja í því samhengi og hefur enga þýðingu. Dæmi um aðleiðslu er þessi útgáfa af heimsfræðirökunum:
(1) Allt sem verður til á sér orsök.
(2) Alheimurinn varð til.
(3) Alheimurinn á sér orsök.
Hér leiðir niðurstöðuna óhjákvæmilega og röklega af forsendunum. Og að því gefnu að forsendurnar eru sannar (óháð því hvaðan þær koma) getur niðurstaðan ekki verið ósönn.
Hvað seinni hluta athugasemdarinnar varðar þá verðskuldar hann mun lengra svar en unnt er að veita hér, enda þar um gríðarlega mikilvæga og vandmeðfarna spurningu að ræða.
Fyrir mörgum er illska og þjáning heimsins augljós staðfesting á því að Guð sé ekki til. Ég hef mikinn skilning á því og geri á engan hátt lítið úr þeirri afstöðu, enda hef ég ekki frekar en aðrir komist undan því að glíma við spurninguna um Guð og illskuna. Og hún er ekki einföld á neinn hátt.
Margir segja að algóður og almáttugur Guð mundi aldrei leyfa tilgangslausa illsku eða þjáningu. Og í ljósi allrar þeirrar tilgangslausu illsku og þjáningu sem fyrirfinnst í heiminum getur ekki verið að Guð sé til, a.m.k. ekki í hinum hefðbundna skilningi.
En í formlegum röklegum skilningi gengur þessi röksemdarfærsla ekki upp – og er það almennt viðhorf heimspekinga í dag. Á bak við hana er nefnilega að finna þá ósögðu staðhæfingu að ef eitthvað virðist tilgangslaust fyrir mér þá hljóti það að vera tilgangslaust í raun og veru. En það er of stórt stökk. Þótt við getum ekki séð eða komið auga á ástæðuna fyrir því að Guð leyfi einhverju að gerast þá þýðir það ekki að engin ástæða sé fyrir hendi. Sá sem heldur hinu gagnstæða fram hefur tekið á sig svo þunga sönnunarbyrði að hann getur með engu móti axlað hana. Í raun gerir hann tilkall til þekkingar sem einungis Guð getur búið yfir.
En þótt illska og þjáning feli ekki í sér röklega sönnun fyrir guðleysi þá þýðir það ekki að við getum lokað augunum eins og ekki sé um mikla og þunga áskorun að ræða fyrir trúað fólk. En guðleysingjanum hættir til að gleyma að hann stendur frammi fyrir sama vanda, þó með öðrum hætti sé: Hvaðan fékk hann þá hugmynd að þjáning, ranglæti, erfiðleikar og margvíslegar hörmungar og raunir eigi ekki að vera hluti af lífinu? Ef við erum ekkert annað en tilviljanakennt efni á valdi blindra náttúrulögmála og vélrænnar þróunar í tilgangslausum alheimi án merkingar hvað gæti þá verið eðlilegra en einmitt það? Á hvaða forsendum byggir guðleysinginn þá kröfu sína að tilgangslaus þjáning og illska geti ekki eða eigi ekki að vera til? C.S. Lewis spurði sig að þessu mitt í glímu sinni við guðleysið og trúna:
„Rökin mín gegn Guði voru þau að alheimurinn virtist svo grimmur og ranglátur. En hvernig hafði ég fengið þessa hugmynd um réttlæti og ranglæti? Maður segir ekki að lína sé bogin nema hafa einhverja hugmynd um hvað bein lína er … Hvað var ég að bera heiminn saman við þegar ég kallaði hann ranglátan … Ég hefði að sjálfsögðu getað gefið hugmyndina um réttlæti upp á bátinn með því að segja að hún var bara persónulegir dyntir í mér. En ef ég gerði það þá hefðu rökin mín gegn Guði einnig fallið um sig sjálf, því þau grundvölluðust á því að segja að heimurinn var í raun og veru ranglátur, en ekki bara að hann félli ekki að persónulegum duttlungum mínum … Guðleysi er því of einfalt.“
Hvernig getur guðleysinginn, með öðrum orðum, sagt að hinn náttúrulegi veruleiki sé raunverulega óréttlátur og uppfullur af illsku án þess að gera ráð fyrir einhverjum mælikvarða handan náttúrunnar sem hann grundvallar fullyrðingu sína á? Eins og Richard Dawkins viðurkennir er alheimurinn „einmitt eins og við má búast, ef það er, þegar öllu er á botninn hvolft, engin hönnun [þ.e. Guð], enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint miskunnarlaust tómlæti.“ Með öðrum orðum er ekki hægt að tala um raunverulega illsku og óréttlæti ef Guð er ekki til og saga lífsins ekkert annað en saga efnis á valdi blindra lögmála. Raunveruleg illska og ranglæti passa ekki inn í guðlauan veruleika – eins og Dawkins áréttar. Þau geta aðeins verið til ef okkur er ætlað og skylt að lifa á vissan hátt, ef lífinu er ætlað að vera með tilteknum hætti. En guðlaus veruleiki býður ekki upp á þá forsendu.
En hvað býður kristin trú upp á? Hvað hefur kristinn maður? Hann hefur krossinn. Hann hefur Jesú Krist. Þótt kristin trú gefi okkur ekki endanlegt svar við spurningunni hvers vegna Guð leyfir illsku og þjáningu þá minnir hún okkur á að Guð er ekki fjarlægur veruleiki sem stendur á sama um okkur. Nei, þvert á móti. Guði er svo umhugað um aðstæður okkar, þjáningu okkar og erfiði í lífinu að hann gekk sjálfur inn á vettvang lífins og gerðist maður, tók á sig þjáninguna, upplifði illskuna, og fórnaði sjálfum sér okkar vegna – á krossinum. Svo mikið elskar hann okkur. Guð kristinnar trúar er Guð sem þekkir illsku, þjáningu og dauða af eigin raun. Hann er Immanúel, Guð með okkur. Og kristinn maður hefur líka upprisuna, sem minnir á að illska, þjáning og dauði eru ekki grunnstef tilverunnar heldur aðeins skammvinn þrenging sem bliknar í samanburði við eilífa lífið sem í vændum er, þar sem dauði, harmur, og kvöl er ekki lengur til, svo gripið sé til orðalags Biblíunnar.
„Innihaldið í þessari langloku má nokkurnvegin taka saman í: Ef þú veist ekki hvernig eitthvað virkar, þá hlýtur Guð að vera á ferðinni. Sem er skelfileg fáfræði. Skyldu trúræknir skiptast í tvo hópa: þá sem vita hvernig sjónvarpið virkar (út frá tæknilegu sjónarhóli) og síðan þá sem vita ekki hvernig það virkar og líta því á sjónvarpið sem sönnun um tilvist Guðs?“
Það er ekki nýtt að heyra að trú sé fólgin í litlu öðru en fáfræði og þekkingarskorti af hálfu hins trúaða. Margir líta svo á að að Guð sé ekkert annað en uppfyllingarefni í takmarkaða þekkingu mannsins, þ.e.a.s. að við bendum á Guð til þess að útskýra það sem við vitum ekki eða skiljum ekki og finnum honum stað þar sem vísindaleg útskýring er ekki til staðar. Ef svo er þá er nokkuð ljóst að eftir því sem vísindi útskýra meira verður minna pláss fyrir Guð.
Í þessu samhengi er oft litið á röksemdarfærslur fyrir tilvist Guðs sem hálfgerðar yfirbreiðslur: Það er engin vísindaleg útskýring á x, þess vegna er Guð orsökin á bak við x. En það er augljóslega byggt á miskilningi. Heimsfræðirökin, sem minnst var á hér að ofan, eru gott dæmi. Þar er um að ræða heimspekilega röksemdafærslu. Vitnisburður vísinda (Miklahvellskenningin) er ekki notaður til að réttlæta staðhæfinguna „Guð er til“ (sem er ekki einu sinni niðurstaða röksemdarfærslunnar) heldur til að styðja aðra forsenduna í röksemdarfærslunni, að alheimurinn eigi sér upphaf (sem er trúarlega hlutlaus staðhæfing). Hér er því alls ekki verið að reyna að koma Guði fyrir í einhverri eyðu sem vísindunum hefur ekki tekist að fylla uppí. Þvert á móti hefur kenningin um Miklahvell verið staðfest aftur og aftur með athugunum. Hér er því ekki byggt á einhverju þekkingarleysi heldur vísað til vísindalegrar niðurstöðu til að réttlæta eða styðja trúarlega hlutlausa forsendu í heimspekilegri röksemdarfærslu sem leiðir til niðurstöðu sem hefur trúarlega þýðingu. Hér er því alls ekki um neina holu-uppfyllingar-rök, ef svo má að orði komast.
En burtséð frá þessu byggir mótbáran á bjöguðum skilningi á Guði, sem á ekkert skylt við Guð kristinnar trúar. Samkvæmt kristinni trú er Guð ekki bara einn hlutur við hlið annarra, ef svo má segja. Nei, hann er orsakavaldurinn, sá sem er á bak við tjöldin, ef svo má segja. Hann er á bak við það sem við vitum og það sem við vitum ekki. Hann er hinn persónulegi skapari sem hannaði alheiminn, setti honum lögmál sín, og viðheldur tilvist hans öllum stundum. Guð felur ekki í sér vísindalega útskýringu á því hvers vegna pláneturnar sem snúast í kringum sólina haldast á brautum sínum, eða hvers vegna kjarni atómsins helst saman og á sínum stað. En af hverju plánetur sem snúast eftir föstum brautum eru til, atóm, eða eitthvað yfirleitt sem unnt er að útskýra á vísindalegan hátt, – það er allt önnur spurning, sem er handan sjálfra vísindanna. Jafnvel þótt við hefðum fullkomna og tæmandi vísindalega útskýringu á eðli alheimsins og gangverki náttúrunnar þá mundi það með engum hætti útiloka tilvist orsakavalds á bak við alheiminn sem skapaði hann og hannaði – ekkert frekar en tæmandi vísindalegur skilningur á því hvernig Ford T bíll virkar útilokar tilvist Henry Ford sem hugsaði upp og hannaði sjálfan bílinn.
„Bendi á eina góða ástæðu sem ætti að duga til að eyða öllum trúarbrögðum. Þar á ég við mannkynssöguna. Ekkert hefur stuðlað að meiri ófriði í sögunni, meiri drápum á fólki og allskyns hörmungum þesssu fylgjandi en einmitt trúarbrögðin.“
Já, saga trúarbragða, þar á meðal kristinnar trúar, er sannarlega ekki að öllu leyti glæsileg. Það viðurkenni ég og skammast mín fyrir sem kristinn maður. Þrátt fyrir allt hið góða sem hefur verið gert og komið til leiðar í nafni kristinnar trúar er augljóst að í skjóli hennar hefur líka þrifist mikil illska sem valdið hefur margvíslegri þjáningu. Í því samhengi þarf ekki annað en að hugsa til trúarofsókna, t.d. krossferða miðalda, og annars ofbeldis og óhæfuverka sem framin hafa verið í nafni kirkjunnar og kristinnar trúar. Og sem kristnum manni hryllir mér við því og tek undir með hverjum þeim sem fordæmir það.
Nú vil ég ekki tala máli annarrar trúar en minnar eigin. En það er enginn vafi á því að þeir sem beita ofbeldi, ofríki eða stunda ofsóknir í nafni kristinnar trúar ganga þvert gegn orðum og boðskap Jesú sjálfs. Ofbeldi í nafni kristinnar trúar getur aldrei verið kristið. Það er því mikilvægt að gera greinarmun á kristindómi eða kristnu fólki annars vegar og boðskap Jesú og kristinni trú hins vegar. Þar er því miður ekki alltaf um eitt og hið sama að ræða.
Að vera kristinn felur í sér að fylgja boðskap Jesú í orði og verki. Og Jesús talaði mjög skýrt gegn hverskyns ofbeldi og ofríki í sínu nafni. Þegar lærisveinninn Pétur greip til sverðsins til þess að vernda Jesú í Getsemanegarðinum sagði Jesús honum að leggja það frá sér með þeim orðum að sérhver sá sem sverði brygði mundi falla fyrir því. Jesús sagði líka fylgjendum sínum að leggja af hatur og óvild en elska óvini sína og biðja fyrir þeim. Og við Pílatus sagði hann að ríki sitt væri ekki af þessum heimi, ella hefðu fylgjendur hans barist. Framganga kristins fólks, eins dapurleg og sorgleg og hún getur verið, er því enginn dómur yfir boðskap Jesú eða kristinni trú sem slíkri, heldur til vitnis um það sem getur búið í hjarta og huga mannsins. Og ef sagan (sem og kristin trú) segir okkur eitthvað er það að maðurinn er ófullkominn. En ef allir vöknuðu á morgun staðráðnir í því að fara eftir orðum Jesú um náungakærleika og laga líf sitt að þeim þá mundi margt breytast í heiminum. Og þegar hugsað er til alls þess fólks sem raunverulega og í einlægni hefur í gegnum aldirnar fylgt orðum Jesú og hrint þeim í framkvæmd, þá er raunin sú að framlag þess til mannúðar og menningar, lærdóms og lista í heiminum er ómetanlegt og verður ekki mælt – enda þótt guðleysingjar á borð við Richard Dawkins telja sig geta strokað út þeirra hlut í sögunni með nokkrum setningum í bók.
En í þessu samhengi hafa guðleysingjar líka tilhneigingu til að líta framhjá sögulegum þætti sinnar eigin lífsskoðunar. Því það hefur vissulega verið gerð tilraun til þess að útrýma trúarbrögðum og koma á fót samfélagi sem byggir á guðlausri hugmyndafræði. Nægir þar að hugsa til Stalíns í Sovétríkjunum, Maós í Kína og Pol Pots í Kambódíu. En hvernig gekk það? Leiddi sú tilraun til hins fullkomna, upplýsta og framfarasinnaða samfélags þar sem umburðarlyndi og náungakærleikur var allt í öllu og illska, hörmungar og þjáningar heyrðu sögunni til? Nei, þvert á móti. Tugir og aftur tugir milljóna manna týndu lífinu í gúlaginu, í menningarbyltingunni og á vígvöllum rauðu khmeranna, og þegar yfir lauk reyndist 20. öldin, sem átti að marka endalok trúarbragða, vera blóðugasta öld mannkynssögunnar.
Aleksander Solzhenitsyn, sem komst lífs af úr gúlaginu, tók til orða með afdráttarlausum og ögrandi hætti:
„Ef ég væri í dag beðin um að koma eins skýrum orðum og mögulegt er að ástæðunni á bak við hina hörmulegu uppreisn sem gleypt hefur um 60 milljónir af fólkinu okkar, þá gæti ég ekki gert betur en að segja: Menn hafa gleymt Guði! Það er ástæðan fyrir öllu því sem hefur gerst. Og væri ég beðin um að greina megineinkenni gjörvallrar 20. aldarinnar gæti ég ekki sagt neitt sem væri réttara eða afdráttarlausara en það: Menn hafa gleymt Guði! Andspænis hinum vanhugsuðu væntingum síðastliðinna tveggja alda, sem hafa máð út mikilvægi okkar, og komið okkur hársbreidd frá kjarnorkudauða og annars konar dauða, getum við ekki lagt neitt til annað en einbeitna leit að hlýrri hönd Guðs, sem við höfum svo fljótfærnislega og af svo miklum sjálfbirgingshætti slegið á móti. Aðeins þannig getum við opnað augu okkar fyrir mistökum þessarar óheilla aldar með það að marki að leiðrétta þau. Það er ekkert annað að finna sem nokkuð hald er í: Sýn allra hugsuða Upplýsingarinnar til saman er engin þegar allt kemur til alls.“
Margir guðleysingjar gera sitt besta til að sýna fram á að ofbeldi, grimmd, stríð og þjáning sé kjarni kristinnar trúar og það eina sem ber henni vitni í sögunni. Á sama tíma loka þeir augunum fyrir sögu guðleysisins. Slíkt viðhorf er hins vegar eins sögulega rangt og það er fráleitt.
Kjarni kristinnar trúar er Jesús Kristur, sem kallaði hina hógværu, miskunnsömu, hjartahreinu og friðflytjandi sæla; sem hvatti sérhvern til að vera skjótan til sátta við andstæðing sinn og ekki rísa gegn þeim sem gerir sér mein, heldur elska óvin sinn eins og sjálfan sig og biðja fyrir ofsækjendum sínum.
Það er því vert að spyrja sig hvort sé líklegra til þess að efla manninn í viðleitni sinni til að skapa frið og samlyndi í heiminum, boðskapur á borð við þann sem Jesús flytur, eða boðskapur guðleysingja á borð við Richard Dawkins, sem leggur áherslu á að lífið og tilveran sé „einmitt eins og við má búast, ef það er, þegar öllu er á botninn hvolft, engin hönnun [þ.e. Guð], enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint miskunnarlaust tómlæti.“