Miðvikudagur 25.01.2017 - 07:39 - FB ummæli ()

Að vera eða ekki vera! Vangaveltur Anselms frá Aosta

Ein þekktasta – og að mínu mati frumlegasta – röksemdafærslan fyrir tilvist Guðs eru hin svokölluðu verufræðirök ítalska miðaldamunksins og heimspekingsins Anselms frá Aosta (1033–1109).

Anselm var munkur, kennari og ábóti í klaustrinu Bec í Normandí, og síðar erkibiskup í Kantaraborg.

Hann var samtímamaður fyrstu íslensku biskupana, Ísleifs, Gissurar og Jóns, og annarra nafntogaðra íslendinga á borð við Sæmund fróða, Ara fróða, Teit Ísleifsson og Hafliða Másson.

Anselm var einn mesti lærdómsmaður síns tíma og einn af fyrstu skólaspekingunum svokölluðu.

Skólaspeki var lærdómshreyfing eða stefna innan evrópskra háskóla á miðöldum þar sem leitast var við að gera grein fyrir kristinni trú og innihaldi hennar með röklega hugsun og skynsemi að leiðarljósi.

Verufræðirök Anselms litu dagsins ljós árið 1078 í ritinu Proslogion. Þau voru nýstárleg og djörf og hafa heillað heimspekinga allar götur síðan – og skipt þeim í andstæðar fylkingar.

Í klaustrinu í Bec bar Anselm ábyrgð á uppfræðslu munkanna. Að þeirra beiðni skrifaði hann Monologion, rit sem hefur að geyma íhuganir um tilvist og eðli Guðs, efni sem var Anselm afar hugleikið og hann ræddi oft við munkana í Bec.

Anselm sá það sem eitt megineinkenni kristinnar trúar að hún býður heim og hvetur til spurninga, hugsunar og lærdóms. Fides quaerens intellectum – trú í leit að skilningi.

Anselm þótti umfjöllun sín í Monologiun þó heldur of flókin og margþætt og vildi einfalda hana. Þess vegna ritaði hann Proslogion, sem var nokkurs konar framhaldsrit, þar sem Anselm dregur saman í eina samfellda röksemdafærslu – unum argumentum – fyrri umfjöllun sína um Guð, tilvist hans og eðli.

Lykillinn að hinni nýju röksemdarfærslu – sem nú er þekkt sem verufræðirökin – var skilgreining Anselms á Guði sem aliquid quo nihil maius cogitari possit eða það, sem ekkert æðra er hægt að hugsa sér.

Með öðrum orðum er Guð hin æðsta hugsanlega vera!

Ekkert er Guði æðra. Ekkert tekur Guði fram eða stendur honum ofar. Ef svo væri þá væri það Guð.

Hér er um að ræða nokkuð óumdeilda skilgreiningu á því hver Guð er, ef Guð á annað borð er til.

Og Anselm færir rök fyrir því að sá sem réttilega skilur hugtakið eða hugmyndina um hina æðstu hugsanlegu veru sér að slík vera hlýtur að vera til.

Af hverju?

Jú, væri hún ekki til þá væri hún ekki hin æðsta hugsanlega vera.

Raunveruleg tilvist tekur ímyndaðri tilvist fram.

Það er nefnilega æðra að vera til en ekki vera til.

Hin æðsta hugsanlega vera hlýtur því að vera til. Hún getur ekki ekki verið til!

Tilvist hennar er nauðsynleg.

Það er, eða ætti að vera, augljóst hverjum þeim, að mati Anselms, sem réttilega skilur guðshugtakið. Í því samhengi vitnar hann í Davíðssálm 14 þar sem segir: „Heimskinginn segir í hjarta sínu: Enginn Guð.“

Slíkt gæti enginn sagt, að mati Anselms, sem raunverulega skilur merkingu hugtaksins um hina æðstu veru, eða áttar sig á því hver og hvers eðlis Guð er.

Í gegnum aldirnar hafa margir tekið röksemdafærslu Anselms upp á arma sína og lagt fram eigin útgáfu af henni, menn á borð við Dun Scotus, Descartes, Spinoza og Leibniz.

Sá sem hefur lagt fram þróuðustu útgáfu verufræðirakanna til þessa er Alvin Plantinga, einn fremsti trúarheimspekingur dagsins í dag.

Að hans mati eru verufræðirökin ekki aðeins góð og gild heldur veita þau jafn góða ástæðu til að gangast við tilvist Guðs og hvaða heimspekilegu rök sem eitthvað kveður að veita fyrir niðurstöðu sinni.

