Fimmtudagur 12.04.2018 - 16:14 - FB ummæli ()

Skynsamleg trú: Nokkrar vangaveltur í ljósi athugasemda Svans Sigurbjörnssonar

Í nýlegum pistli sem birtist á Stundinni, „Skynsamleg trú“, fjallaði ég um tiltekna röksemdarfærslu fyrir tilvist Guðs, hin svokölluðu heimsfræðirök. Samkvæmt þeim er sú rökrétta niðurstaða dregin að alheimurinn eigi sér orsök á grundvelli þeirra forsenda að allt sem verði til eigi sér orsök, og að alheimurinn hafi orðið til (þ.e. eigi sér upphaf). Sú orsök er eðli málsins samkvæmt handan hins efnislega og náttúrulega veruleika sem alheimurinn er (alls tíma, rúms, efnis og orku), enda ástæða þess að hann er orðin til.

Á grundvelli heimsfræðirakanna má því draga þá ályktun að á bak við alheiminn sé persónulegur skapari sem ekki er orsakaður af neinu en er orsök alls annars sem til er. Þessi orsök er án upphafs, óbreytanleg, óefnisleg, tímalaus, rýmislaus og svo máttug að hún gat skapað gjörvallan alheiminn úr engu. Þegar horft er til þessara eiginleika sem orsök alheimsins hlýtur að búa yfir er síður en svo langsótt að grípa til hugtaksins Guð.

Þótt rekja megi útlínur heimsfræðirakanna allt aftur til gríska heimspekingsins Plató eru þau enn mjög svo fyrirferðamikil í heimspekilegri umræðu og víðar, ekki síst í ljósi þess að vísindi hafa nú rennt afar traustum stoðum undir þá forsendu að alheimurinn er ekki eilífur (eins og gengið var út frá allt fram á byrjun 20. aldarinnar) heldur eigi sér upphaf í Miklahvelli fyrir um 14 milljörðum ára.

Eins og eðlisfræðingurinn P.C.W Davies komst að orði „[er] tilkoma alheimsins, eins og um hana er rætt innan nútímavísinda, ekki fólgin í því að reglu sé komið á einhverja fyrirliggjandi óreiðu, heldur bókstaflega í tilkomu alls hins efnislega veruleika úr engu“.

Í því ljósi hefur fjöldi vísindamanna haft orð á því að með aukinni þekkingu á eðli alheimsins verði sú tilgáta að til sé Guð sem skapaði og hannaði alheiminn sífellt meira sannfærandi.

Charles Townes, svo einn sé nefndur, nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði, sagði að spurningunni um uppruna yrði að sínu mati ekki svarað út frá vísindalegu sjónarhorni heldur væri þörf á frumspekilegri útskýringu á borð við Guð. Og fyrir sitt leyti tryði hann á tilvist hans.

Á bak við slík ummæli liggur það viðhorf að vísindi eru takmörkuð af viðfangsefni sínu. Vísindi geta ekki útskýrt neitt nema tími, rúm og efni séu þegar til staðar, þ.e. fyrirbæri sem unnt er útskýra í vísindalegum skilningi. Náttúrulögmálin stýra hegðun hluta og fyrirbæra í tíma og rúmi. Þess vegna geta vísindi ekki útskýrt tilvist þess sem verður að vera til áður en vísindi geta útskýrt nokkuð yfirleitt. Með öðrum orðum er ekki unnt að útskýra tilvist orsakakeðjunnar sem slíkrar (alheimsins) á sömu forsendum og við útskýrum einstaka hluti í eða innan orsakakeðjunnar sjálfrar. Það verður að leita út fyrir hana.

Þá er skynsamlegt að grípa til annarrar tegundar útskýringar, persónulegrar útskýringar, þar sem vísað er til vitræns orsakavalds sem í krafti vilja síns kemur einhverju nýju til leiðar án þess að þurfa að reiða sig á önnur og undanfarandi skilyrði eða orsakir – rétt eins og maður sem ákveður að lyfta upp höndinni í krafti síns frjálsa vilja án þess að vera knúinn eða skilyrtur fyrirfram af einhverju öðru.

Með þetta í huga er það síður en svo óskynsamleg útskýring á tilkomu alheimsins að hann sé afleiðing óefnislegs og vitræns orsakavalds utan tíma og rúms.

Í þessu samhengi eru ummæli eðlisfræðingsins og nóbelsverðlaunahafans Arno Penzias (sem uppgötvaði bakgrunnsgeislun alheimsins) eftirtektaverð. Að hans mati „[leiða] stjörnuvísindi okkur fyrir sjónir einstakan atburð, nefnilega alheim sem skapaður var úr engu og býr jafnframt yfir því hárfína jafnvægi sem nauðsynlegt er til að líf geti komið fram; alheim sem ber vitni um undirliggjandi (guðlega gæti maður sagt) fyrirætlun“.

Ýmsir guðleysingjar fallast á forsendur heimsfræðirakanna þótt þeir túlki niðurstöðu þeirra á sinn eigin hátt.

Heimspekingurinn Daniel Dennet, sem þekktur er sem einn af forsprökkum hins svokallaða „nýja“ guðleysis, er sammála niðurstöðunni. Að hans mati á alheimurinn sér orsök. Hins vegar telur hann orsök alheimsins ekki vera aðskilinn veruleika frá alheiminum. Nei, hann lítur svo á að alheimurinn sé sín eigin orsök. Skynsamlegasta útskýringin á tilkomu alheimsins er að hans mati sú að alheimurinn orsakaði sjálfan sig! Svona rétt eins og maður sem rífur sjálfan sig upp á hnakkadrambinu.

Fæstir þurfa að hugsa sig lengi um til að sjá rökleysuna sem slíkt viðhorf felur í sér. Raunar er um röklega mótsögn að ræða sem getur ómögulega verið sönn – því til að geta skapað sjálfan sig yrði alheimurinn jú þegar að vera til. Það sem er ekki til (þ.e.a.s. er bókstaflega ekki neitt) kemur að sjálfsögðu engu til leiðar. En hvernig eitthvað getur verið til áður en það er orðið til er vandasamt verk. Það er eitt að segja að x orsaki y. En þegar maður segir að x orsaki x þá gerir maður fyrirfram ráð fyrir tilvist x til þess að útskýra tilvist x.

Ásamt öðrum rökum fyrir tilvist Guðs (ekki síst tilgangs- og hönnunarrökum) sýna heimsfræðirökin að guðstrú felur ekki í sér nein svik við röklega, skynsamlega og vísindalega hugsun, þvert á móti. Ennfremur sýna þau að náttúruhyggja (og þar af leiðandi guðleysi) stendur alls ekki á jafn traustum grunni og ýmsir guðleysingjar og efahyggjufólk vill láta að liggja.

Þótt hér sé margt látið ósagt sýnir þessi röksemdafærsla og aðrar að mínu mati með skynsamlegum hætti að náttúruhyggja (og þar af leiðandi guðleysi) er viðhorf sem ekki fær staðist!

* * * *

Á meðal þeirra athugasemda sem lagðar voru fram við áðurnefndum pistli mínum komu þrjár frá Svani Sigurbjörnssyni lækni, sem einnig hefur verið virkur í félagsskap siðrænna húmanista á Íslandi (Siðmennt). Ég þakka honum kærlega fyrir lesturinn og áhugann á viðfangsefninu.

Þótt Svanur geri ekki beinlínis tilraun til þess að hrekja forsendur eða niðurstöðu röksemdafærslunnar er ljóst að honum þykir ekki mikið til hennar koma eða guðstrúar yfirleitt. Hann virðist taka undir með mörgum öðrum skoðanasystkinum sínum er hann lætur að því liggja að engin „sönnunargögn“ (hvað það orð felur í sér í samhengi málsins er óvíst) liggi tilvist Guðs til grundvallar.

Vissulega eru heimsfræðirökin ekki „sönnunargögn“ í þeim skilningi að þau sýni með óyggjandi og óvéfengjanlegum hætti að Guð sé til. Nei, um er að ræða heimspekilega röksemdafærslu. En þótt þau leiði ekki til niðurstöðu sem býður uppá hundrað prósent vissu (sem vitaskuld er hvergi í boði utan stærfræði og rökfræði) fela þau að margra mati í sér afar sannfærandi rök fyrir tilvist Guðs, og þar af leiðandi gegn náttúruhyggju (og guðleysi). En vissulega má skjóta sér undan þeim og öðrum röksemdarfærslum fyrir tilvist Guðs með því að vega þau og meta í ljósi óraunhæfs þekkingarfræðilegs mælikvarða, eins og ýmsir guðleysingjar jafnan gera þegar tilvist Guðs er til umræðu. En þótt enginn láti sannfærast um neitt gegn vilja sínum væri áhugavert (og á margan hátt óskandi) ef guðleysingjar og efahyggjufólk setti sér jafn háleitan mælikvarða þegar kemur að viðhorfum sínum um Guð og þau krefja trúað fólk um þegar kemur að þeirra. Ef þeir gerðu það er alls óvíst að þeir upplifðu sig á jafn föstu landi og áður.

Í þriðju athugasemd sinni lýkur Svanur máli sínu með þeim orðum að „Það er engin nauðsyn að telja tilvist hugmynda raunverulega nema að til komi sönnunargögn. Guðshugmyndin er bara eins og hugmyndin um einhyrnda hestinn (unicorn). Hún er samsett úr myndum af hlutum sem við þekkjum úr raunveruleikanum“.

Burtséð frá því hvað Svanur á við með orðinu hugmynd hér má snúa fullyrðingu hans upp á guðleysingjann sjálfan og segja að „Það er engin nauðsyn að telja tilvist hugmynda raunverulega nema að til komi sönnunargögn. [Hugmyndin um tilvistarleysi Guðs] er bara eins og hugmyndin um einhyrnda hestinn (unicorn). Hún er samsett úr myndum af hlutum sem við þekkjum úr raunveruleikanum“.

Í hvorugu samhengi hefur fullyrðingin þó nokkuð vægi eða gildi þegar kemur að spurningunni um tilvist (eða tilvistarleysi) Guðs.

Þegar rætt er um tilvist Guðs verður sumum gagnrýnendum og andstæðingum guðstrúar samt furðu tíðrætt um fyrirbæri á borð við fljúgandi spagettískrímsli og einhyrnda hesta, tannálfa og jólasveina, rétt eins og um gildan og viðeigandi samanburð væri að ræða sem eitthvað hafi að segja í samhengi þeirra raka sem til umræðu eru. Ofangreind fullyrðing Svans hefur í raun ekkert með heimsfræðirökin að gera, hvorki forsendur þeirra né niðurstöðu, og þjóna litlum tilgangi öðrum, að því er ég fæ best séð, en að drepa umræðunni á dreif eða forðast kjarna málsins.

Í þessu samhengi er líka rétt að minna á að hvaðan okkur kemur tiltekin hugmynd (eða viðhorf) hefur í röklegum skilningi ekkert að gera með það hvort sú hugmynd (eða viðhorf) sé sönn eða ekki. Það væri mikil rökleysa að ætla annað. Ennfremur felur meintur skortur á „sönnunargögnum“ fyrir tilvist Guðs alls ekki í sér sönnun eða rök þess efnis að Guð sé ekki eða geti ekki verið til. Oft er slíkt tal yfirskin til að koma sér undan því að fást við rökin sem til umræðu eru.

En óháð þessu er sú sannfæring mín að Guð sé til vissulega grundvölluð á því sem ég sé og upplifi og þekki úr „raunveruleikanum“ í kringum mig (og innra með mér), m.a. því að allt sem verður til eigi sér upphaf, og þar á meðal alheimurinn.

Hið fyrsta sem Svanur finnur að pistli mínum er hins vegar að ég vitni til stjörnufræðingsins Carls Sagan. Það þykir Svani allt að því ósmekklega af mér gert í grein sem fjalli um tilvist Guðs enda geti ég þess ekki að Sagan var guðleysingi.

Þetta þykir mér undarleg athugasemd. Ég ber virðingu fyrir því að Svanur vilji koma skoðanabróður sínum til varnar, en það var óþarfi í samhengi greinar minnar, enda segi ég ekkert um Sagan annað en að vitna til orða hans sem ávallt hljómuðu í upphafi sjónvarpsþáttar hans The Cosmos frá 9. áratugnum: Alheimurinn er allt sem er, var eða mun verða!

Eins og ummælin benda til var Sagan náttúruhyggjusinni (og þar af leiðandi guðleysingi). Hann áleit með öðrum orðum að hinn efnislegi og náttúrulegi veruleiki tíma og rúms (alheimurinn) væri tæmandi lýsing á veruleikanum, eða því sem til er. Og í því er náttúruhyggja einmitt fólgin! Samkvæmt henni er enginn Guð til eða yfirnáttúrulegur veruleiki af nokkrum toga. Veruleikinn er líkur lokuðum kassa þar sem allt sem gerist inni í kassanum má útskýra á grundvelli einhvers annars sem þar á sér stað, þ.e. á náttúrulegum og efnislegum forsendum. Engu öðru er jú til að dreifa. Ekkert utan kassans getur haft áhrif á nokkuð innan hans – enda er ekkert annað að finna.

En eins og fram hefur komið benda heimsfræðirökin ákveðið og eindregið til hins gagnstæða, nefnilega þess að alheimurinn er ekki „allt sem er, var eða mun verða“. Þvert á móti er til yfirnáttúrulegur veruleiki, Guð, sem alheimurin, hinn náttúrulegi veruleiki, er skapaður af. Og í því samhengi vitnaði ég til Carl Sagan. Í engum skilningi skreytti ég sjálfan mig með stolnum fjöðrum, eins og Svanur fullyrðir.

Næstu athugasemd Svans er nokkuð erfitt að ráða í þykir mér. Þar finnur hann að þeirri fullyrðingu minni að samkvæmt náttúruhyggjunni sé alheimurinn „ekkert annað en efnislegur og skilyrtur veruleiki frá öllum hliðum séð, og lífið (þar á meðal hugsanir okkar og gjörðir) einungis tilviljunarkennd aukaafurð blindra náttúrulögmála.

Í því ljósi lætur Svanur að því liggja að ég gefi mér að „efnishyggjufólk (realistar) um heiminn séu allir nauðhyggjumenn (determinists) um gang lífsins og framtíðina“, sem honum þykir „súrrealískt“. Þetta feli ekki í sér rök gegn guðleysi, segir hann, heldur lítilsvirðingu gegn „náttúrunni og því að lífið geti sprottið úr henni“.

Svanur hefur meira að segja en látum hér staðar numið.

Hið fyrsta sem benda má á er að Svanur virðist nota hér ákveðin grundvallarhugtök á nýstárlegan hátt. Efnishyggja og raunhyggja eru alls ekki eitt og hið sama, eins og hann virðist telja. Í heimspekilegum skilningi er efnishyggja (materialism) nokkurn vegin það viðhorf að veruleikinn (þ.e. allt sem til er) er að öllu leyti efnislegur og að allt það sem gerist er með einum eða öðrum hætti grundvallað á eða orsakað af efni, eiginleikum efnis og hegðun efnis. Hins vegar er raunhyggja (realism) nokkurn vegin það viðhorf að veruleikinn er til óháð okkur og hugsunum okkar um hann. Andstæða raunhyggju er hughyggja (idealism) sem gengur út frá því að veruleikinn sé bundinn af eða háður hugsunum okkar um hann. Nauðhyggja (determinism) felur nokkurn veginn í sér það viðhorf að á bak við hvern atburð (sérhvað það sem gerist) liggja aðstæður (orsakir) sem gera það að verkum að ekkert annað gat mögulega gerst en það sem í raun gerðist.

Samkvæmt þessu getur sá sem trúir á tilvist Guðs augljóslega ekki verið efnishyggjumaður í neinum skilningi. Hann getur vitaskuld ekki heldur aðhyllst náttúruhyggju. En sem guðstrúarmaður er ég einnig raunhyggjumaður í ofangreindum skilningi þess hugtaks. Ég lít svo á að veruleikinn í kringum mig sé til óháð hugsunum mínum um hann og upplifun minni af honum. Og trú mín á tilvist Guðs krefst að sjálfsögðu ekki annars. Það er alls ekki svo að guðleysingjar (þeir sem aðhyllast náttúruhyggju og efnishyggju) einir séu raunhyggjumenn, eða hafi í krafti guðleysis síns betra skynbragð en aðrir á það sem er raunverulegt.

Gef ég mér að „efnishyggjufólk (realistar) um heiminn séu allir nauðhyggjumenn“, eins og Svanur fullyrðir? Ég fullyrti alls ekkert um það í pistli mínum. Hvað einstaka fólk sem aðhyllist náttúruhyggju og efnishyggju heldur í þeim efnum var ekki til umræðu.

Hins vegar tel ég að guðleysinginn og efnishyggjumaðurinn eigi erfitt með að komast undan nauðhyggjunni. Nauðhyggja virðist afar rökrétt niðurstaða þegar gengið er út frá forsendum náttúruhyggjunnar/efnishyggjunnar. Því að svo miklu leyti sem náttúruhyggja felur í sér að allt eigi sér náttúrulegar og efnislegar orsakir þegar allt kemur til alls, og að hugsanir okkar og gjörðir eru ákvarðaðar af náttúrulegum orsökum handan okkar sjálfra, þá er frjáls vilji tálsýn. Hins vegar komumst við ekki undan þessari tálsýn og hljótum því að taka ákvarðanir eins og frjáls vilji væri raunverulegur enda þótt hann sé það ekki. Það sýnir að náttúruhyggja er viðhorf sem ekki er unnt að lifa í samræmi við, og því ekki að undra að guðleysingjar loki augunum fyrir þeirri rökréttu afleiðingu sinnar eigin lífsskoðunar.

(Má í þessu samhengi geta þess að ekkert af því sem ég sagði – eða segi hér – hefur nokkuð að gera með það sem ég „[tel] æðra eða lægra“, eða ber vitni „hrokanum í guðfræðinni og þeirri goggunarröð sem Biblían er full af“, eins og Svanur fullyrðir. Sú fullyrðing hans hefur lítið með efni pistils míns að gera og virðist mér miklu fremur lýsa persónulegu viðhorfi Svans til guðfræði og Biblíunnar.)

Nei, hér er um viðhorf að ræða sem margir guðleysingjar gangast og horfast í augu við (enda þótt þeir geti ekki lifað samkvæmt því). Heimspekingurinn, guðleysinginn, náttúruhyggju- og vísindahyggjusinnin Alex Rosenberg er lýsandi dæmi. Í bók sinni The Atheist Guide to Reality svarar hann út frá forsendum guðleysisins nokkrum af þeim grundvallarspurningum sem leita á sérhvern mann:

„Er til Guð? Nei.
Hvert er eðli veruleikans? Það sem eðlisfræðin segir að það sé.
Hver er tilgangur alheimsins? Enginn.
Hver er merking lífsins? Dittó.
Hvers vegna er ég hér? Bara hundaheppni.
Er til sál? Ertu ekki að grínast?
Er til frjáls vilji? Ekki möguleiki!
Hver er munurinn á réttu/röngu, góðu/illu? Það er enginn siðferðilegur munur þar á.“

Önnur eins sýn á lífið og tilveruna er heldur nöturleg og satt að segja ömurleg. En eins og Rosenberg segir sjálfur „[verður maður] að sætta sig við drjúga tómhyggju ætli maður sér að vera guðleysingi … en til öryggis er alltaf hægt að taka prósak.“

Þróunarfræðingurinn og guðleysinginn William Provine lýsir sama viðhorfi:

„Ég skal draga saman viðhorf mín varðandi það sem nútíma þróunarlíffræði segir hátt og skýrt – og ég verð að bæta því við að þetta eru í grundvallaratriðum viðhorf Darwins. Það eru engir guðir til, og engin tilgangsmiðuð öfl af nokkru tagi. Þegar ég dey er ég algjörlega viss um að ég muni vera fullkomlega dauður. Það er öll sagan – það verða endalok mín. Það er engan grundvöll fyrir siðferði að finna, enga endanlega merkingu í lífinu, og heldur ekki frjálsan vilja.“

Þetta sýnir að mínu mati vel hversu illa guðleysi fellur að upplifun okkar og reynslu af sjálfum okkur og lífinu – sem er eitt af því sem sýnir þá miklu annmarka sem eru á guðleysi sem heims- og lífsskoðun, og ætti með réttu að vekja hjá okkur miklar efasemdir um það. Ég leyfi mér að efast um að margir guðleysingjar líti svo á að þeir búi ekki yfir frjálsum vilja og beri þar með enga ábyrgð á hugsunum sínum og gjörðum; eða að það sé ekki siðferðilegur munur á réttu og röngu og góðu og illu, t.d. því að annast og elska barn annars vegar og að bera það út hins vegar. Í öllu falli ættum við að vera afar treg að mínu mati til að gangast við jafn mótsagnakenndu viðhorfi um eðli lífsins nema við séum knúin til þess í krafti afar sterkra raka.

Í þriðju athugasemd sinni andmælir Svanur þeirri fullyrðingu minni að „þar sem tilvist alheimsins er ekki nauðsynleg má ennfremur ætla að á bak við sköpun hans sé ásetningur og fyrirætlun“. Hann spyr hvernig ég fæ „það út að tilvist alheimsins sé ekki nauðsynleg?“

Það leiðir af niðurstöðu röksemdarfærslunnar!

Nú er ekki gott að segja í hvaða skilningi Svanur notar hugtakið „nauðsynleg“. Öllu jafna er sá greinarmunur gerður á því sem er til að það sé annað hvort nauðsynlegt eða tilfallandi. Það sem er nauðsynlega til á sér ekki orsök og getur ekki ekki verið til. Það sem er tilfallandi er hins vegar til vegna einhverra ytri orsaka og gæti allt eins ekki hafa orðið til. Nú er unnt að tala um nauðsyn í mismunandi skilningi, en það sem er nauðsynlega til, þ.e. getur ekki ekki verið til, er að minnsta kosti þess eðlis að það hefur alltaf verið til (m.ö.o. að það eigi sér enga orsök). En nú leiða heimsfræðirökin einmitt til andstæðrar niðurstöðu hvað alheiminn varðar. Og með því að sýna fram á að alheimurinn á sér orsök, þ.e.a.s. að hann hafi ekki alltaf verið til, þá er um leið sýnt fram á að alheimurinn er ekki nauðsynleg vera og útskýrir þar með ekki eigin tilvist.

En að mati Svans er tilvist alheimsins þó „einmitt nauðsynleg því að annars værum við ekki til. Ef eitthvað er nauðsynlegt þá er það einmitt það – tilvist okkar. Annars værum við ekki að skrifa.“

Þetta er furðuleg fullyrðing þykir mér. Tilvist okkar er nauðsynleg og þar af leiðandi er tilvist alheimsins nauðsynleg?!

Nú er ekki gott að vita hvað Svanur á við með þessu. En burtséð frá því segir það sig sjálft að ef ég væri ekki til þá væri ég ekki að skrifa þessar línur. En það felur ekki í sér að þar með sé tilvist mín eða alheimsins nauðsynleg. Í hvaða skilningi gæti tilvist okkar verið nauðsynleg?Mannkynið hefur ekki alltaf verið til. Alheimurinn var til í milljarða ára áður en líf í þeirri mynd sem við þekkjum það kom til sögunnar. Og allt bendir til að alheimurinn (og þar með allt líf) muni óhjákvæmilega líða undir lok eftir því sem hann þenst æ meira út og breytist á endanum í ljóslausa og lífvana frystikistu. Það blasir því við að tilvist okkar er alls ekki nauðsynleg.

Ef Svanur á við að við getum ekki verið til án alheimsins (þ.e. án efnislegs veruleika í tíma og rúmi) er það rétt (með hliðsjón af náttúruhyggju í öllu falli). En það leiðir ekki til þeirrar niðurstöðu að þar með sé tilvist alheimsins nauðsynleg. Og að svo miklu leyti sem alheimurinn er ekki nauðsynlegur leiðir af því að tilvist okkar er ekki heldur nauðsynleg.

Ef til vill á Svanur við að tilvist okkar sé óhjákvæmileg að teknu tilliti til tilvistar alheimsins. Með öðrum orðum að með tilkomu alheimsins hlaut einnig að koma að því að líf kæmi fram, og í þeim skilningi sé tilvist okkar nauðsynleg.

En ólíkt því sem áður var talið hefur nú komið ljós að tilkoma og þróun lífs í alheiminum er langt frá því að vera sjálfsagður hlutur, og hvað þá nauðsynlegur. Raunar er tilkoma lífs með ótrúlegum ólíkindum þegar horft er til þess að ef gildi margvíslegra fasta og lögmála náttúrunnar skeikaði örlítið (og er þá átt við allt að einum milljónasta) þá væri lífvænlegur alheimur óhugsandi. Með öðrum orðum mundi örminnsta breyting á þessum gildum gera forsendur lífs að engu. Þessi staðreynd hefur verið nefnd „fínstilling“ alheimsins – og er hún raunar forsenda í annarskonar röksemdarfærslu fyrir tilvist Guðs, hinum svokölluðu hönnunarrökum, enda virðist sem alheimurinn hafi frá upphafi verið stilltur eða hannaður með það að marki að greiða fyrir tilkomu lífs.

Undir lok þriðju athugasemdar sinnar segir Svanur að ég „[geti] ekki ætlað [mér] veru sem hefur eiginleika eins og ,ásetning og fyrriætlun’ nema að vera búinn að sanna tilvist verunnar fyrst.“

Við þessu er það að segja að pistillinn minn gekk einmitt út á það að sýna með röklegum hætti að slík vera sé til. Eins og áður er sagt felur niðurstaða heimsfræðirakanna í sér að á bak við tilkomu alheimsins er persónulegur og vitrænn skapari.

Það kann vel að vera að niðurstaða heimspekilegrar röksemdarfærslu á borð við þessa jafngildi ekki „sönnun“ samkvæmt skilningi Svans á því hugtaki, og að hann láti hana af þeim sökum sér í léttu rúmi liggja. Burtséð frá því þakka ég honum fyrir að hafa lesið pistilinn og gefið sér tíma til að bregðast við honum.

Flokkar: Guð · Guðleysi · Guðstrú · Heimsfræðirök · Heimsmynd · Heimspeki · Miklihvellur · Náttúruhyggja · Sköpun · Skynsemi · Tilvist Guðs · Trú

«

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur