Föstudagur 13.03.2015 - 10:58 - FB ummæli ()

Umsóknin var dauð

Hún er undarleg uppákoman meðal sumra þeirra sem aðhyllast aðild að Evrópusambandinu eftir að utanríkisráðherra staðfesti í gær með bréfi til sambandsins hver er staða umsóknar Íslands frá 2009 um inngöngu í ESB. Það er eins og sumt fólk hafi aldrei áttað sig á því að það var ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem gafst upp á því að fylgja umsókninni eftir. Stjórnin gat í raun ekki fylgt henni eftir. Hvers vegna? Það hefur margoft komið fram. Umsóknin strandaði á þeim skilyrðum sem í henni fólust og fram koma í síðari hluta ályktunar Alþingis þar sem vísað er í álit meirihluta utanríkismálanefndar. Umsóknin strandaði þannig meðal annars á þeim skilyrðum sem utanríkismálanefnd setti varðandi sjávarútvegsmál. Þar með var ekki hægt að fara lengra með þessa umsókn og hún því dauð. ESB gat heldur ekki haldið áfram vegna þessa. Það neitaði að fara lengra því þá hefði verið staðfest opinberlega að ekki yrði hægt að ganga að þeim skilyrðum sem Alþingi setti. Þess vegna sat ESB á rýniskýrslunni um sjávarútvegsmál.

Það hafa því engar viðræður átt sér stað frá því á síðari hluta kjörtímabils síðasta þings. Viðræðum var í raun slitið af Jóhönnu og Össuri áður en tímabil stjórnar þeirra var á enda. Bréf Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra til ESB er bara staðfesting á þessu. Ef það á að gera eitthvað nýtt, t.d. halda áfram viðræðum, verður að koma til ný umsókn með breyttum skilyrðum, svo sem um að það sé í lagi að afhenda ESB full yfirráð yfir tilteknum auðlindum landsmanna – þ.e. ef vilji er fyrir því að ná rýniskýrslunni um sjávarútvegsmál út úr ESB.

Þjóðin er ekki tilbúin til þess að afhenda auðlindir. Þess vegna hefur þetta mál í raun verið dautt þótt ýmsir hafi gert sér vonir um annað.

Það má svo heldur ekki gleyma því að í þeim skilyrðum sem Alþingi setti með áliti utanríkismálanefndar fólst m.a. krafa um að fullveldi Íslands yrði virt. Það er rétt að minna á það nú þegar ESB virðist ætla að taka sér einhverja daga í að lesa þessa stuttu dánartilkynningu umsóknarinnar sem utanríkisráðherrann afhenti í gær.

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Nei við ESB - vefrit
Þau samtök sem standa að Nei við ESB eru Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB-aðild, Herjan, félag stúdenta í H.Í. gegn aðild að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB og Þjóðráð.

Slóðin að vefnum Nei við ESB er www.neiesb.is

Ábyrgðarmaður er Jón Bjarnason.
RSS straumur: RSS straumur