Fimmtudagur 08.09.2016 - 19:42 - FB ummæli ()

Afsökunarbeiðni

Það er full ástæða til að biðja eldri borgara og öryrkja afsökunar á kjör þeirra skuli ekki hafa verið bætt meira en raun ber vitni af þeirri ríkisstjórn sem ég tilheyri.

Það er ófyrirgefanlegt.

Þegar rétt um sjö vikur eru til kosninga bólar ekkert á aðgerðum. Og það þó að nægir fjármunir séu fyrir hendi.

Ég var í hópi þeirra þingmanna sem greiddi atkvæði gegn afturvirkum hækkunum til aldraðra og öryrkja á sínum tíma. Það gerði ég þar sem ég taldi að raunverulegar kjarabætur til framtíðar væri það sem raunverulega skipti máli fyrir þessa hópa. Ekki eingreiðsla upp á nokkra tugi þúsunda sem færi að stórum hluta í ríkiskassann aftur í formi skatta.

Því talaði ég fyrir 300.000 kr. lágmarksgreiðslum til þessara hópa á þeim tíma sem þessi mál voru í umræðunni, í þeirri trú að það yrði niðurstaðan áður en langt um liði. Það hefur ekki gerst og því voru það mistök að samþykkja ekki afturvirku greiðsluna – hún hefði verið betri en ekkert.

Nú er það svo að aldraðir og öryrkjar eru stór hópur og staða fólks er mismunandi. Það hefði verið í lófa lagið að byrja á þeim sem verst standa – en það eru um 9000 manns.

Áhugaleysi þingmanna gagnvart málefnum aldraðra er ekki bundið við kjarabætur. Velferðarnefnd, undir forystu Samfylkingar, stakk tillögu minni um umboðsmann aldraðra snarlega undir stól. Áhugi ákveðinna þingmanna í nefndinni á málinu var minni en enginn.

Það er ekki björgulegt fyrir stjórnarflokkana að fara í kosningar án þess að hafa tekið á málum aldraðra og öryrkja. Kosningaloforð um að taka eigi á þessum málum í næsta lífi verða aldrei sannfærandi.

Það er gott að vita að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, krefst tafarlausra aðgerða í pistli í dag.

Og verði ekkert gert á næstu sjö vikum – þá væri forvitnilegt að vita hvaða ráðherrar draga lappirnar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur