Fimmtudagur 02.02.2012 - 05:15 - FB ummæli ()

Læknisvitjun á jólanótt

Ingólfur Gíslason læknir

Ingólfur Gíslason læknir.

Nýlega las ég bókina Læknisævi eftir Ingólf Gíslason (1874-1951). Bókin er afar fróðleg og góð heimild um Ísland á æviskeiði höfundarins. Einn kafli er nokkuð minnistæður og langar mig að deila hluta hans með lesendum. Væri þetta sena í kvikmynd, gerðust þær tæplega átakanlegri. Atvikið gerist á aðfangadag árið 1908. Það var komið að kvöldverðinum. „Fólkið settist að borðinu, og allir voru í hátíðaskapi. Á eftir átti svo að ganga í kringum jólatré, syngja sálma, skoða smágjafir og drekka kaffi. En máltíðinni var ekki lokið, þegar viðhorfið breyttist allt í einu. Hundarnir fóru að gelta, og hófahljóð heyrðist, einhver var að koma, og nú var líklega ekki til setu boðið.“ Það stóð heima, sendimaður var kominn. „Erindið var að sækja mig til sjúklings vestur yfir heiði. Í koti einu vestur í sveitinni lá ungur bóndi fárveikur og bar ekki af sér fyrir kvölum í höfði.“ Ingólfur ferðbjó sig strax og reið ásamt fylgdarmanninum út í kalda en tunglbjarta nóttina. Sjúklingurinn átti heima í Ljósavatnsskarði í Þingeyjarsýslu, en þar var Ingólfur héraðslæknir.

Ég stakk hestinum með reiðtygjunum inn í kofa á hlaðinu og fikraði mig áfram inn göngin. Ég gat gengið á hljóðið, því að inni var hávær barnsgrátur, sem blandaðist niðurbældum konuekka og þungum og sárum stunum sjúklingsins. Á heimilinu voru aðeins hjónin og þrjú fremur ung börn. Maðurinn þjáðist af hitaveiki og höfuðverk, er var svo sár, að hann gat ekki varizt hljóðum og fékk því enga værð né svefn. Konan sat uppi í rúmi sínu og grét, og börnin þrjú, öll í sama bólinu, háhrinu, því að þau voru sársyfjuð, en náðu ekki að sofna vegna hljóðanna í pabba þeirra. Baðstofan var bara eitt fátæklegt herbergi með þremur rúmum, litlu borði og einu kofforti, aðrir húsmunir voru ekki. Það var ekki jólalegt um að litast þarna inni. Litla stúlkan tveggja ára hætti að skæla, hallaði undir flatt og leit hrædd og hissa og með tárin glitrandi í augunum á þennan ókunna mann, stakk horninu af ábreiðunni upp í sig og hélt báðum höndum í jaðra hennar. Rauðhærður drenghnokki byrgði sig undir yfirsængurræfli, en litli bróðir hans trítlaði berfættur yfir í rúmið til mömmu sinnar, sem nú var að þerra af sér tárin og snyrta sig örlítið til.

Ungi húsbóndinn var augsýnilega mikið sjúkur, hafði ríg í hálsinum og mikla þraut, einkum í höfðinu aftan til. Ég skoðaði hann nú nákvæmlega, mældi hitann og hlustaði lungun og hjarta, enginn vafi virtist leika á því að þetta væri heilahimnubólga á háu stigi. Þá þekktust engin góð ráð við þeim sjúkdómi, þótt nú sé öðru máli að gegna. Ég gat því ekki gert annað en hagræða sjúklingnum, leggja bakstra á höfuð og háls og sprauta góðum skammti af morfíni undir húðina á handlegg, fékk svo konunni glas með róandi og hitaeyðandi mixtúru og lofaði henni, að ég skyldi koma fljótlega aftur til að sjá, hvernig gengi og ef til vill reyna eitthvað fleira. Settist ég nú á koffortið og beið átekta. Brátt hætti sjúklingurinn að hljóða, börnin ultu út af eitt af öðru, og innan stundar voru hjónin sofnuð líka. Ég sat samt enn góða stund á koffortinu og naut þess að sjá þessa þjáðu fjölskyldu hvílast í örmum svefnsins, sem hafði nú unnið mikið miskunnarverk. Litla telpan hafði stungið tveimur fingrunum upp í sig, yngri bróðirinn lá með opinn munninn og hraut dálítið, en sá rauðhærði var búinn að rífa sængurgarminn ofan af sér og lá hálfber. Ég reis þá á fætur og breiddi ofan á snáðann, dró dálítið niður í lampanum, svo að hann skyldi ekki ósa, og bauð svo, í huganum, þessum litla sofandi hóp góða nótt og gleðileg jól.

Læknisævi eftir Ingólf Gíslason, gefin út af Bókfellsútgáfunni í Reykjavík 1948. Kaflinn heitir „Læknisvitjun á jólanótt“ og er á bls. 157-160. Ingólfur var bróðir Garðars Gíslasonar stórkaupmanns og tengdafaðir Thors Thors sendiherra Íslands í Bandaríkjunum.

Flokkar: Menning og listir

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur