Föstudagur 30.10.2015 - 09:32 - FB ummæli ()

Umræða um RÚV á hærra plan

Framtíð Ríkisútvarpsins verður ekki ákveðin nema jafnhliða sé tekin umræða um hlutverk þess.

Höfum eitt á hreinu. Það er ekkert í lögum eða þjónustusamningi  sem bannar fjárveitingavaldinu að skera niður framlög til RÚV.

Vandamál RÚV hefur ekki síst verið að þetta er félag sem hefur viljað vera „allt fyrir alla.“ Slíkt kostar mikla fjármuni. Nærtækast væri að skilgreina hlutverk og starfsemi RÚV frá grunni og þá þarf að huga að nokkrum þáttum. Hér verður aðeins minnst á tvo þeirra, en vissulega eru þeir mun fleiri.

RÚV hefur verið gagnrýnt fyrir að sinna afþreyingu sem einkamiðlar geta séð um. Sé afþreyingarefnið skorið af RÚV verða landsmenn væntanlega að kaupa sér áskrift að einkamiðlum ef þeir vilja slíkt efni (Skár 1 er reyndar í augnablikinu með opna dagskrá). Er áskrift sú framtíðarsýn sem við viljum þegar kemur að afþreyingu? Vissulega borgum við öll gjald til RÚV, en það er mun lægra en einkaaðilar hafa.

Fjölmiðlar í einkaeigu stjórnast af hagnaði, eðli málsins samkvæmt. Þeir bjóða því upp á efni sem er söluvænt, vænlegt til áhorfs og þannig að auglýsendur hafa áhuga á því. Ákveðið efni sem hefur skírskotun til þrengri hópa, t.d. ýmislegt menningarefni, verður því gjarnan afgangsstærð.

Þessu hefur verið svarað með því að fólk geti nálgast slíkt efni á internetinu, eða öðrum stöðum, sé áhugi á annað borð fyrir hendi. Breytt fjölmiðlum og betra aðgengi hafi gjörbreytt landslaginu hvað þetta varðar.  En er það svo?

Er ekki skylda okkar sem þjóðar að leggja rækt við það sem skilur okkur frá öðrum þjóðum, menningu okkar og þjóðararf? Er það ekki skylda ríkisins að sjá til þess að við varðveitum og styrkjum þessa þætti? Og hvað erum við tilbúin til að setja mikla fjármuni í þetta? Kannski er það lykilspurning.

Áhorf á RÚV hefur dregist saman, áhugi almennings hefur minnkað. Ungt fólk horfir varla lengur á sjónvarpið. Hvaða skilaboð felast í því?

Hættum að tala bara um krónur og aura. Í guðs bænum víkkum umræðuna og komum henni á hærra plan.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur