Fimmtudagur 16.04.2015 - 20:30 - FB ummæli ()

Krafa um réttlæti

Sá óróleiki sem verið hefur í þjóðfélaginu undanfarin ár skrifast að mestu á aukna misskiptingu auðs. Ákveðinn hópur í þjóðfélaginu hefur náð að skara eld að sinni köku svo um munar á meðan þorri almennings situr eftir. Milljónamennirnir eru komnir aftur og heimta bónusa og aðra kaupauka. Laun þeirra eru tíföld eða tuttuguföld laun verkmannsins.  Humarinn og hvítvínið frá 2008 er þeim enn í fersku minni.

Og þeir ríku heimta ætíð meira. Á meðan situr stór hópur eftir með laun sem duga vart fyrir mat, hvað þá afborgunum af lánum. Í stórum þjóðfélögum ber minna á þessu misrétti, í litlum þjóðfélögum er ekki hægt að leyna því. Réttmætar kröfur um réttlæti og sanngirni verða háværari.

Í Kastljósþætti kvöldsins var upplýst að fiskverkakona hjá HB Granda fengi 215 þúsund krónur útborgaðar á mánuði, með bónus, eftir 15 ára starf. Það lifir enginn af slíkum launum. Eldri borgarar þessa lands lifa því síður af lífeyrisgreiðslum sem nema um 160 þúsund krónum á mánuði, nema þeir séu svo heppnir að vera skuldlausir.

Hvað getum við látið þetta viðgangast lengi? Lægstu laun verður að leiðrétta til muna, en leiðréttingin má hins vegar ekki fara upp allan launastigann. Það væri ávísun á efnahagslega kollsteypu.

En það er vitlaust gefið í þjóðfélaginu. Atvinnurekendur og stjórnmálamenn sem opna ekki augun fyrir því eiga erfitt líf fyrir höndum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur