Mánudagur 06.04.2015 - 16:23 - FB ummæli ()

Dúllur á Alþingi

Birgitta Jónsdóttir, Pírati, kallar Davíð Oddsson dúllu í fjölmiðlum í dag. Sjálfur hef ég ekki séð Davíð í tvö ár. Hitti hann síðast fyrir utan Melabúðina í kosningabaráttunni á vordögum 2013. Rétti honum kosningabækling Framsóknarflokksins. Davíð virtist ekkert sérstaklega skemmt við þetta uppátæki mitt. Orðið dúlla kom ekki upp í huga mér við það tækifæri.

Sjálfur hef ég hins vegar alltaf verið þeirrar skoðunar að Píratar séu óskaplegar dúllur á þingi. Sjaldnast skil ég þá almennilega, en það skrifast örugglega á mitt takmarkaða heilabú. Hins vegar var ég fyrir löngu búinn að taka eftir afstöðuleysi þeirra þegar kom að atkvæðagreiðslum. Skýringin er núna komin. Þeir hafa ekki tíma til að kynna sér öll mál og vilja því frekar sitja hjá heldur en að greiða atkvæði út í loftið. Þetta er góð og gild ástæða, en hefur hins vegar ekki komið í veg fyrir að Píratar séu þaulsetnir í ræðustól þingsins, þar sem þeir tjá sig um öll heimsins mál. Þegar kemur að atkvæðagreiðslum um sömu mál eru þeir hins vegar svo illa að sér um þau að ekki er hægt að greiða atkvæði.

Svona er heimurinn skrítinn.

Íslendingar er hins vegar dúllur, rétt eins og Píratar. Það er ástæða þess að enginn fjölmiðill spyr Birgittu um hvernig hún ætlar að leysa höftin, taka á húsnæðisvandanum, heilbrigðiskerfinu, eða öðrum bráðum vanda sem blasir við okkur. Af nógu er að taka.

En eitt mega Píratar eiga. Þeim hefur tekist að hrista upp í umræðunni í þjóðfélaginu þegar kemur að pólitík. Þeir hafa náð að tala til þjóðarinnar (þrátt fyrir skilningsleysi mitt), svolítið sem hefðbundnu flokkunum hefur mistekist. Þeir eiga þökk skilið fyrir það. Það hefur síðan skilað sér í könnunum. Það er umhugsunarefni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur