Það er ekki óalgengt að þessa spurningu beri á góma þegar rætt er um tilvist Guð. Og þá er það guðleysinginn eða efasemdarmaðurinn sem spyr.
Samhengið er yfirleitt í þessum dúr:
Ef allt á sér orsök, eins og þú segir, líka alheimurinn, hver eða hvað orsakaði þá Guð? Ef þú segir að Guð sé þessi frumorsök, og að ekkert hafi orsakað hann, getum við þá ekki allt eins sagt að alheimurinn sjálfur sé frumorsökin og eigi sér því ekki orsök? Það flækir bara málið að blanda Guði inn í það.
Já, það er það.
En bíðum aðeins við og hugsum okkur í gegnum þetta. Er ekki eitthvað loðið við spurninguna „Hver skapaði Guð?“
Jú, hún felur nefnilega í sér ákveðin grundvallarmistök, eða þá rökvillu að eigna einhverju eða einhverjum ranglega tiltekna eiginleika.
Hvernig mundir þú svara spurningum á borð við þessar:
„Hversu margir sentimetrar er lykt af rós?“
„Hvernig bragðast C moll nóta?“
„Hvenær á Jónas [sem er piparsveinn] aftur brúðkaupsdag?“
Allar þessar spurningar eru dæmu um áðurnefnda rökvillu.
Sá sem spyr slíkra spurninga eignar einhverju tiltekna eiginleika sem það ómögulega getur búið yfir.
Þetta minnir okkur á að spurninguna „Hvað orsakaði x?“ er bara hægt að spyrja um þesskonar hluti sem samkvæmt skilgreiningu eru orsakanlegir.
Það væri fullkomlega eðliegt og viðeigandi að spyrja: „Hvað orsakaði tilvist jarðarinnar?“ eða „Hver bjó til þetta borð?“ því þar er um að ræða hluti sem eðli sínu samkvæmt eiga sér orsök.
Með öðrum orðum er engin rökvilla fólgin í því að spyrja hvað orsakaði tilvist þessa eða hins, svo lengi sem þetta og hitt sem um er spurt er þess eðlis að það gæti hafa verið, eða var í raun, orsakað af einhverju(m).
En það á einfaldega ekki við um Guð!
Ég hef heldur aldrei haldið því fram að allt sem er til eigi sér orsök. En hitt þykir mér nokkuð skynsamleg ályktun að allt sem verður til, að allt sem á sér upphaf, eigi sér orsök.
Hvað með alheiminn!?
Getur hann verið frumorsökin?
Nei!
Af þeirri einföldu ástæðu að hann hefur ekki alltaf verið til. Alheimurinn varð til. Hann á sér upphaf. Og það útilokar hann sem frumorsök.
Alheimurinn er í raun eins og lánveitandi sem er sjálfur í skuld.
Veruleiki utan tíma, rúms og efnis er því mun sennilegri kandídat sem frumorsök. (Og við það má bæta að slík lýsing passar vel við Guð kristinnar trúar.)
Það eru því grundvallarmistök að spyrja „Hver orsakaði frumorsökina?“. Ef hún ætti sér orsök þá væri ekki um frumorsök að ræða.
Samkvæmt skilgreiningu felur hugtakið Guð í sér nauðsynlega veru (veru sem getur ekki ekki verið til), hinn óskapaða skapara alls annars. Ekkert sem er skapað gæti verið Guð í neinum skilningi.
Svo framarlega sem við höfum þennan almenna skilning á Guði í huga er ljóst að spurningin „Hver skapaði Guð“ á einfaldlega ekki við. Við værum í raun að spyrja „Hver eða hvað skapaði það sem samkvæmt skilgreiningu er eilíft og óskapanlegt?“.
Slík spurning felur í sér rövillu. Við gætum allt eins spurt „Hvernig bragðast C moll nóta?“.
Spurningin hefur enga merkingu!
Nú gæti einhver hugsað með sér:
„Nei, bíddu við! Þetta hljómar allt afskaplega skynsamlegt, en það er eitthvað gengur ekki upp. Þótt ég viti ekki alveg hvað það er þá virkar þetta of einfalt fyrir minn smekk.“
Allt í lagi!
Vera kann að þú teljir að svarið geri ráð fyrir því að Guð sé til!?
Svo er þó ekki!
Tilvist Guðs er einmitt það sem við erum að rökræða, ekki satt. Og til að svara spurningunni „Hver skapaði Guð?“ er ekki hægt að gera fyrirfram ráð fyrir því að Guð sé til.
Þegar guðleysingi og guðstrúarmaður rökræða um tilvist Guðs þá eru þeir öllu jafna sammála um hver Guð er og hvers eðlis hann er, ef hann væri til. Að öðrum kosti hefði rökræðan litla merkingu.
Þeir eru ósammála um hvort til sé eitthvað, einhver veruleiki, sem hugtakið á við.
En það sem guðstrúarmaðurinn bendir hér á er einfaldlega það að í ljósi hins hefðbundna og sameiginlega skilnings á hugtakinu Guð – „Hinn óskapaði skapari alls annars“ – getur maður ekki spurt „Hver skapaði Guð?“.
Og það á við hvort sem Guð er til eða ekki.
En er ekki hægt að skilja Guð með margvíslegum hætti?
Jú, vissulega.
Má þá ekki líta svo á að merking hugtaksins – „Hinn óskapaði skapari alls annars“ – sé huglægt og valið af geðþótta.
Nei, alls ekki!
Hugtakið er langt í frá handahófskennt.
Segjum samt að svo sé, og að til séu önnur guðshugök og annar skilningur á Guði. Eina hugtakið sem kemur okkar umræðu við væri það hugtak sem lýsir Guði sem takmörkuðum veruleika sem eigi sér orsök.
Og sá skilningur á Guði er til, og þeir sem aðhyllast hann.
En hvað með það!? Þeir sem skilja Guð á þann hátt geta með réttu spurt (og ættu auðvitað að spyrja): „Hver eða hvað skapaði Guð?“.
En það er þeirra mál!
Ég lít ekki svo á að Guð sé þess eðlis og þarf því ekki að svara þeirri spurningu. Þegar ég tala um Guð þá er ég ekki að tala um slíkan Guð. Þessháttar Guð er einfaldlega ekki til að mínu mati.
Þegar hugsað er um Guð í ljósi kristinnar trúar (sem ég aðhyllist) felur spurningin þar af leiðandi í sér rökvillu og hefur því enga merkingu.
Þetta hefur auðvitað ekkert að gera með það hvort slíkur Guð sé raunverulega til eða rkki. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er einfaldlega til að undirstrika að kristið fólk þarf ekki að svara spurningunni því hún á ekki við þann Guð sem það trúir á og telur vera til.
(Burtséð frá því er svarið býsna augljóst, eins og hér hefur verið lýst.)
En þetta er eiginlega útúrdúr vegna þess að hið kristna guðshugtak er alls ekki handahófskennd eða valið af geðþótta.
Einfaldlega vegna þess að einhvers staðar verður að setja punktinn aftan við!
Af hverju?
Jú, segjum að ég skuldi þér pening. Þar sem ég á engan pening fæ ég lánaðan pening hjá Jóni til að borga þér skuldina. Illu heilli á Jón heldur engan pening og slær því Sigurð um lán svo hann geti lánað mér peninginn. Því miður gildir það sama um Sigurð og um Jón. Hann á engan pening og ákveður að spyrja Guðmund um lán svo hann geti lánað Jóni peninginn.
Þetta getur auðvitað ekki haldið svona áfram út í hið óendanlega. Þú mundir aldrei fá peninginn þinn tilbaka. Ástæðan er sú er Jón, Sigurður og Guðmundur eru skuldugir lánveitendur. Þeir geta ekki gefið það sem þeir eiga ekki. Ef röðin kemur aldrei að neinum sem raunverulega á pening er lítil hætta á að þú fáir peninginn þinn einhvern tíma tilbaka.
Í sama skilningi getur ekki eitthvað (köllum það A) verið frumorsök einhvers annars (köllum það B) ef það (A) þarf fyrst að verða til (þ.e. vera orsakað af einhverju öðru) áður en það getur orsakað eitthvað annað (B).
Maður verður að láta staðar numið við frumorsökina – það sem ekki á tilvist sína einhverju öðru að þakka.
Á endanum hljótum við að koma að einhverju sem er einfaldlega til í sjálfu sér – nauðsynlegri veru og eilífri, veru sem er ekki orsökuð af einhverju öðru, veru sem er hinn óskapaði skapari alls annars.
Slíkt hugtak er ekki handahófskennt heldur krafa skynseminnar.
Og það hefur alltaf verið skilningur kristinnar trúar að Guð sé slík vera:
Drottinn, þú hefur verið oss athvarf
frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
(Davíðsálmur 90)