Í útgáfu sinni af rökunum bendir Plantinga á (eins og Leibniz hafði áður gert) að verufræðirökin gera ráð fyrir því að hugtakið Guð – þ.e. hin æðsta hugsanlega vera – er ekki ekki merkingarleysa eða mótsagnakennt.

Með öðrum orðum sé því ekki hægt að útiloka tilvist Guðs.

Tilvist Guðs er möguleg, hugsanleg.

Plantinga orðar þetta sem svo að sá heimur þar sem Guð er til er mögulegur.

Með mögulegum heimi á Plantinga einfaldlega við tæmandi lýsingu á veruleikanum, tiltekna útfærslu af honum, eða hvernig veruleikinn gæti mögulega verið.

Af öllum þeim myndum sem veruleikinn gæti mögulega og hugsanlega tekið á sig þá er ein slík mynd slík að Guð er til. Í þeirri útfærslu veruleikans er staðhæfingin „Guð er til“ sönn staðhæfing.

Væri hugtakið Guð hins vegar mótsagnakennt eða óhugsandi (eins og hugtakið „giftur piparsveinn“ eða „þríhyrndur hringur“) þá gæti það ekki vísað til neins veruleika og Guð því ómögulega verið til.

Í útgáfu sinni af rökunum skilur Plantinga Guð sem svo að hann sé vera sem búi yfir „fullkomnum yfirburðum“ (eiginleikum á borð við alvisku, almætti og siðferðilegri fullkomnun) í sérhverjum mögulegum heimi.

Sú vera sem býr yfir fullkomnum yfirburðum í sérhverjum mögulegum heimi býr yfir því sem Plantinga kallar „fullkomnum mikilfengleika“.

Og sá eiginleiki, fullkominn mikilfengleiki, er mögulegur, að mati Plantinga.

Hann sé ekki hægt að útiloka.

Það er því til mögulegur heimur, eða sú útfærsla af veruleikanum, þar sem sá eiginleiki svarar til einhvers.

Með öðrum orðum er sú vera sem býr yfir fullkomnum mikilfengleika mögulega til.

En þá, bætir Plantinga við, hlýtur slík vera að búa yfir fullkomnum yfirburðum í sérhverjum mögulegum heimi, og þar á meðal í raunheimi (veruleikanum eins og hann raunverulega er).

Þar af leiðandi er Guð til.

Röksemdarfærsla Plantinga stendur og fellur með upphafsforsendunni, að vera sem búi yfir fullkomnum yfirburðum sé mögulega til.

Höfum við einhverja ástæðu til að gangast við henni?

Já, segir Plantinga.

Til að hrekja röksemdafærsluna yrði að sýna fram á að hugtakið yfir slíka veru sé mótsagnakennt eða röklega út í hött (í sama skilningi hugtakið „giftur piparsveinn“ er út í hött) og sé þar af leiðandi óhugsandi og ómögulegt.

En það er ekki hlaupið að því, enda virðist hugtakið um slíka veru engan vegin vera mótsagnakennt í þeim skilningi.

Raunar er það fullkomlega skiljanlegt og laust við röklegar mótsagnir.

Í því ljósi má segja að tilvist slíkrar veru sé vissulega möguleg.

Ennfremur bendir Plantinga á að upphafsforsenduna megi styðja í ljósi „ytri“ þátta og á þá við aðrar röksemdafærslur fyrir tilvist Guðs (heimsfræðirök, markmiðsrök, siðferðisrök o.s.frv.) sem sýni að tilvist Guðs er í öllu falli möguleg.

Og ef svo er, ef tilvist Guðs er möguleg, þá er hún einnig, samkvæmt röksemdafærslu Anselms og Plantinga, röklega nauðsynleg.

Mörgum þykir röksemdafærsla Anselms lítið annað en skemmtilegur leikur að orðum. Glæsileg og áhugaverð heimspeki en ekki mikið meira en það.

Og ýmsir hafa andmælt rökunum í gegnum aldirnar.

En jafnvel þótt verufræðirökin ein og sér sannfæri ekki marga um tilvist Guðs í dag – kannski ekki í fyrstu atrennu – þá eru þau enn allrar athygli verð, rúmum 900 árum síðar, og eiga sér mikilsverða málsvara sem ekki er hægt að líta framhjá.

Og þau eiga sannarlega sitt pláss í umræðunni um tilvist Guðs.

En burtséð frá skoðunum einstaka fólks á verufræðirökunum þá sýna þau – eins og aðrar röksemdafærslur fyrir tilvist Guðs – að guðstrú verður ekki afskrifuð með hægu móti sem tóm og blind trúgirni þar sem skynsemi og heilbrigðri hugsun er varpað fyrir róða.

Flokkar: Anselm af Kantaraborg · Guð · Heimspeki · Tilvist Guðs · Verufræðirök

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur