Í gær var dánardægur C.S. Lewis.
Lewis fæddist þann 29. nóvember 1898 í Belfast og lést þann 22. nóvember 1963 í Oxford.
Hann starfaði um 30 ára skeið sem prófessor í bókmenntafræði við Oxford háskóla.
Lewis var afkastamikill rithöfundur, skrifaði m.a. sögurnar um Narníu, og er enn víðlesinn.
Lewis er ekki síst þekktur fyrir skrif sín um kristna trú og var á sínum tíma einn þekktasti kristni rithöfundurinn. Hann er álitin vera einn áhrifamesti trúvarnarmaður kristninnar, og þeirra áhrifa gætir enn, rúmum 50 árum eftir dauða hans.
Lewis var guðleysingi framan af aldri en tók kristna trú um þrítugt. Bók hans Mere Christianity, sem byggir á þekktum útvarpserindum sem Lewis hélt í breska ríkisútvarpinu í seinni heimsstyrjöldinni miðri, hefur oftar en einu sinni verið valin besta og áhrifaríkasta bókin um kristna trú sem rituð var á 20. öldinni.
Hvort sem maður er guðleysingi eða guðstrúarmaður er það gefandi og lærdómsríkt að lesa verk C.S. Lewis.
Þessa umhugunarverðu „hugleiðingu“ er að finna í bók hans Miracles:
„Segjum sem svo að það finnist ekkert hugvit á bak við alheiminn, enginn skapandi hugsun! Það þýðir að enginn mótaði heilann í mér með hugsun að markmiði. Það er bara þegar svo vill til að atómin í höfðinu á mér, af eðlisfræðilegum og efnafræðilegum ástæðum, raða sér upp á ákveðin hátt, að ég að lokum skynja (sem aukaafurð) það sem ég kalla hugsun. En hvernig get ég þá treyst því að mín eigin hugsun sé sönn? Það væri eins og að hella niður mjólkurfernu í þeirri von að úr mjólkinni sem hellist niður verði til kort af London. En ef ég get ekki treyst eigin hugsun þá get ég vitanlega ekki treyst rökunum fyrir guðleysi, og þá hef ég enga ástæðu til að vera guðleysingi, eða nokkuð annað. Ef ég trúi ekki á Guð þá get ég ekki trúað á hugsun. Ég get þá heldur aldrei notað hugsun til að trúa ekki á Guð.“
[Ég leyfi mér að taka það fram að C.S. Lewis á ekki við að þeir sem ekki trúa á Guð geti ekki hugsað eða séu á einhvern hátt takmarkaðri í hugsun sinni en þeir sem trúa á Guð. Lewis orðar hér þekkt rök sem ganga út á það að ef Guð er ekki til (hvort sem við trúum á hann eða ekki), þ.e.a.s. ef alheimurinn er eini veruleikinn sem til er og lífið og tilveran því einungis tilviljunarkennd aukaafurð blindra náttúrulögmála, þá höfum við ekki forsendur eða grundvöll til að treysta á áreiðanleika hugsunar okkar og vitrænna eiginleika. Margir guleysingjar fallast á það. Eins og erfðafræðingurinn og lífefnafræðingurinn J.B.S. Haldane sagði eitt sinn: Ef vitrænir ferlar mínar eru með öllu skilyrtir af hreyfingu atóma í heilanum mínum, þá hef ég enga ástæðu til að trúa því að skoðanir mínar og viðhorf séu sönn … og þar af leiðandi hef ég enga ástæðu til að trúa því að heilinn í mér samanstandi af atómum.]