Laugardagur 30.05.2015 - 19:59 - FB ummæli ()

Getur það verið?

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar hefur  gagnrýnt aðgerðir stjórnvalda í tengslum við kjarasaminga.

Gott og vel. Menn nota þau vopn sem þeir hafa í pólitískri baráttu.

Þetta fékk mig hins vegar til að hugsa um annað, þó þessu tengt.

Starfsgreinasambandið kynnti kröfur sínar um 300 þúsund króna lágmarkslaun í lok janúar síðastliðnum. Nokkrum dögum síðar tóku bæði Eygló Harðardóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, ráðherrar Framsóknarflokksins, opinberlega undir þessa kröfu og þótti ýmsum vel í lagt hjá þeim. Ýmsir þingmenn Framsóknar tóku undir þetta.  Sjálfur taldi ég aðrar leiðir vænlegri til að bæta kaupmátt hinna lægstlaunuðu.

Vinstri grænir tóku undir 300 þúsund króna kröfuna.

Samfylkingin þagði að mestu um málið. Á landsfundi Samfylkingar í lok mars var ekki tekið undir kröfuna um 300 þúsund króna lágmarkslaun, heldur einungis talað um að bæta þyrfti kjör hinna lægstlaunuðu. Til samanburðar samþykkti flokksþing Framsóknarflokksins einróma stuðning við  300 þúsund króna kröfuna hálfum mánuði síðar.

Þó er rétt að taka fram að einstakir þingmenn Samfylkingar, t.d. Guðbjartur Hannesson, stigu fram í millitíðinni, og lýstu yfir stuðningi við kröfur verkalýðshreyfingarinnar. Smá saman fóru einstök félög flokksins líka að taka undir kröfuna.

Það var þó ekki fyrr en 21. apríl sl. sem þingflokkur Samfylkingarinnar sendi frá sér ályktun með stuðningi við 300 þúsund króna lágmarkslaun – þremur mánuðum eftir að krafan kom fram.

Samfylkingin hefur oft verið talin helsti málsvari alþýðunnar og verkalýðsins. Svo virðist sem Framsóknarflokkurinn hafi nánast alfarið tekið við því hlutverki og væri raunar hægt að telja upp fjölmörg önnur mál því til stuðnings.

Getur það verið?

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur