Jólin eru tími kraftaverks.
Í hugum kristins fólks, að minnsta kosti.
Barn fæddist sem ekki var getið með náttúrulegum hætti.
Það kemur þó ekki á óvart að í dag setja margir fyrirvara við meyfæðinguna (og kraftaverk yfirhöfuð).
Ýmsir hafa „vísindalega“ fyrirvara þegar spurningin um meint kraftaverk er annars vegar. Þeir halda því fram að reynsla okkar af og þekking okkar á náttúrulögmálum sýni að kraftaverk séu vísindalega óhugsandi.
Í því samhengi er oftar en ekki gengið fyrirfram út frá þeirri heimspekilegu forsendu að Guð sé ekki til. En um það geta vísindin vitanlega ekkert sagt.
Hitt er þó annað mál að ef Guð er til, sá sem skóp náttúruna og setti henni lögmál sín (sem af ýmsum ástæðum er skynsamlegt að ætla) eru kraftaverk vitanlega möguleg og alls ekki óhugsandi.
Og raunin er að þeir sem trúa á kraftaverk líta ekki framhjá þeirri reglufestu sem Guð hefur sett náttúrunni.
C.S. Lewis bendir réttilega á að sú skoðun að framþróun vísinda hafi með einhverjum hætti útilokað kraftaverk tengist þeirri hugmynd að fólk til forna hafi eingöngu trúað á kraftaverk vegna þess að það þekkti ekki lögmál náttúrunnar.
Að trú á kraftaverk geti ekki byggt á öðru en fáfræði um eðlilegan gang náttúrunnar.
En stundarhugsun sýnir að slíkt er vitleysa – og frásögnin af fæðingu Jesú er skínandi gott dæmi þar um.
Hvað gerði Jósef þegar hann komst að því að unnusta hans var barnshafandi?
Jú, hann ákvað hann að skilja við hana.
Af hverju?
Af því hann vissi jafnvel og nútímalæknar hvernig börn eru tilkomin. Hann vissi að samkvæmt hefðbundinni framvindu náttúrunnar eignast konur ekki börn án þess að karlmaður komi þar nærri.
Hann vissi jú lítið um smáatriðin og það sem á sér stað í líkama konunnar.
En hann vissi sannarlega að kona eignast ekki undir venjulegum kringumstæðum barn ein með sjálfri sér.
Slík fæðing væri með öðrum orðum óhugsandi nema hin reglubundna framvinda náttúrunnar hefði verið sett til hliðar eða eitthvað lagt við hana af einhverju utan við og ofar náttúrunni.
Þegar Jósef viðurkenndi fyrir sjálfum sér að ástand Maríu var ekki tilkomið vegna ótrúmennsku hennar heldur vegna kraftaverks þá viðurkenndi hann að kraftaverkið var eitthvað sem andstætt var reglu náttúrunnar – og þar af leiðandi vitnisburður um yfirnáttúrlegan mátt utan hennar.
Ekkert getur nefnilega verið óvenjulegt fyrr en maður hefur uppgötvað og komið auga á það sem er venjulegt.
Trú á kraftaverk veltur því ekki á vanþekkingu á lögmálum náttúrunnar.
Þvert á móti er trú á kraftaverk einungis möguleg ef við þekkjum lögmál náttúrunnar.
Forsendur fyrir trú eða vantrú á kraftaverkum eru því þær sömu í dag og þær voru fyrir tvö þúsund árum.
Ef Jósef hefði ekki átt sína trú og sitt taust til Guðs hefði hann getað afneitað yfirnáttúrlegum uppruna Jesú með eins hægu móti og hver annar í dag.
Með sama hætti getur sérhver nútímamaður sem trúir á Guð gengist við kraftaverki með eins hægu móti og Jósef.
Með fæðingu Jesú gekk sjálfur Guð inn á vettvang sögunnar.
Guð er ekki fjarlægur máttur, utan og ofan við þennan heim, sem lætur sig líf þitt engu varða.
Hann steig inn á svið þessa heims, inn í lífið þitt og mitt. Hann kom sem maður líkt og við til þess að finna okkur, sérhvern mann.
Koma hans inn í þennan heim áréttar umfram allt að þessi heimur skiptir máli.
Að þú skiptir máli!
Það eru sannarlega góðar fréttir nú á dögum, sannkallað fagnaðarerindi.
Að við erum ekki ein í blindum og skeytingarlausum alheimi.
Og „allt varð þetta til þess, að rætast skyldu orð Drottins fyrir munn spámannsins: Sjá, mærin mun þunguð verða og son ala. Nafn hans mun vera Immanúel, það þýðir: Guð með oss.“
Guð með okkur, þér og mér.
Hér og nú.
Þvílík frétt, hvernig sem á hana er litið.
Þvílíkur boðskapur. Hann er slíkur að maður getur varla meðtekið hann til fulls.
Jólin leiða okkur fyrir sjónir Guð sem er með okkur, Guð sem er hér og nú.
Og hann er kominn til þess að láta til sín taka.
Hann ætlar sér að umskapa þennan heim til þeirrar myndar sem honum var ætlað frá upphafi.
Til þeirrar myndar sem hefur svo herfilega bjagast.
Guð lítur ekki framhjá ranglæti og þjáningum þessa heims. Hann er ekki tilbúinn til þess, því þessi heimur er sköpun hans.
Guð vill leiða okkur fyrir sjónir það líf sem hann ætlar okkur – líf í fullri gnægð – og vísa okkur veginn þangað.
Með komu hans í heiminn hefur kærleikurinn, réttlætið og miskunnsemin rutt sér til rúms, holdi klætt, og kallar alla til sín.
Og öllum er frjálst að svara.
Það segja jólin okkur.
Guð er raunverulega kominn í heiminn.
Það þýðir að kristin trú er fagnaðarerindi ætlað öllum, erindi sem getur fyllt hjarta okkar allra, einmitt vegna þess að það snýst ekki bara um andlega og tímabundna uppfyllingu.
Jólin segja okkur að Guð ætlar sér ekki að sitja hljóður og aðgerðalaus hjá í hnignandi heimi sem þjakaður er af ranglæti, ófriði og ofbeldi.
Og þess vegna erum við kölluð að jötunni þessi jól sem önnur, til þess að opna fyrir Guði dyrnar að okkar lífi, til þess að taka höndum saman með honum, til þess að umskapa eða endurnýja þennan heim til sinnar upprunalegu myndar, og leiða fram sigur Krists yfir öllu sem stendur í veginum fyrir því.
Jólin eru ekki aðeins tími til að trúa, heldur og til að treysta Guði, rétt eins og Jósef gerði þegar hann tók engilinn á orðinu og gekkst við kraftaverkinu sem leiddi frelsara heimsins inn í þennan heim.